Rekstur leikskóla á vegum sjúkrahúsa

40. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 15:58:09 (1681)



[15:58]
     Ingibjörg Pálmadóttir :
    Virðulegi forseti. Á sjúkrahúsum er ætlast til að fá 100% örugga þjónustu. Það er sjálfsögð krafa. En það þarf ýmislegt til að slíka þjónustu sé hægt að veita. Hæstv. heilbrrh. er einkar laginn við að halda uppi óvissuástandi. Óvissan er víða. Eitt er ákveðið í dag og dregið til baka á morgun og fólk er skilið eftir með stórar spurningar. Óvissa er mismunandi þrúgandi þegar hún beinist að atvinnu manna og ekki síður að þeim þætti sem snýr að öryggi barna okkar er óvissan illbærileg og kemur fljótt niður á öllum þáttum daglegs lífs. Sú óvissa sem nú ríkir um áframhaldandi rekstur sjúkrahúsleikskólanna er orðin fyrir löngu óþolandi.
    Andið rólega, sagði hæstv. ráðherra fyrir mánuði síðan. 10. nóv. verður allt komið á hreint. Í dag er 22. nóv. og við höfum heyrt hvað hæstv. heilbrrh. hefur fram að færa. Hann hefur afar lítið fram að færa. Jú, hann ætlar að tryggja rekstraröryggið á næsta ári. Er það nægilegt? Það eina sem er ljóst er að sá aðili sem hefur 70 þús. kr. á mánuði getur ekki greitt 30 þús. kr. í dagvistarpláss. Og það er alveg ljóst að það er ekki hægt að reka t.d. dagheimili á Borgarspítalanum þannig að þau nýju börn sem koma eftir að þessir samningar eru gerðir eigi að borga miklu, miklu hærra gjald heldur en þau börn sem eru núna. Það er ekki verið að setja fram neinar nýjar kröfur. Það er verið að fara fram á það að hæstv. heilbrrh. standi við starfssamninga við starfsfólkið. Sjúkrahúsin þarfnast þessara dagheimila sem sveigja sig að þörfum stofnananna, sveigja sig að því að foreldrar hlaupa ekkert úr vinnu milli kl. 12 og 1 til að fá nýtt pláss fyrir börnin sín. Þetta eru annars konar leikskólar. Ég skora á hæstv. heilbrrh. að tryggja áframhaldandi rekstur leikskólanna á viðunandi hátt og tryggja þeim örugga dagvistun sjúkrahúsunum til heilla.