Flutningur ríkisstofnana

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:18:45 (1296)


[15:18]
     Gunnlaugur Stefánsson :
    Virðulegi forseti. Skýrsla sú sem lögð var fram í sumar af nefnd er gerði tillögur um flutning ríkisstofnana út á land markar sannarlega tímamót. Það var síðast 1976 ef ég man rétt sem nefnd skilaði skýrslu um sama efni og með þessari nýju skýrslu er búið að leggja grundvöll að því að hefja undirbúning að flutningnum sjálfum. Það var algert samkomulag eða því sem næst samkomulag í nefndinni um flutning þessara stofnana og samstarfið allt gekk mjög vel og þar áttu fulltrúar allra þingflokka aðild að máli.
    Ég styð því heils hugar þá tillögu hæstv. forsrh., hvernig hann leggur til að Alþingi komi að málinu, en ég legg áherslu á að þessu máli verði hraðað eins og frekast má.