Barnaverndarráð

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 17:54:20 (1733)

[17:54]
     Fyrirspyrjandi (Drífa Hjartardóttir) :
    Virðulegi forseti. Á þskj. 258 hef ég lagt fram fsp. til hæstv. félmrh.
    Með lögum nr. 58/1992, um vernd barna og ungmenna, sem gengu í gildi 1. jan. 1993 fluttist yfirstjórn málefna barna og ungmenna til félmrn. Með þessum nýju lögum urðu grundvallarbreytingar á skipan þessa málaflokks í stjórnkerfinu. Samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna fer barnaverndarráð með úrskurðarvald í þeim málum sem skotið er til ráðsins. Foreldrar og forráðamenn eða aðrir þeir sem nákomnir eru því barni sem úrskurðurinn nær til geta skotið úrskurði barnaverndarnefndar til barnaverndarráðs. Þetta atriði er mjög mikilvægt því öll afskipti barnaverndaryfirvalda truflar að meira eða minna leyti einkalíf viðkomandi fjölskyldna og verða því að vera réttlætanleg og hafa þann eina tilgang að koma barni til hjálpar þegar foreldrar eða forráðamenn bregðast skyldum sínum gagnvart barninu. Mest er um vert að öll meðferð mála taki sem skemmstan tíma þannig að komist verði hjá því að börnin verði fyrir meiri skaða

en orðinn er þegar alvarleg mál eiga í hlut. Í skýrslu Hagsýslu ríkisins um málefni barna og unglinga, Stjórnsýsla, skipulag og rekstur, frá því í okt. 1993 er lagt til að barnaverndarráð verði lagt niður og verkefni þess fært undir almenna dómstóla. Þar kemur fram að málafjöldi ráðsins er í mesta lagi eitt mál á mánuði og kostnaðurinn á hvert mál því mjög hár. En samkvæmt áætlun um skiptingu framlaga til barna- og unglingamála árið 1993 er framlag til barnaverndarráðs 9 millj. og 400 þús. kr.
    Í skýrslunni eru nefndar nokkrar leiðir til að draga úr kostnaði við rekstur ráðsins og það nefnt að starfsmenn félmrn. geti hugsanlega unnið fyrir ráðið samhliða öðrum verkefnum. En strangar kröfur um óháða málsmeðferð barnaverndarráðs geti þó hindrað slíkt fyrirkomulag. Þá segir í skýrslunni, með leyfi forseta, ,,að ef gera þurfi svo strangar kröfur að almennar hæfiskröfur stjórnsýslulaga eru ekki fullnægjandi og almennir starfsmenn ráðsins mega ekki vinna verkefni fyrir aðra en ráðið virðist rökrétt að áliti þeirra sem þessa skýrslu gerðu; að úrskurðarhlutverk barnaverndarráðs verði fært til dómstóla.`` Í skýrslunni eru tilgreindir þeir kostir þess að færa úrskurðina til dómstóla og nefndi ég hér þrjá.
    Í fyrsta lagi. Það auki réttaröryggi vegna stöðu dómstóla og áfrýjunarmöguleika.
    Í öðru lagi. Héraðsdómstólar eru dreifðir um landið og eru því í mörgum tilfellum nær aðilum máls en barnaverndarráð.
    Í þriðja lagi. Kostnaður við úrskurði ætti að lækka.
    Því vil ég spyrja hæstv. félmrh.: Stendur til að leggja barnaverndarráð Íslands niður?