Endurgreiðsla lyfja- og lækniskostnaðar

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 13:34:58 (1460)


[13:34]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Því miður get ég ekki sagt nákvæmlega um það hvernig þær reglur eru sem endurgreitt er eftir. Þær reglur eru samdar af heilbrrh. og hann er því miður ekki hjá okkur núna til þess að veita svar við þeirri spurningu. Sé miðað við launatekjur eða heildartekjur manna er venjulega miðað við allar tekjur eins og um skatttekjur væri að ræða og þær tekjur innihalda að sjálfsögðu líka þann þátt sem þegar hefur verið greiddur til ríkisins þannig að vissulega getur verið um það að ræða að einhver hluti teknanna sem miðað er við hafi lent í ríkissjóði, vonandi öllum landsmönnum til gagns.
    Að öðru leyti get ég ekki tjáð mig um þetta efni því ég hef ekki lesið málgagn heilbrrh. og kann því ekki efni þess blaðs eins og það kemur mönnum fyrir sjónir í dag.