Flutningur verkefna til sýslumannsembættanna

38. fundur
Miðvikudaginn 17. nóvember 1993, kl. 16:00:19 (1526)

[16:00]
     Egill Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Mér finnst rétt að það komi fram hér í þessari umræðu og ekki þá síst út af ummælum hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur þar sem hún var að tala um að stjórnarþingmenn rifust eins og hundar og kettir, að í þessu tilviki er ekkert mjög óeðlilegt þó að menn hafi greindar skoðanir því að frá því segir Morgunblaðið föstudaginn 3. sept. eftir formanni Alþfl. hver hafi orðið niðurstaða þess flokks á þingflokksfundi að því er varðar tillögur dómsmrh. um fækkun sýslumannsembætta. En þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Að sögn Jóns Baldvins gerðu þingmenn Alþfl. ekki athugasemdir við tillögur Þorsteins Pálssonar dómsmrh. um fækkun sýslumannsembætta þótt fyrr hefði verið, sagði Jón Baldvin aðspurður um álit á tillögunum.``
    Aftur á móti kemur hér fram í blaðinu að efasemdir hafi verið í þingflokki sjálfstæðismanna um málið.