Svæðalokanir

41. fundur
Mánudaginn 22. nóvember 1993, kl. 18:11:21 (1738)


[18:11]
     Fyrirspyrjandi (Einar K. Guðfinnsson) :
    Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. sjútvrh. fyrir greinargóð svör við fyrirspurnum mínum. Það sem þessar miklu skyndilokanir, sem hafa átt sér stað bæði á þessu ári og síðasta ári, benda til er fyrst og fremst að það sé mjög mikill smáfiskur í uppvexti. Það er auðvitað mjög jákvæð teikn fyrir okkur í framtíðinni. Og það sem þessi góða veiði sem hefur fengist í hólfunum sem var verið að opna nú á dögunum undirstrikar, er fyrst og fremst það að þessi fiskur er til staðar og sýnir líka það sem sjómenn hafa verið að benda á að það eru býsna góð skilyrði núna á margan hátt fyrir uppvöxt fisksins, einkanlega hvað ætið áhrærir.
    Ég vil segja varðandi þessar lokanir í sumar að ég tel að þar hafi verið gengið allt of hart fram og ég tel að það hafi skort mjög á að það væri haft eðlilegt samráð í gegnum hagsmunasamtökin. Þar á ég ekki síst við hlut Landssambands ísl. útvegsmanna sem virðist hafa gefið einhliða álit sitt á þessum málum án þess að hafa samráð við þá útgerðarmenn sem langgleggst þekkja til og eiga þarna auðvitað mikilla hagsmuna að gæta. Ég bendi á í þessu sambandi að Útvegsmannafélag Vestfjarða ályktaði gegn þessum svæðalokunum á sínum tíma og áhrifamiklir og virtir útvegsmenn á Norðurlandi mótmæltu einnig. Það var ekki tekið tillit til þess hins vegar í umsögnum Landssambands ísl. útvegsmanna.
    Ég vil fagna því í máli hæstv. sjútvrh. að ekki er gert ráð fyrir því að friðunarsvæðin á Halanum og á Kögurgrunninu verði föst friðunarsvæði heldur er gert ráð fyrir því að þau séu skoðuð og þeim breytt eftir aðstæðum. Ég hvet til þess að slíkar skoðanir fari fram sem oftast til þess að tryggja það að við náum að halda þeim hámarksafrakstri af miðunum sem nauðsynlegt er. Hér er um að ræða einhver öflugustu og bestu fiskimið okkar og þess vegna er mjög mikilvægt að við getum nýtt þau á sem bestan og skynsamlegastan hátt. Ég tel að það hafi vel tekist til með þessari opnun sem nú hefur átt sér stað en hvet til þess að það verði haldið áfram á sömu braut og reynt að kanna hvort ekki megi opna stærri svæði, m.a. á Kögurgrunni.