Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 15:49:23 (1596)

[15:49]
     Egill Jónsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég er kominn á mælendaskrá og mun þar af leiðandi fjalla um málið sem slíkt. En mér finnst vert að það komi fram þegar í upphafi umræðunnar vegna þeirra ummæla hv. 2. þm. Suðurl. að ég hefði ekki fengið áheyrn eða verið virtur viðtals eins og hann orðaði það og vitnaði m.a. í bréf sem ég skrifaði skrifstofustjóra utanrrn. þann 20. okt. sl. Fljótlega eftir að þetta bréf barst ráðuneytinu hafði skrifstofustjóri ráðuneytisins samband við mig og tjáði mér að ýmsar þær spurningar sem ég hefði borið fram í bréfi landbn. væri ekki hægt að svara fyrr en búið væri að ganga frá GATT-tilboði ríkisstjórnarinnar. Ég hef hins vegar fengið staðfestingu á því að núna er unnið að svari við þessu bréfi og ég vek athygli á því að svar við þessu bréfi er jafnmikilvægt þó búið sé að ganga frá GATT-tilboðinu, því einmitt margt af því skýrir með nákvæmari hætti þann skilning sem felst í tilboðinu og þær áherslur sem verða viðhafðar af íslenskum stjórnvöldum í sambandi við meðferð málsins. Bréfið er þess vegna í fullu gildi og verður að sjálfsögðu kynnt og afhent landbúnaðarnefndarmönnum þegar það berst innan fárra daga.