Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 15:29:35 (1405)

[15:29]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það kom fram hjá hv. þm. að með þessari frumvarpsgerð hefði verið vikist undan því að láta notendur fiskihafna bera eðlilegan kostnaðarhluta af byggingu hafnanna. Nú hélt ég að hv. þm. væri það kunnugt að ástæðan fyrir því að þessi háttur er hafður á, að hið opinbera stendur að hluta til undir hafnarframkvæmdum víðs vegar um landið, er af tvennum toga. Annars vegar til þess að treysta byggð þeirra sjómanna, fiskverkafólks og útgerðarmanna sem hafa sest að á stöðum, eigum við að segja eins og Grímsey, Bolungarvík, Raufarhöfn og Borgarfirði eystra svo að ég taki dæmi, og hins vegar til þess að reyna að tryggja öryggi sjófarenda, ef þeir vilja gera út áfram frá þeim stöðum þar sem þeir hafa alist upp og byggt upp sína útgerð. Við þekkjum fjöldamörg dæmi um það víðs vegar um landið að til alvarlegra slysa hefur komið vegna þess að hafnarbúnaður hefur ekki verið nógu traustur og við vitum það að víðs vegar um landið eru uppi kröfur um að styrkja hafnargarða og bæta aðstöðu inni í höfnum einmitt af þessum sömu ástæðum að þar hafa slys verið yfirvofandi og til alvarlegra óhappa komið. Þetta er ástæðan fyrir því að ríkisvaldið hefur talið óhjákvæmilegt að standa undir kostnaði við hafnargerð víðs vegar um landið. En það er vitaskuld rétt að þar sem mestu umsvifin eru, ég tala nú ekki um stærstu vöruhafnirnar, þar hafa tekjur verið meiri en annars staðar til þess að rísa undir slíku. Ytri hafnarmannvirki eiga hér sérstaklega við eins og ég veit að hv. þm. er kunnugt um.