Auglýsing frá Morgunblaðinu

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 15:53:04 (1320)

[15:53]
     Fyrirspyrjandi (Páll Pétursson) :
    Frú forseti. Ég verð að játa að mér þykir þeir vera rausnarlegir hjá sjónvarpinu. Svar hefur komið frá menntmrh. að fyrir þetta hafi verið borgaðar 1 millj. 604 þús. Ég er með gjaldskrá sjónvarpsins og mér sýnist að þessi auglýsing hefði samkvæmt gjaldskrá átt að kosta 3 millj. 515 þús. og 400 kr. án virðisaukaskatts. Ekki er getið um reglur um afslátt á löngum auglýsingum. Hins vegar er getið um afslátt á auglýsingum sem birtar eru hvað eftir annað, t.d. er veittur 10% afsláttur ef auglýsing er birt fimm sinnum, 10 birtingar veita 15% afslátt o.s.frv.
    Ég tel að hér hafi verið um mikla rausn að ræða og raunar gjöf. Ég tel alveg víst að Morgunblaðið hafi kostað upptöku þessa myndbands. Ég tek undir þær athugasemdir sem gerðar hafa verið við formgalla á birtingu auglýsingarinnar því þetta var kynnt sem hvert annað dagskrárefni, ekki sem auglýsing og ekki afmarkað samkvæmt því sem segir í útvarpslögum. Þetta leiðir hugann að hvert við erum að fara í kostun sjónvarpsefnis. Kostunaraðila var ekki getið í þessu sambandi. Er það æskileg stefna hjá ríkissjónvarpinu að fyrirtæki geti keypt sig inn í dagskrá ríkissjónsvarpsins með svona efni? Er það t.d. eðlilegt að Hekla hf., svo ég nefni eitthvert fyrirtæki af handahófi, geti minnst afmælis síns eða tyllidags með því að kaupa sig inn í dagskrá sjónvarpsins? Ég held það þurfi að taka til rækilegrar endurskoðunar reglur um kostun sjónvarpsefnis.