Hafnalög

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 15:52:19 (1412)

[15:52]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er auðvitað svo þegar við tölum um hafnargjöldin að ef þau leggjast á í fleiri en einni höfn þá leggjast þau auðvitað á í fleiri en einni höfn en hér er um það að ræða að verið er að færa á milli framlög og það er verið að reyna að styrkja þær hafnir sem þurfa á því að halda úti á landi að byggja sig upp og af þeim toga er þetta gjald eins og hv. þm. er kunnugt.
    Ef menn vilja leggja það niður þá verða menn að svara því með því að draga úr þeim framlögum sem eru til uppbyggingar hafna.
    Hitt atriðið sem hv. þm. vék að var um þá grein frv. að höfnum væri heimilt að gerast eigendur í öðrum fyrirtækjum og hefur í greinargerðinni sérstaklega verið talað um fiskmarkaði. Það er talað um að þeir megi vera eigendur að fyrirtækjum sem þeim tengjast. Ég hygg að það sé 8. gr. Þannig er gerð tillaga um að eigendur hafna samkvæmt lögunum geti verið sveitarfélag eða hlutafélag. Hér er opnað fyrir þann möguleika að hlutafélög með aðild einkaaðila geti fallið undir hafnalögin o.s.frv. Jafnframt er höfnum heimilað að gerast hluthafar í fyrirtækjum sem tengjast starfsemi þeirra og það eru fiskmarkaðir og ýmsar aðrar greinar. En aðalatriðið í því er að slík fyrirtæki verða að sjálfsögðu skattlögð og þau falla ekki undir þau skattfríðindi sem hafnarsjóðirnir sjálfir með sínum rekstri á höfnunum njóta beint.