Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 18:21:59 (1450)

[18:21]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er fróðlegt að heyra hv. þm. Hjörleif Guttormsson kvarta undan því að það sé of lítið fjármagn sett til umhverfismála. Ég get tekið undir það með honum. En það er fróðlegt vegna þess að einmitt í þessum sölum eru menn sem eru að kvarta undan því sýnkt og heilagt að það sé of mikið fjármagn lagt til þessara mála. En sá blástur sem hv. þm. kvartaði undan í þessum umhvrh. stafaði einvörðungu af því að hv. þm. kom hér upp og kvartaði undan skorti á mannasiðum en sýndi sjálfur þann átakanlega skort á mannasiðum að fara rangt með. Lét líta svo út sem að þessi lög leiddu til þess að framlög til þessara mála mundu lækka um 10 millj., en lét ógetið að sá sparnaður er þegar kominn fram áður heldur en þetta ágæta frv. er staðfest.