Samkeppnisstaða einkarekinna garðplöntustöðva

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:05:59 (1709)

[17:05]
     Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 235 hef ég lagt fram fsp. til hæstv. viðskrh. um samkeppnisstöðu einkarekinna garðplöntustöðva. Félag garðplöntuframleiðenda sendi fyrir 8 mánuðum erindi til Samkeppnisstofnunar þess efnis að stofnunin taki til skoðunar það starfsumhverfi og markaðsaðgengi sem einkareknar garðplöntustöðvar búa við í samkeppni við ríkisreknar eða ríkisstyrktar stofnanir. Erindi félagsins varðar annars vegar starfsemi Skógræktar ríkisins og hins vegar starfsemi skógræktarfélaganna, þó einkum Skógræktarfélags Reykjavíkur.
    Í greinargerð sem fylgdi erindi þeirra er rakin sú þróun sem átt hefur sér stað í starfsemi þessara opinberu og hálfopinberu stofnana og hefur leitt til þess að ríkisreknar eða ríkisstyrktar garðplöntustöðvar eru að mati garðplöntuframleiðenda í sífellt vaxandi mæli í beinni samkeppni við garðyrkjubændur landsins.
    Það er fullkomlega óeðlilegt ef rétt reynist að fyrirtæki sem njóta verulegra styrkja úr sameiginlegum sjóðum landsmanna ráði verðmyndun á sölumarkaði fyrir utan það óréttlæti sem birtist í því að ríkið skuli hafa forgöngu um samkeppni sem er að sliga garðyrkjubændur á sama tíma og samdráttur er í atvinnu á landsbyggðinni og á sama tíma og garðyrkjubændur eru að búa sig undir samkeppni við erlenda aðila á takmörkuðum innlendum markaði. Eðlilegra væri að á þessum tíma væri ríkið að fela garðyrkjubændum aukin verkefni til að styrkja stöðu þeirra, enda væri það í samræmi við ályktun Alþingis frá því fyrir tveimur árum þar sem fram var settur vilji Alþingis um að færa ætti í auknum mæli verkefni frá ríkisreknum fyrirtækjum eins og Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins til bænda.
    Eftir að hafa kynnt mér erindi Félags garðplöntuframleiðenda efast ég um að ályktun þessari hafi verið fylgt eftir. Að þeirra mati eiga garðplöntuframleiðendur nú í sífellt vaxandi samkeppni við ríkisrekin eða ríkisstyrkt fyrirtæki og í greinargerð þeirra kemur fram að samkvæmt lögum um Skógrækt ríkisins hafi henni ekki verið ætlað þetta samkeppnishlutverk. Því spyr ég hæstv. ráðherra:
    Hefur erindi Félags garðplöntuframleiðenda til Samkeppnisstofnunar frá því í mars sl. varðandi samkeppnisstöðu einkarekinna garðplöntustöðva gagnvart ríkisreknum og ríkisstyrktum gróðrarstöðvum verið afgreitt?
    Ef svo er, hver varð niðurstaða Samkeppnisstofnunar varðandi þetta erindi?