Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

37. fundur
Þriðjudaginn 16. nóvember 1993, kl. 19:18:09 (1457)

[19:18]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég er ekki alveg nógu ánægð með svör hæstv. umhvrh. Í fyrsta lagi spurði ég hvort sú regla sem sögð er í 10. gr. eigi að gilda að veiðimenn hirði bráð sína hvort sem dýr hefur verið veitt vegna afurða eða til að koma í veg fyrir tjón muni koma til með að gilda um selveiðar eða seladráp. Og þó svo að það sé annað ákvæði sem segir það að sjútvrh. skuli fara með skipulag þessara veiða, sem er vissulega ánægjulegt, því að þó að hæstv. umhvrh. hafi sagt hér áðan að hringormanefnd væri opinber nefnd með skipunarbréf sjútvrh., þá skilst mér að það sé nú þannig að skipunarbréfið sé síðan 1979 og ég veit ekki hvort nokkur núverandi nefndarmaður í hringormanefnd hefur fengið slíkt skipunarbréf. Alla vega telur hringormanefnd eða þeir menn sem í hringormanefnd sitja að nefndin sé ekki opinber, það sé ekki um nefnd sem heyrir undir sjúvrn. eða nokkurt annað ráðuneyti að ræða heldur er þetta nefndarstarf sem fyrst og fremst er kostað af nokkrum fyrirtækjum og stofnunum. Þar af leiðir hljóta þeir sem þar sitja að hafa nokkurt sjálfdæmi, þurfa ekki að skila neinum skýrslum nema til þeirra aðila sem skipa nefndina. Og eftir því sem ég kemst næst, þá er það ekki lengur í höndum sjútvrh. Skipunarbréfið sem hringormanefndin fékk 1979 fól í sér afar víðtækt hlutverk þessarar nefndar og hefði vissulega verið þörf á því að viðhalda þeim kröfum sem þá voru gerðar til nefndarinnar. En ég vil gjarnan fá að heyra það hvort umhvrh. telur að þetta ákvæði 10. gr. skuli gilda að veiðimenn hirði bráð sína hvort sem dýr hefur verið veitt vegna afurða eða til að koma í veg fyrir tjón að þetta ákvæði muni gilda varðandi selveiðar. Og eins með það hvort þeir sem eru með einhver hlunnindi á jörðum verði að skila skýrslum á sama hátt og aðrir veiðimenn til ráðherra eða til villidýranefndar eða Náttúrufræðistofnunar til þess að hægt sé að hafa eftirlit með þeim stofnum sem þar um ræðir. Vissulega eru lög til að fara eftir þeim en það er nauðsynlegt að veita aðhald með eftirliti og reynslan hefur sýnt það. Þá spyr ég hvort ekki felist ákveðið aðhald í því þar sem um æðarvarp er að ræða, að fjöldi hreiðra væri upp gefinn og eggja sem tekin eru, þá er vitað hversu mörg eru eftir og hversu stór stofninn er, hvort ekki megi vinna skýrslu út frá t.d. því að gera þessum hlunnindabændum skylt að skila skýrslu á sama hátt og öðrum veiðimönnum.
    Fleira var það nú ekki sem ég ætlaði að nefna hér nema fskj. sem er með frv. Það er kostnaðarumsögn fjármálaskrifstofu fjmrn. Þar er ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði af þessu eftirliti sem ég nefndi. Hvergi í þessari umsögn hefur verið tekið tillit til þess kostnaðar sem af kynni að hljótast ef eftirlit skv. 19. gr. verður virkt.