Vegalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 13:32:30 (1380)


[13:32]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér hér hljóðs vegna orða sem féllu í umræðum um vegalög fyrir nokkru síðan af hálfu hæstv. samgrh. Ég hafði ekki blandað mér í þessa umræðu og hef í sjálfu sér ekki hugsað mér að bæta miklu við þá umfjöllun um vegalögin sem fram hafði farið á tveimur fundum. En svo fór að lokum að ég sá mig knúinn til að kveðja mér hljóðs vegna þess að hæstv. samgrh. fjallaði á þann hátt um eitt tiltekið mál sem vegalögunum tengist, að ég get undir engum kringumstæðum látið því ósvarað. Hér á ég við endurtekin ummæli hæstv. samgrh. varðandi ákvarðanatöku og rekstrarkostnað ferjunnar Herjólfs.
    Strax þegar 1. umr. hófst um málið lét hæstv. samgrh. að vísu nokkuð gamalkunn ummæli falla um þennan ferjurekstur. (Gripið fram í.) En nú er það ekki mitt að gæta hæstv. samgrh., hv. þm. Páll Pétursson. En það er út af fyrir sig þörf ábending að hæstv. samgönguráðherrann ætti að halda sig í þingsalnum þegar þessi mál eru til umræðu. --- Veit forseti hvernig ferðum samgrh. er háttað í hliðarsölum? Hæstv. samgrh. er eins og stundum áður ókyrr undir umræðum. ( Forseti: Hæstv. ráðherra gengur í salinn.)
    Hæstv. samgrh. sagði við upphaf 1. umr. --- nú er hæstv. samgrh. genginn aftur úr salnum, hann fékk sér göngutúr þvert í gegnum salinn og út hinum megin, hæstv. forseti. Það er því spurning hvort við eigum ekki að gera hlé á meðan hæstv. samgrh. þjálfar sig. Hann hefur sennilega ekki komist í líkamsræktina í morgun og á eftir að trimma.
    Þegar hæstv. ráðherra nefndi upphæðir í sambandi við stofnkostnað og rekstrarkostnað ferja sem væri að vaxa í 500--600 millj. er það, eins og hæstv. ráðherra sagði, með leyfi forseta: ,,auðvitað feiknalegt fé og sýnir að ekki hefur verið stigið nógu gætilega til jarðar í þeim efnum.``
    Þá minnti hæstv. ráðherra á tillögu hv. þm. Árna Johnsens og sjálfs sín um að kanna möguleikana á að leggja jarðgöng til Vestmannaeyja, en taldi að það ætti langt í land. Það voru óbreytt orð hæstv. ráðherra.
    Í andsvari á sama fundi sagði hæstv. samgrh., með leyfi forseta: ,,Hæstv. forseti. Ef það hefði verið tæknilega mögulegt að leggja jarðgöng til Vestmannaeyja þá hefði það ekki orðið dýrari kostur hlutfallslega en sá að kaupa Herjólf eins og að því var staðið.``
    Og enn hélt hæstv. samgrh. áfram og minnti aftur á þáltill. sína og hv. þm. Árna Johnsens um að athuga jarðgangagerð til Vestmannaeyja, en endurtók að hún ætti langt í land. Og enn í andsvari við ræðu hv. þm. Guðna Ágústssonar, ef ég man rétt, sagði hæstv. ráðherra: ,,Ef það hefði verið tæknilega mögulegt að leggja jarðgöng til Vestmannaeyja þá hefði það ekki orðið dýrari kostur hlutfallslega en sá að kaupa Herjólf eins og að því var staðið. Ég stend við þessi orð,`` sagði hæstv. samgrh. og bætti svo við: ,,Gallinn er bara sá að það er ekki tæknilega mögulegt að sprengja jarðgöng til Vestmannaeyja, það er gallinn. En við getum rétt ímyndað okkur hvort ekki hefði verið hagræði af slíku. Þetta er akademísk spurning. Við getum deilt um það á þinginu, en við getum líka gert það að gamni okkar yfir kaffibolla niðri sem er kannski viðkunnanlegra.``
    Og enn hélt hæstv. samgrh. áfram í andsvörum og svaraði þá hv. þm. Guðna Ágústssyni sem taldi sig ekki enn hafa fengið botn í málflutning ráðherrans varðandi Herjólf og lái honum hver sem vill. Þá sagði hæstv. samgrh.: ,,Í öðru lagi það sem hann [þ.e. hv. þm. Guðni Ágústsson] sagði um Herjólf var enn útúrsnúningur. Hitt er auðvitað reginhneyksli þegar menn skrifa undir smíðasamning eins og Herjólfs tveim eða þrem dögum fyrir kosningar.``
    Það er nú svo, hæstv. forseti, að ég er eins og sjálfsagt fleiri, ég vænti stjórnendur fyrirtækisins Herjólfs og byggðalagsins í Vestmannaeyjum, að verða heldur leiður á þessum rógi hæstv. samgrh. um þetta mál. Það hlýtur að vera hvimleitt, svo ekki sé meira sagt, fyrir stjórnendur þessa fyrirtækis og íbúa þessa byggðarlags og í raun og veru alla þá sem að þessu máli hafa komið, að hafa æðsta yfirvald samgöngumála í landinu í þeim ham sem hæstv. samgrh. er þegar þetta mál ber á góma. Út af fyrir sig er hægt að umbera það en hitt er öllu alvarlegra að mínu mati þegar æðsti yfirmaður samgöngumála í landinu gerir sig sekan um slíkt dómgreindarleysi eins og hæstv. samgrh. gerir í þessu máli.
    Staðreyndin er sú að ef menn á annað borð leggja sig eftir því að rýna í staðreyndirnar á bak við orð hæstv. samgrh. og samanburð hans annars vegar á kostnaði við að kaupa og reka fullnægjandi ferju til siglinga milli lands og Eyja og hins vegar þann að gera jarðgöng þá opinberar það slíkt hyldýpi í fáfræði um þessi mál að það er ákaflega erfitt undir því að sitja.
    Lítum um sinn fram hjá þeirri staðreynd að á leiðinni milli lands og Eyja er bæði hætta á eldvirkni og miklu misgengi þannig að jarðfræðingar hafa fljótt á litið talið það afar ólíklegan kost að yfir höfuð væri raunhæft að reikna þar með jarðgangagerð. En sleppum því og reynum að átta okkur á því hve mikið vit er í þeim orðum sem hæstv. ráðherra segist ætla að standa við. Gefum okkur að jarðlög á milli lands og Eyja séu ekki óhagstæðari en þau sem eru undir Hvalfjörð. Þá blasa staðreyndir málsins við með eftirfarandi hætti: Stysta leið milli lands og Eyja er 10 km og ef valin yrði sú aðferð, sem er þekkt og kunn og kostnaður þekktur á, að steypa stokk á botninum, þá mætti út af fyrir sig komast af með göng í formi steinsteypts stokks á botni sjávarins sem væru lítið lengri en þessi stysta leið eða 10--10,5 km vegna þess að þá væri auðvitað landtakan við sjávarmál báðum megin. Kostnaður við slíkan stokk yrði 20 milljarðar kr. samkvæmt nýjustu kostnaðartölum sem Vegagerðin hefur undir höndum. Hefðbundin jarðgöng yrðu hins vegar að fara talsvert niður fyrir 100 m dýpi til að vera í föstu bergi með nægjanlega mikilli þekju og vegna þess að nauðsynlegt er að hafa hóflegan halla á göngunum yrðu þau að vera um 15 km löng til þess að leysa þær jarðfræðilegu aðstæður og dýpi og annað sem þarna er fyrir hendi. Kostnaður við slík göng yrðu 12--13 milljarðar kr. Hér nota ég sama einingarverð og gengið er út frá í jarðgangagerðinni undir Hvalfjörð og þetta eru tölur með virðisaukaskatti. Rekstrarkostnaður slíkra ganga er áætlaður 8 millj. kr. á ári á km eða 120 millj. á þessi 15 km göng. Þannig að tölurnar eru svona, hæstv. samgrh. og hv. þingmenn. Stofnkostnaðurinn yrði 12--13 milljarðar kr. og er þá alls ekki gert ráð fyrir neinum frávikum vegna erfiðleika í jarðfræðilegum aðstæðum eða öðru og rekstrarkostnaðurinn 120 millj.
    Þetta leyfir hæstv. samgrh. sér að segja að væri hagstæðara ef það hefði verið tæknilega mögulegt heldur en að kaupa ferju fyrir rúmlega milljarð kr. eða 1.200 millj. og reka hana. Þetta er auðvitað svo fjarstæðukenndur samanburður og málflutningur hjá hæstv. ráðherra að engu tali tekur. Ég held að það sé ekki hægt að ljúka þessari umræðu eftir þau stóru orð sem hér féllu og hæstv. ráðherra hafði forgöngu um, án þess að lýsa aðeins inn í þetta mál. Ef við gefum okkur að nýtískulegt og vel búið skip af því tagi sem núverandi Herjólfur er, eigi að geta enst í a.m.k. 30 ár án verulegra endurbóta með góðu viðhaldi, þá ætti ekki að þurfa að reikna með að til endurnýjunar þyrfti að koma nema þrisvar sinnum á öld. Það væri samt innan við þriðjungur af stofnkostnaði jarðganganna, hæstv. ráðherra. Það að endurnýja Herjólf og reka hann í heila öld, hvað stofnkostnað snertir, er minna en þriðjungur af stofnkostnaði jarðganga. Staðreyndin er líka sú að rekstrarkostnaðurinn, þ.e. að minnsta kosti sá hlutinn sem þarf að vera í formi styrkja til þess að þjónustan geti verið á viðráðanlegu verði, er síst hærri tala heldur en óhjákvæmilegur rekstrarkostnaður neðansjávarganga af þessari vegalengd. Það þekkja auðvitað allir að þar þarf til að koma bæði umtalsverð orkunotkun vegna loftræstingar og dælingar og lýsingar og ýmiss konar rekstrarkostnaður annar fellur til af þessari stærðargráðu sem ég nefndi áðan.
    Ég vísa þessum samanburði og stóryrðum hæstv. samgrh. á bug, þau eru fjarstæða. Það er rétt að hv. alþm. geri sér grein fyrir því að þó svo að rekstur ferjusamgangna af þessu tagi sé vissulega dýr, þá er og verður alltaf dýrt að halda uppi samgöngum til eyja eins og Vestmannaeyja. Við sjáum bæði innan lands og í nágrannalöndunum að það kallar yfirleitt óhjákvæmilega á talsverðan stuðning hins opinbera að

halda uppi samgöngum við slíkar aðstæður. En ég hélt að það væri sæmilega samstaða um að gera það. Þá er alveg augljóst mál að það er slíkt stórvirki að ráðast í neðansjávarjarðgangagerð af þessu tagi að það er alveg furðulegt að hæstv. ráðherra skuli hafa uppi, mér liggur við að segja þvælu af því tagi sem hann gerði í umræðunum um daginn. Látum vera þó að menn svona meira til gamans, eins og ég held að hafi almennt verið talið, flytji þáltill. af því tagi sem hv. þm. Árni Johnsen og hæstv. núv. samgrh. gerðu á sínum tíma. Menn glottu út í annað þegar hv. þáv. varaþingmaður Árni Johnsen ruddist hér inn á þing og flutti sex þáltill. sama morguninn og hann birtist, ég leyfi mér að segja misgáfulegar, hæstv. forseti. En mönnum fannst það svo sem allt í lagi og örlög þeirra tillagna urðu auðvitað eins og margra fleiri slíkra skjala, þær rykféllu á botni skúffu í einhverri nefnd. En það er öllu alvarlegra þegar hæstv. ráðherra úr ræðustóli kemur með fullyrðingar af því tagi sem hann gerði í umræðunum á dögunum.
    Ég vona, hæstv. forseti, að þær tölur sem ég hef hér farið með og sá samanburður sem ég hef gert og ég þori að leggja undir skoðun hjá hverjum sem er, sýni það og sanni svo ekki verður um villst að auðvitað var það á allan hátt nærtækari, einfaldari og ódýrari og viðráðanlegri kostur að ráðast í endurnýjun ferju eins og gert var á sínum tíma og í raun og veru um ósambærilega hluti að ræða. Ætli það sé nú ekki svo að hv. alþm. hafi líka heyrt t.d. hvernig það hefur staðið í milljónaþjóðunum að gera neðansjávargöng undir Ermasund og er það þó ólíku saman að jafna, fjárhagslegu bolmagni þeirra aðila sem að því standa og umferðinni sem um þau á að fara. En það ævintýri hefur orðið mönnum býsna þungt í skauti eins og kunnugt er. Það er almennt viðurkennt að mannvirkjagerð af þessu tagi sæti mikilli óvissu og áætlanagerð er erfið, jafnvel þó að lagt sé í umfangsmiklar og dýrar undirbúningsrannsóknir.
    Hæstv. forseti. Ég vil segja aðeins örfá orð í viðbót um aðdraganda þeirrar ákvörðunar að endurnýja Vestmannaeyjaferjuna Herjólf, sem satt best að segja er með ólíkindum hvernig hæstv. samgrh. leyfir sér að fjalla um. Staðreyndin er sú að það mál var búið að vera lengi á dagskrá og var búið að lenda í miklum hrakningum. Það hafði eðlilega verið lagður mikill þrýstingur af hálfu forsvarsmanna viðkomandi byggðarlags og viðkomandi fyrirtækis á að unnt væri að ráðast í endurnýjun á gamla Herjólfi sem var orðinn gjörsamlega ófullnægjandi til að gegna því hlutverki sem hann átti að gera, þó ekki hefði komið annað til en öryggiskröfur sem hafa stóraukist á síðustu árum vegna tíðra slysa sem orðið hafa í ferjurekstri. Það skip var líka þegar í byrjun ekki nægjanlega vel hannað og samræmdist engan veginn þeim kröfum sem menn gera í dag um bílaflutningaferjur og fólksflutningaferjur. Síðan var auðvitað unnið að þessu máli af krafti í tíð fyrri ríkisstjórnar. Málið var loksins tekið föstum tökum og þeim skollaleik hætt sem viðgengist hafði áður að boða það á hverju ári að nú væri ákvörðunar að vænta í þessu en tefja það svo og drepa því á dreif ár eftir ár eftir ár, sem hafði orðið hlutskipti Herjólfsmálsins í tíð fyrri ríkisstjórna, m.a. undir forustu Sjálfstfl. Nú var þetta mál loksins sett í eðlilegan farveg. Markaður fyrir notuð skip var kannaður til fulls og þegar hann reyndist ekki henta þá var með eðlilegum hætti unnið að hönnun og útboði á nýsmíði. Að sjálfsögðu var sá undirbúningur settur af stað löngu fyrir kosningar og tilviljun réð því að þannig var komið eftir útboð og samningagerð við lægstbjóðendur að smíðasamningur var tilbúinn til undirritunar á útmánuðum 1991.
    Hæstv. ráðherra stillir því hins vegar upp sem hneyksli og pólitískri spillingu eða guð má vita hvað, að menn skyldu leyfa sér að klára málið þegar það var komið á það stig undirbúnings að það var tilbúið til undirritunar. Ég hafna þessu. Ég vísa þessu frá. Eða er það t.d. þannig að hæstv. núv. samgrh. ætli sér ekki að gera neitt, ekki taka neinar ákvarðanir síðustu mánuðina fyrir næstu alþingiskosningar? Ég segi þá eins og hv. fyrrv. formaður Sjálfstfl. Bjarni Benediktsson á að hafa sagt: Má þá treysta því? Má þá treysta því að hæstv. núv. samgrh. hlífi okkur við öllum ákvörðunum síðustu mánuðina sem hann situr í embætti?
    Í raun og veru er hæstv. samgrh. með sínum málflutningi að segja að stjórnvöldum sé óleyfilegt að taka nokkrar bindandi ákvarðanir sem máli skipta síðustu dagana eða mánuðina sem þau sitja í störfum fyrir kosningar. Auðvitað gengur svona hugsunarháttur ekki upp. Auðvitað verður stjórnsýslan og framkvæmdarvaldið að geta starfað með eðlilegum hætti hvernig sem stendur á almanaksárinu, hvort sem kosningar eru nær eða fjær. Allt annað er fjarstæða.
    Ég tel að það hafi á allan hátt verið staðið eðlilega að undirbúningi og ákvarðanatöku í þessu máli, þ.e. eftir að það komst í farveg í tíð fyrri ríkisstjórnar, hafandi lent í mikilli útideyfu þar á undan. Ég tel að hæstv. samgrh. þurfi að gera betur ef hann ætlar að rökstyðja fullyrðingar sínar um annað heldur en að færa þær fram í stóryrðum einum, eins og hann hefur gert. Svo undrar það mig satt best að segja að hæstv. ráðherra skuli vekja þennan draug upp endurtekið og ítrekað með þeim hætti sem hann hefur gert. Það stendur að vísu þannig á í þessum ferjurekstri og þessum ferjumálum að það var mikið gert á síðasta kjörtímabili eða í tíð fyrri ríkisstjórnar á árunum þar á undan. Og það liggur þannig, ef farið er yfir þau mál, að þá hefur átt sér stað á ákveðnu tiltölulega þröngu árabili gagnger endurnýjun á svo til öllum ferjuflota landsins. Það er sem sagt búið að endurnýja í raun allar helstu ferjur og flóabáta fyrir utan eitt skip, Akraborgina. Þessi endurnýjun hófst með ákvörðun um smíði Baldurs í tíð ríkisstjórnar Framsfl. og Sjálfstfl. og það má segja að henni hafi lokið með komu nýja Herjólfs sumarið 1992. Í millitíðinni voru keypt notuð skip til að halda uppi ferjusiglingum bæði á Eyjafirði og á Ísafjarðardjúpi. Auðvitað liggur það í hlutarins eðli að stofnkostnaðurinn og afskriftir vegna hans vaxa þá á ákveðnu árabili í framhaldinu, en það er líka búið að gera mikið átak í þessum efnum. Ætli það sé ekki svo að íbúar í Vestmannaeyjum, við

Breiðafjörð, við Ísafjarðardjúp og við Eyjafjörð kunni að meta það sem þarna hefur verið gert. Og að fjalla um þessi mál með þeim hætti að þarna hafi átt sér stað einhver bein sóun á peningum, þessum peningum hafi verið kastað á glæ er auðvitað alveg furðulegur málflutningur. En það finnst mér stundum liggja í orðum hæstv. samgrh.
    Það er engin speki, það eru engin ný sannindi að auðvitað kallaði þetta átak í endurnýjum ferjuflotans á aukin fjárframlög í kjölfarið. Það var alltaf með því reiknað og af því vitað. Hitt er svo annað mál að hæstv. samgrh. skyldi ekki standa betur í ístaðinu en svo að Vegagerðin varð að yfirtaka þennan málaflokk án þess að fá það bætt í formi aukinna tekna. Það er auðvitað þar sem hæstv. samgrh. bilaði. Því áður hafði ríkissjóður staðið undir þessum útgjöldum með almennum skatttekjum. En með því að færa þetta yfir á Vegagerðina nú án þess að breikka tekjugrundvöll hennar er verið að skerða ráðstöfunarfé til vegamála varanlega. Hæstv. samgrh., það þýðir ekkert að reyna að snúa sig út úr því.
    Ég vona að mér hafi tekist að einhverju leyti að svara þessu þó út af fyrir sig sé það nú að verða heldur leiðinlegt að þurfa að standa í þessu orðaskaki við hæstv. samgrh. Það ætti alveg eins að standa öðrum nær en mér. Ég spyr t.d. hv. þm. Suðurl., og þá t.d. hv. þm. Sjálfstfl.: Eru þau sammála þessum uppstillingum á málinu sem hæstv. samgrh. hefur hér fram að færa? Finnst hv. þm. Eggerti Haukdal og þeim hv. þm. öðrum sem hér eru, sér sæmandi að sitja þegjandi undir árásum hæstv. samgrh. á Herjólf og ákvörðunartöku í því máli? Er sú þögn sama og samþykki, hv. þm. Eggert Haukdal? Það væri ástæða til að hv. þm. kæmi hér upp og útskýrði það. Er hann sammála hæstv. samgrh.? Kempan Árni Johnsen hafði sig nú í það að snúa við blaðinu og taka upp harðsvíraða vörn fyrir Herjólf sem hann hafði í blaðagrein nokkrum mánuðum áður dæmt ónýtan þegar honum ofbuðu árásir hæstv. samgrh. á skipið og þá aðila sem stóðu að ákvörðunartöku um endurnýjun þess. Ég vænti þess ekki að hv. þm. Eggert Haukdal sé sáttur við það að Árni Johnsen hafi einn uppi málsvörn af hálfu þingmanna Suðurl. í þessu efni. ( EH: Ef þú ert að tala um varnir fyrir hv. flokksbræður þína þá verður það . . .  ) Ég geri það þegar mér þykir það rétt og skylt, hv. þm.