Landbúnaðarþáttur GATT-samningsins

39. fundur
Fimmtudaginn 18. nóvember 1993, kl. 19:36:46 (1656)

[19:36]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :
    Herra forseti. Ég ítreka það sem ég sagði hér í minni fyrstu ræðu í dag að ég er þakklátur hv. þm. Jóni Helgasyni fyrir að hafa efnt til þessarar umræðu sem ég held að hafi verið mjög gagnlegt því hér hefur í rauninni komið fram að það er mjög vítt samkomulag og breitt um það í þingsölum að nauðsynlegt sé fyrir okkur Íslendinga að ganga til GATT-samninga með opnum huga. Auðvitað til að tryggja okkar eigin hagsmuni og vegna þess að ógjörningur er að standa þar fyrir utan.
    Það er eitt sem hefur komið fram hvað eftir annað sem óhjákvæmilegt er að víkja nokkrum orðum að og það er ákveðinn upplýsingafundur sem hæstv. utanrrh. talaði um í dag og mér skilst að hafi verið haldinn uppi í varnarmáladeild án þess að ég sé þeim málum kunnugur. Ég stóð ekki að því að boða þann fund. Mér er ókunnugt um hvað þar hefur farið fram. Ég hef á hinn bóginn reynt að svara fjölmiðlum því sem snúið hefur að landbúnaðinum án vífilengja og það sem hér er talað um og ég hygg að sé vitnað til ummæla í Tímanum, eigum við að segja hinum nýja Tíma því mér skilst að ýmsir bændur séu farnir að segja blaðinu upp vegna hins nýja blæs og nýja málflutnings sem það blað er farið að reka. Sumir segja að Tíminn sé nú kominn á mölina. En í þessu blaði segir svo með mikilli millifyrirsögn, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ekki lagðir tollar á hveiti og hrísgrjón.
    Annað ágreiningsefni ráðherranna var um tollígildi á vörum sem fluttar hafa verið inn til landsins með engum tollum. Þetta eru vörur eins og hveiti, hrísgrjón o.fl. Landbrh. vildi setja fram þá kröfu í íslenska tilboðinu að við hefðum heimild til að leggja tolla á þessar vörur en því var utanrrh. andvígur. Hann féllst hins vegar á að halda þessari kröfu inni í tilboðinu gegn heiðursmannayfirlýsingum frá Halldóri Blöndal um að þessi heimild yrði aldrei notuð.``
    Svo mörg voru þau orð. Ef þarna er verið að reyna að gefa það í skyn að ég sé einhver sérstakur talsmaður þess að hækka verð á hveiti og hrísgrjónum til manneldis þá er það algjörlega úr lausu lofti gripið og ég lít á þetta sem hálfgert spaug satt að segja. Ef á hinn bóginn er verið að tala um þessa vöruflokka hér í tollskránni í þeim skilningi að það gæti verið um skepnufóður að ræða þá viljum við halda inni heimildum til að geta gripið til tollígilda síðar meir. Og þetta blessað heiðursmannasamkomulag sem alltaf er vitnað til, það er nú ekki annað og meira á bak við það en ummæli okkar beggja um að ekki standi til að leggja háa tolla á hveiti og hrísgrjón til manneldis, það er nú allt og sumt, og hvorki meira né minna og ekki hættulegra en það. Ég lærði nú líka út í Kína um daginn að borða hrísgrjón með prjónum þannig að mér er þessi vöruflokkur mjög kær síðan og nærri hjarta. ( JGS: Voru þau með tollígildum?) Þetta er nú þetta um heiðursmannasamkomulagið. Það er kannski synd að vera að upplýsa hvernig á því standi því það hefur vakið svo margvíslegar hugleiðingar og einhvern veginn breiðst svo út.
    Um annað atriði sem hér stendur: ,,Embættismenn í utanrrn. segja engar líkur á að þessar röksemdir verði viðurkenndar af samningamönnum GATT.`` Það er í sambandi við þá kröfu okkar að við viljum halda magntakmörkunum. Þau ummæli sem snúið hafa að einmitt þessu atriði hafa verið mjög athyglisverð hér í dag. Þannig sagði hv. 4. þm. Austurl., Hjörleifur Guttormsson, að við hefðum ekkert fast í hendi nú, staðan væri veikari og verri en hún var 10. jan. 1992, við hefðum ekkert fast í hendi í staðinn fyrir útflutningsbætur sem felldar voru niður. Við höfðum aldrei neitt fast hendi í þeim efnum og ég veit ekki til að einn einasti alþingismaður hafi litið svo á í janúarmánuði 1992 að með þeim fyrirvörum sem ríkisstjórnin gerði þá hafi fengist trygging fyrir því að aðrar þjóðir mundu fallast á ýtrustu kröfur okkar. Málið var alls ekki þannig vaxið. Hitt er annað mál að eins og formaður utanrmn. rakti þá höfum við verið að reyna að rökstyðja okkar mál og okkar kröfugerð í samræmi við það sem við teljum líklegast til að skila okkur árangri. Og þegar við erum að tala um magntakmarkanir á þær vörur sem framleiðslustýring er á þá erum við að fara í hóp með ríkjum eins og Noregi, Japan, Suður-Kóreu og Kanada. Ég hygg að okkur sé þá helst skjólið í því að fylgja Japönum nokkuð eftir því Japan er auðvitað eitt af stærstu iðnríkjum veraldar, eitt af efnahagslegu stórveldunum. Og ef Japönum tekst að fá viðurkenningu fyrir magntakmörkunum á þessum forsendum þá munum við að sjálfsögðu einnig fylgja þar með. En svo geta menn velt því fyrir sér ef hafnað verður kröfum þessara ríkja sem ég var að tala um hvort við höfum þá mikla möguleika til að ná okkar fram einir og óstuddir. Það eru vangaveltur af þessu tagi sem verið er að tala um þannig að ég held að við höfum í þessu reynt að fara þá leið sem skynsamlegust sé og líklegust til þess að við fáum okkar mál fram.
    Ég vil líka taka eitt fram vegna þeirra ummæla sem hér hafa orðið í dag í sambandi við útflutningsbætur. Þegar þessi mál voru til umræðu í janúarmánuði árið 1992 þá vakti ég athygli á því að þeir búvörusamningar sem gerðir voru vorið 1991 byggðust á þeirri hugsun að við Íslendingar mundum leggja útflutningsbætur niður með öllu. Þeir gengju út frá því að sauðfjárbændur og mjólkurframleiðendur hefðu allan innanlandsmarkaðinn og gætu á honum byggt og á hann treyst. Rökin fyrir því að fara þannig að voru auðvitað þau að það er vonlaust að efna til útflutnings nema menn hafi sterkan heimamarkað. Ef við á hinn bóginn opnum landamærin fyrir innflutningi á unnum kjötvörum eða unnum mjólkurvörum þá er þessi litli og veiki innanlandsmarkaður okkar miklu óvissari og þá er auðvitað ógjörningur að reka atvinnurekstur eins og landbúnað nema hafa sambærilega tryggingu eins og löndin í kringum okkur og í þeim efnum hef ég vitnað sérstaklega til Noregs. Þau tollígildi sem inn koma vegna innflutnings á landbúnaðarvörum vegna niðurgreiðslna sem þar eru renni þá á móti til að styrkja íslenska bændur í sinni viðleitni til að vinna markaði erlendis í staðinn. Þessu hef ég lýst yfir margsinnis á Alþingi og það hefur ekki verið gerð nein athugasemd við það svo mér sé kunnugt. Það er alveg ófrávíkjanleg skoðun mín og stefna á meðan ég er landbrh. að svo hljóti að fara. Enda er í sjálfum búvörusamningnum fyrirvari um hvernig með skuli farið ef til milliríkjasamninga kemur sem varða landbúnaðinn jafnmiklu og GATT-samningarnir gera.
    Hitt er svo alveg hárrétt hjá þingmönnum sem hér hafa talað að það hefur verið nauðsynlegt að styrkja stöðu landbrn. samhliða því sem milliríkjasamningar eru gerðir um frjálsari viðskiptahætti með landbúnaðarvörur. Það var tilefni til að gera það í tíð síðustu ríkisstjórnar. Við munum eftir því að í desembermánuði 1990 voru ýmsir sem töldu verulegar líkur á því að GATT-samningar tækjust en þá var þessu máli sem mönnum er svo umhugað um nú ekki hreyft og var þó sami utanrrh. í þeirri stjórn og nú er. Enn fremur vil ég minna á það að eftir áramótin 1991 í sambandi við samningana um hið Evrópska efnahagssvæði þá kusu Íslendingar að draga sína samningarnefndarmenn út úr þeirri nefnd sem fjallaði um landbúnaðarmálin en auðvitað hefði þá verið líka nauðsynlegt að styrkja stöðu landbrn. í sambandi við alþjóðlega samninga.
    Ég vil vekja athygli á því að við höfum ekki samkvæmt þeim samningum heimildir til að leggja á verðjöfnunargjöld t.d. í sambandi við grænmeti fyrir niðurgreiðslum og styrkjum sem slík framleiðsla nýtur í Evrópubandalaginu. Við komum mjög seint að þessum samningum og ég skal ekki kenna neinu um það en ég tel að þar hafi málefni landbúnaðarins staðið mjög tæpt og eins og ég hef oft áður sagt þá eigum við landbúnaðarráðherra Þýskalands, Kiechle, að þakka það hversu fast hann tók í með okkur Íslendingum til þess að leiðrétta þó stöðu okkar í þeim samningum.
    Ég held þess vegna að ef við horfum á þetta í heild þá sé reynt að standa þannig að okkar GATT-tilboði eins og við teljum líklegast til þess að standa á okkar rétti og mér finnst nú satt að segja undarlegt ef þingmenn meina það í raun og veru að þeim þyki það vond tíðindi að landbrn. og utanrrn. geti unnið vel saman á þeim forsendum sem við yfirleitt teljum hér að séu vel viðunandi svo menn taki ekki sterkara til orða eða reyni ekki að snúa út úr ummælum manna.
    Ég vil svo að síðustu, herra forseti, aðeins víkja að ummælum hv. 1. þm. Norðurl. e., Páls Péturssonar. Hann er að vísu genginn út úr þingsalnum og skal ég þess vegna ekki fara um það mörgum orðum. En hann gerði störf mín sem landbrh. að umræðuefni hér í ræðustólnum í dag og bætti síðan við, með leyfi hæstv. forseta: Hann vílaði ekki fyrir sér að svipta 180 bændur atvinnu sinni með einu pennabragði með sauðfjárkvótanum í sumar. Svo mörg voru þau orð. Ég held að hann hafi sagt ,,pennabragði``, mér heyrðist það, en ekki pennastriki. Ég hefði gjarnan viljað ræða setningu eins og þessa við hv. þm. Þetta er gróft orðbragð svo ekki sé meira sagt. Staðreyndin er sú að ég hef marglýst því yfir að ég telji að forsendur búvörusamningsins varðandi sauðfjárbændur séu brostnar eins og þær voru hugsaðar á vordögum árið 1991. Ég hef alls ekki verið að gera því skóna að menn hafi átt að sjá fyrir fram þá þróun sem hér yrði, en við stöndum þarna frammi fyrir sameiginlegu vandamáli og ég held að það þjóni ekki hagsmunum bænda, kannski allra síst, að við séum að brigsla hver öðrum um hvernig sú þróun hefur orðið.