Breytingar á sjúkrahúsmálum

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 15:22:48 (1669)



[15:22]
     Sturla Böðvarsson :
    Virðulegi forseti. Ég vil í tilefni af þessari utandagskrárumræðu gagnrýna það hvernig að þessu nefndarstarfi hefur verið staðið. Í fyrsta lagi vil ég segja það að slíkt starf sem þessari nefnd var falið er afskaplega vandasamt. Það er engu að síður mjög mikilvægt og þess vegna afar nauðsynlegt að kynning á skýrslu nefndar sem þessarar fari fram með þeim hætti að hinir pólitískt kjörnu fulltrúar á Alþingi hafi tækifæri til þess á fyrstu stigum að kynna sér slíka skýrslu og fái færi á að setja fram sínar athugasemdir alveg strax og slík vinna hefur verið lögð fram.
    Í annan stað vil ég gera athugasemd við það hvernig sá hópur er saman settur sem vinnur þessa skýrslu. Þetta ágæta fólk sem hefur mikla þekkingu á heilbrigðismálum er fyrst og fremst innan úr heilbrrn. Vafalaust hefur það mikla þekkingu á heilbrigðismálum en ég hefði talið eðlilegt að það væri ekki jafneinlitur hópur, ekki jafneinlit hjörð úr ráðuneyti eins og er í þessari nefnd.
    En það sem mér finnst alvarlegast í því sem kemur fram í skýrslunni er það að þarna eru mjög alvarlegar rangfærslur sem síðan eru notaðar væntanlega til þess að selja þessa skýrslu en það er sú staðhæfing að hjúkrunarrými úti á landi séu of mörg. Og það sem er rangt í því er að heilbrrn. hefur skapað þau skilyrði að elliheimili hafa verið flokkuð sem hjúkrunarheimili. Í mörgum elliheimilum, sem eru alls ekki hjúkrunarheimili, hafa verið sett upp hjúkrunarrúm og út frá þeim forsendum kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að það séu allt of mörg hjúkrunarrúm úti á landi sem er alls ekki og ég gæti fært frekari rök fyrir því, virðulegi forseti, en því miður leyfir tíminn það ekki.