Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 11:21:56 (1548)

[11:21]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég sé ástæðu til þess að veita andsvar við ræðu hv. 3. þm. Reykv. vegna þeirra orða sem hann lét falla um athugasemdir umboðsmanns Alþingis sem eru á bls. 9 í skýrslunni þar sem hann talar um kvartanir sem margar hafi borist til sín á árinu á undan og áréttar grundvallarreglur um skatta og gjöld.
    Þar segir m.a.: ,,Þar sem heimilt er í lögum að taka gjald fyrir opinbera þjónustu verður að gæta þess við ákvörðun fjárhæða gjaldanna að þau séu ekki hærri en sá kostnaður sem almennt hlýst af þeim og af því að veita umrædda þjónustu.``
    Ég vil vekja athygli á því að það var samþykkt þáltill. á síðasta þingi sem fjallar um þetta efni og hún er svohljóðandi:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta fara fram endurskoðun á aukatekjum ríkissjóðs og gjaldtöku ríkisstofnana. Markmið endurskoðunarinnar verði að gera skýran greinarmun á skattheimtu og gjaldtöku fyrir veitta þjónustu sem hið opinbera ákveður að innheimta. Skal við það miðað að þjónustugjöld sem innheimt eru vegna tiltekinnar þjónustu séu metin sem hlutdeild í þeim kostnaði sem af þjónustunni hlýst eða hluti þess kostnaðar en aldrei hærri. Ákveði hið opinbera að leggja gjald á tiltekna þjónustu umfram kostnaðinn við að veita hana skal koma skýrt fram við innheimtu hve há slík skattlagning er.``
    Það er kannski ástæða til þess að spyrja af þessu tilefni hæstv. fjmrh. hvernig miði þeirri endurskoðun sem þarna var samþykkt með þessari þáltill. og fjallar beint um það efni sem hér er gagnrýnt af umboðsmanni Alþingis. Áður en menn ákveða að flytja lagabreytingar af þessu tilefni hljóta menn að skoða

hvað kemur út úr þeirri endurskoðun sem Alþingi ákvað með þessari þáltill. í fyrra.