Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 16:13:12 (1600)

[16:13]
     Ragnar Arnalds :
    Virðulegi forseti. Í janúarmánuði 1992, fyrir tæpum tveimur árum, urðu harðar umræður um GATT-málið innan þings og utan í kjölfar þess að Alfred Dunkel hafði í GATT-viðræðum sett fram tillögur sínar eins og kunnugt er. Ástæðan fyrir þeim hörðu umræðum sem þá urðu og geysifjölmennu bændafundum víða um land voru ekki eingöngu þær að lítið samráð hafði verið haft við þingnefndir og þingmenn um viðbrögð Íslendinga til þeirrar stöðu sem upp var komin og lítils samráðs við samtök bænda, heldur ennig hitt að hæstv. utanrrh. hafði uppi þess háttar málflutning í opinberum umræðum sem vakti alþjóðarathygli vegna þess að það reyndist svo auðvelt að sýna fram á að hann fór þar með rangt mál. Hann fullyrti blákalt að bændur hefðu ekki mikið að óttast þá stöðu sem upp væri komin vegna þess að í fyrri ríkisstjórn þegar Framsfl. og Alþb. hefði verið í stjórn þá hefði verið gert tilboð í þessum GATT-viðræðum og staða málsins væri ósköp svipuð og hún hefði verið. Þar af leiðandi mætti draga þá ályktun að íslenskir bændur hefðu lítið að óttast. Hvort tveggja var þetta augljóslega rangt. Þetta var vísvitandi röng mynd af málavöxtum. Það sem verið var að ræða um og bjóða í ársbyrjun 1992 var nefnilega allt annars eðlis og í grundvallaratriðum ólíkt því sem verið hafði á dagskrá í tíð fyrri stjórnar þegar málið var rætt á árinu 1990. Í tíð fyrri stjórnar var ekki rætt um ótakmarkaðan innflutning á hefðbundnum landbúnaðarvörum heldur eingöngu um þennan 2--3% lágmarksaðgang sem átti síðan að tolla og tollarnir síðan að lækka í áföngum. En tveimur árum seinna í ársbyrjun 1992 þá er orðin sú breyting að nú er verið í fyrsta lagi að tala um lágmarksaðgang upp á 3--5% á mjög lágum tollum og síðan tollalækkanir á þeim 95--97% sem þá eru eftir. Þannig að öllum innflutningstakmörkunum væri breytt í tollígildi. Það sjá auðvitað allir að þetta er og var auðvitað tvennt ólíkt.
    Þær hörðu umræður sem urðu þá um þessi mál urðu til þess að hæstv. forsrh. ákvað að hafa samráð við stjórnarandstöðuna um þetta mál. Að lokum var gerð sérstök samþykkt ríkisstjórnarinnar sem ágæt samstaða varð um meðal allra flokka. Ég hygg að vísu að hæstv. utanrrh. hafi afar lítinn þátt átt í þeirri samþykkt, ef nokkurn, því hann var erlendis þegar hún var gerð. Í öllu falli kom hann ekki nærri umræðum um málið á nefndarfundum utanrmn. og landbn. þar sem um málið var fjallað. ( Gripið fram í: Hann hefur verið í háloftunum.) En það sem nú hefur gerst er það að gengið er frá tilboði í þessum GATT-viðræðum án þess að viðhöfð séu sömu vinnubrögð og lofað var að viðhafa á árinu 1992. Það hefur ekki verið haft samráð við landbn. eða utanrmn., það hefur ekki verið haft samráð við stjórnarandstæðinga og vinnubrögðin eru jafnvel svo fráleit að þessir aðilar, þ.e. þeir sem í landbn. sitja fá engin skrifleg gögn um þetta mál fyrr en tveimur dögum eftir að gengið er frá málinu og þá eru þau gögn á ensku.
    Ég verð að draga það fram hér að málið snýst að sjálfsögðu um framtíð íslensks landbúnaðar. Ef innflutningur verður leyfður á hefðbundnum íslenskum landbúnaðarvörum á verði sem er verulega miklu lægra en innlent framleiðsluverð þá er það auðvitað eins ljóst og tvisvar tveir eru fjórir að þá dregst íslensk landbúnaðarframleiðsla saman sem því nemur. Verði t.d. veittur 5% lágmarksaðgangur eins og talað er um þá verður samsvarandi 5% samdráttur í þeirri innlendu framleiðslu sem það á við, sem er fyrst og fremst sennilegast mjólkurframleiðslan í því tilviki. Verði síðan um að ræða lækkun á tollígildum á þeim 95% sem þar fyrir utan eru þá mun það að sjálfsögðu skapa verulega hættu fyrir búreksturinn í landinu. Kannski ekki þann algera samdrátt sem lágmarksaðgangur mun valda en áreiðanlega mun það valda verulegri launalækkun meðal bænda ofan á þau áföll sem þeir hafa þegar orðið fyrir. Ég held því að það sé ekkert ofmælt að ákvæði þessa GATT-samnings kunna að grafa mjög alvarlega undan undirstöðum íslensks landbúnaðar og setja hann í verulega hættu.
    Meginmunurinn á því tilboði sem gert var í ársbyrjun 1992 og síðan því tilboði sem nú er verið að tala um er sá að þá var áherslan lögð á það að við Íslendingar hefðum þegar afnumið útflutningsuppbætur og með tilliti til þess væri sanngjarnt og eðlilegt að við fengjum að viðhalda magntakmörkunum á vörum sem útflutningsuppbæturnar höfðu verið afnumdar á. Á þetta er ekkert minnst í samþykktinni sem nú er gerð, ekki einu einasta orði og þetta skiptir auðvitað ekki svo litlu máli.
    Í öðru lagi var talað um það hér í 4. lið b í samþykktinni árið 1992 að sú fjárhæð, sem útflutningsbætur yrðu skornar niður um umfram hina almennu umdeildu prósentu, 36%, skyldi reiknuð okkur til góða sem sérstakt álag við tollígildun fyrir þær vörur sem í hlut eiga. Sem sagt, það kæmi okkur til góða á öðrum sviðum að við hefðum lækkað útflutningsbætur okkar meira en aðrar þjóðir, gengið miklu lengra á því sviði en aðrir. Þessu er algerlega sleppt nú í samþykktinni, ekkert minnst á þetta einu einasta orði

og þarna liggur auðvitað meginmunurinn að það kemur ekkert í staðinn fyrir þetta. Það var haldið fast við það áframhaldandi í janúar 1992 að við vildum áfram viðhalda innflutningstakmörkunum og háum tollígildum ef um lágmarksaðgang yrði að ræða, en nú er sem sagt uppi allt önnur afstaða. Tollar á lágmarksaðgangi eiga að vera 32% af upphaflegum verðmun sem þýðir það eins og ég hef þegar sagt að við erum í raun og veru að afhenda erlendum bændum a.m.k. 3--5% af þeim innanlandsmarkaði sem hér á í hlut. Ég vil alveg sérstaklega vekja athygli á því að okkar samninganefndarmenn sætta sig við verulega minni árangur en t.d. Finnar náðu í þessu samhengi. Þeir tryggðu sér verulega meiri tollvernd hvað þetta varðar og einnig Austurríkismenn. Í þeirra tilboðum er miðað við 50% af bundnum tolli eins og hann verður á samningstímabilinu og það er sama útfærsla hjá Austurríkismönnum en hjá okkur Íslendingum er þessi tala 32%. Við erum fyrst og fremst að hengja okkur í þá meginreglu sem Efnahagsbandalagið hefur valið sér en við göngum bara miklu lengra en Efnahagsbandalagið gerir aftur á öðrum sviðum og þá hvað varðar útflutningsbæturnar.
    Ég vil vekja á því athygli í þessu samhengi að við Íslendingar höfum greinilega haft verulegt svigrúm í þeim tillöguflutningi sem hér var um að ræða. Við vorum ekkert settir upp við vegg og urðum bara að velja þetta vegna þess að allar hinar þjóðirnar hefðu komist að þessari niðurstöðu. Við höfðum ákveðið svigrúm og það er greinilegt á öllu að hér er um að ræða einhvers konar málamiðlunarniðurstöðu hæstv. utanrrh. og hæstv. landbrh. en ekki þá niðurstöðu sem hagstæðust mundi vera fyrir íslenskan landbúnað. Svo er það auðvitað mál út af fyrir sig hvernig sú brunaútsala verður framkvæmd eins og hér var spurt um áðan. Mér fyndist nú að hæstv. landbrh. sé að útskýra það mál fyrir hv. alþm. hvernig það á að gerast að á sama árinu og á sama tíma verði boðið smjör sem verði kannski á mjög mismunandi verði. Og hverjir eiga þá að fá þetta ódýra smjör, ódýra erlenda smjör? Ætlar ríkisstjórnin að halda uppboð eða útsölu?
    Ég vil líka taka undir það með hv. þm. Jóni Helgasyni sem hóf þessa umræðu að hvað varðar 95% sem eru þá fyrir utan lágmarksaðganginn þá hefur þar einnig verið haldið mjög illa á okkar málstað. Ég tel að þar sé líka á ferðinni mjög hættulegur undansláttur og það er greinilegt á því orðalagi sem hefur verið valið í bréfi ríkisstjórnarinnar að þar eru menn að búa sig undir að slaka alveg á. Þar er ekki valið það orðalag sem segir það að við ætlum hvergi að hvika í þeirri afstöðu okkar að það verði áfram leyfðar innflutningstakmarkanir heldur er gefið undir fótinn með að það verði háð því hvort undanþágur verði viðurkenndar eins og segir í þessum enska texta. Og vörur þær sem hér um ræðir eru bundnar við þær framleiðsluvörur sem framleiðslustýring er á. Ég er ekki viss um að þetta sé svo góð breyting, hæstv. landbrh.
    Ég hélt nú satt að segja að hæstv. landbrh. mundi hika við það að fara að binda það í samningum við aðrar þjóðir að við ætluðum að halda þessu kvótakerfi hér um aldur og ævi þannig að ef kvótakerfið yrði afnumið, þá hefðum við enga fyrirvara lengur og gætum þar af leiðandi ekkert losað okkur úr því jafnvel þó að tækifæri gæfist seinna til þess. Ég held að þessi breyting sem orðið hefur hvað varðar við hvað miðað er sé mjög til hins verra og í henni felist mjög hættulegur undansláttur.
    Ég vil svo bara segja það að lokum að að sjálfsögðu er GATT-samkomulagið jákvætt í eðli sínu og ég held að við Íslendingar hljótum að styðja það að samkomulag sé gert sem felur í sér aukið viðskiptafrelsi. En við verðum um leið að standa fast á íslenskum hagsmunum og það hefur ekki verið gert í þessu máli. Við höfum ekki staðið eins fast á íslenskum hagsmunum í þessu máli og Norðmenn, Finnar eða Austurríkismenn. Og ég spyr um það, hvernig eru þá íslensku hagsmunirnir á sviði sjávarútvegs? Það hefur lítið farið fyrir því að gerð væri grein fyrir því hvað varð um þann fyrirvara okkar að það fengjust almennar tollalækkanir á sjávarafurðum. Ég vil eindregið fara fram á það við hæstv. utanrrh. að hann geri líka grein fyrir þeirri hlið málsins.