Tekjustofnar sveitarfélaga

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 16:14:53 (1773)


[16:14]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. fyrir að kenna þetta við leikfléttu og snilld en það var ekki hugmyndin. Þessu máli þurfti auðvitað að ljúka með einhverjum tilteknum hætti. Nú var tækifærið því það var búið að létta skattbyrðinni verulega af fyrirtækjunum og það var ekkert óeðlilegt við það þegar ríkið hafði tekið þátt í þessari leikfléttu, fjmrh. m.a. tekið á sig þær óvinsældir að vera barinn í hausinn dag eftir dag af þingmönnum á sl. ári fyrir að hafa hækkað skatta stórkostlega, þó hann geti núna með þessum hætti gefið örlítið til baka, ef ég mætti orða það þannig, í þessum efnum. Ég held að það sé ekkert óeðlilegt að fyrirtækin, og ég er sammála því sem hér hefur komið fram, sérstaklega hjá hv. 2. þm. Vestf., beri einhverja skatta til sveitarfélagsins til þess m.a. að tryggja það að sveitarfélögin þjóni þeim nægilega vel.