Ferðakostnaður vegna tannréttinga

36. fundur
Mánudaginn 15. nóvember 1993, kl. 17:11:33 (1358)

[17:11]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil árétta það að eins og getur um í fyrrgreindri reglugerð og byggir á núgildandi lögum þá liggur það skýlaust fyrir að ef um er að ræða tannréttingar vegna tannskekkju sem telst meiri háttar eða alvarlegs eðlis, þá er vitaskuld farið með ferðakostnaðarmálin eins og þegar um aðra sjúkdóma er að ræða. Hér fyrr í vetur hafði hv. 5. þm. Vestf. um það efasemdir að þannig giltu reglur. Það er hins vegar algerlega skýlaust.
    Vandamálið er hins vegar það, eins og hér hefur komið fram, að varðandi ákveðinn hóp barna er byggt á því að þau hafi byrjað í meðhöndlun fyrir 15. mars 1992 og sá tími er að renna út. Það skapar ákveðna mismunun milli þeirra sem fóru í tannréttingu eftir þann tíma og fyrir þann tíma.
    Ég hygg að þessi mál, sem byggja á bandormi frá 1992 eins og fyrirspyrjandi greindi réttilega frá, séu með þeim hætti sem eðlilegt geti talist miðað við þessa misvísun sem til verður vegna þess að menn eru að ljúka ákveðnu ferli þannig að ég sé nú ekki að það sé óeðlilegt út af fyrir sig að byggja á reglugerð frá febrúar 1991 af þeim sökum einum saman.
    Enn fremur held ég að það liggi nokkuð ljóst fyrir samkvæmt orðanna hljóðan í 4. gr. títtnefndrar reglugerðar að það hangir ljóslega saman í 1. tölul. 4. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:
    ,,Sjúkratryggingar endurgreiða 50% af ferðakostnaði sjúklings skv. 1. mgr. 3. gr. og sjúklingur ber 50% án sérstaks hámarks.``
    Þessi tenging er alveg skýr og ljós að minni hyggju.