Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 14:11:32 (1750)


[14:11]
     Einar K. Guðfinnsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Í máli hv. þm. kom fram að mér virtist nokkur vandlætingartónn yfir því að til þess ráðs var gripið á síðasta ári að aflétta sköttum af fyrirtækjum í því skyni að skapa þeim nýtt svigrúm til þess að takast á við þann mikla atvinnuvanda sem fyrirsjáanlegur hefði verið í okkar þjóðfélagi. Ég vil minna á að þegar sú ákvörðun var tekin á sínum tíma, þá var það spá aðila vinnumarkaðarins, t.d. Alþýðusambands Íslands að hér gæti blasað við 20--25% atvinnuleysi. Þó að við séum öll sammála um það að atvinnuleysið sé of mikið eins og það er í dag, þá hefur okkur sem betur fer tekist að afstýra því að það færi upp í þessar hæðir sem er þó álíka atvinnuleysisstig og menn standa núna frammi fyrir sem blákaldri staðreynd í Finnlandi þar sem atvinnuleysi var raunar hér um bil óþekkt fyrirbrigði á árum áður. Mér fannst það koma fram í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að hann teldi það vera visst vandamál sem við væri að stríða í okkar þjóðfélagi að hér væru til fyrirtæki sem græddu og það þyrfti sérstaklega að taka á þeim vanda með því að tryggja að sá gróði yrði sem allra minnstur og skattleggja hann alveg sérstaklega umfram það sem gert væri ráð fyrir í núverandi skattalögum. Ég vildi gjarnan að hv. þm. svaraði því mjög skýrt og skorinort hvort hann teldi ofsagróða einstakra fyrirtækja vera vandamál í íslensku atvinnulífi og íslensku efnahagslífi. Hvort hann telji að það yrði vænlegra um að horfa í okkar þjóðfélagi ef það væri búið að ganga svo frá málum að hér væru ekki til fyrirtæki sem græddu hraustlega og gætu lagt fyrir og tekið þátt í annarri atvinnusköpun í landinu eins og flestir hafa þó talið ástæðu til og hvort hv. þm. sé þeirrar skoðunar að það þurfi örugglega að búa svo um hnútana að hér verði ekki eftirsóknarvert fyrir fyrirtæki að starfa, hvorki í eigu Íslendinga né útlendinga.