Húsbréfakerfið

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:32:23 (1335)

[16:32]
     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson) :
    Hæstv. forseti. Ekki get ég þakkað hæstv. félmrh. fyrir svör hennar, út úr þeim fékk ég ekki neitt. En ég ætla að leika mér að tölum. Það er búið að gefa út húsbréf fyrir 44 milljarða og ef við segjum að afföllin á þessum fjórum árum hafi verið að meðaltali um 15%, sem er ekki langt frá lagi, þá hafa farið í afföll 7 milljarðar kr. eða fast að því. Í stimpilgjöld og lántökugjöld hafa farið 1,1 milljarður. Íslenskir húsbyggjendur hafa sem sagt greitt 8 milljarða í afföll á þessu tímabili. En það sem ég var að spyrja sérstaklega um og vil spyrja enn og ítreka varðar þann stóra hóp sem fór verulega illa út úr þessu kerfi 1991 eftir að ríkisstjórnin hafði með handafli hækkað raunvexti í landinu. Hópur sem missti eina á móti hverjum fjórum milljónum yfir í afföll. Þessi hópur er nú að koma inn sem vandamál vegna þess að áætlanir stóðust ekki. Hann situr uppi með lausaskuldir af því að hann tapaði þessari einu milljón.
    Ég fór yfir fyrirheitin sem gefin voru, Alþfl. setti út í fréttapésum og Húsnæðisstofnun gerði einnig, þar var íslenskum húsbyggjendum heitið því að afföll yrðu ekki til staðar í þessu kerfi. Ég hygg að Alþingi verði að ræða þetta mál betur og fá skýrari svör frá hæstv. félmrh. Það verður kannski ekki gert nema í gegnum beiðni um skýrslu eða eitthvað slíkt (Forseti hringir.) því það er enginn vafi á því að margir þessir húsbyggjendur eru sárt leiknir og þurfa á aðstoð að halda, hæstv. forseti.