Laun lækna á sjúkrahúsum

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 16:43:09 (1343)

[16:43]
     Fyrirspyrjandi (Ingibjörg Pálmadóttir) :
    Virðulegi forseti. Fyrirspurn mín er tilkomin vegna reglugerðar um svokölluð ferliverkefni sem tók gildi 1. okt. 1992. Með tilkomu þessarar reglugerðar er læknum heimilt að framkvæma aðgerðir á skurðstofum og göngudeildum og taka fyrir það þóknun af sjúklingum auk þess að vera á fullum launum hjá sjúkrastofnunum. Það þýðir sem sagt að sjúklingur sem fer í aðgerð sem ekki krefst innlagnar eða aðeins skammrar innlagnar greiðir oft 10--14 þús. kr. fyrir læknismeðferð. Þessi fjárhæð rennur beint í vasa skurðlæknisins og svæfingarlæknisins sem skipta henni á milli sín, auk þess, eins og ég sagði áðan, að vera á föstum launum hjá viðkomandi sjúkrahúsi. Þeir nýta að sjálfsögðu öll tæki og tól stofnunarinnar, fá aðstoð hjúkrunarfræðinga og greiða óverulega til stofnunarinnar í formi aðstöðugjalds.
    Í allri umræðu um sparnað í heilbrigðismálum skýtur það skökku við að sá mikli kostnaðarauki sem sjúklingi er gert að greiða fyrir læknisþjónustu skuli nær allur renna sem extrabónus til örfárra sérfræðinga. En þeir, eins og ég sagði áðan, hafa hækkað verulega í launum eftir að þessi umdeilda reglugerð tók gildi.
    Því spyr ég hæstv. heilbr.- og trmrh. á þskj. 189:
  ,,1. Í hve miklum mæli eru læknar á tvöföldum launum við vinnu sína á sjúkrahúsum?
    2. Hyggst ráðherra breyta reglum um tvöfaldar launagreiðslur (ferliverkefni)?``