Skýrsla umboðsmanns Alþingis

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 14:48:15 (1582)

[14:48]
     Páll Pétursson (andsvar) :
    Frú forseti. Ég er sammála hæstv. utanrrh. um það að reynsla í stjórnmálum er áreiðanlega mjög mikils virði og miklu meira virði en langur skólagangur til þess að gegna ýmsum opinberum störfum og ágætur undirbúningur.
    Hæstv. utanrrh. taldi hér upp fjóra yfirburðamenn sem hann hefði annaðhvort komið úr landi eða komið í embætti hjá hinu opinbera og ég er honum sammála um að þetta eru ágætir menn og ég hef farið hér miklum viðurkenningarorðum um þá alla eða a.m.k. þrjá af þeim hér úr þessum ræðustól nýlega. ( Gripið fram í: Hver er sá fjórði?) Það er sannarlega skarð fyrir skildi og mikið tjón okkar þjóðfélags að þeir skyldu hverfa héðan úr þingi með svo sviplegum hætti og ég sé ekki að af yfirburðamönnum sé eftir nema utanrrh. sjálfur hér í þinginu. Hæstv. utanrrh. taldi ekki upp nokkra tugi annarra krata sem hann hefur ,,plaserað`` í embætti.