Erlendar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 17:11:40 (1784)


[17:11]
     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Hæstv. forseti. Ég get ekki stillt mig um að þakka flm. fyrir flutning þessarar þáltill. sem hann hefur kynnt. Ég er held ég sammála hverju einasta orði sem þar stendur. Hann las upp fyrst að mér sýndist greinargerðina og ræddi síðan um málið í heild sinni og ég er hingað kominn eingöngu til þess að þakka honum fyrir það að láta ekki einhver öfl sem eru steinrunnin eða sjá ekki þær þarfir sem við okkur blasa alls staðar og þau tækifæri sem við blasa og vona að þetta mál sem hv. þm. flytur verði alveg eins og það mál sem við tveir þingmenn fluttum síðast, og ætla ekki að hafa um þetta fleiri orð.
    Það eru stundum of mörg orð um litla hluti hér í þessum sal, bæði nú í dag og marga aðra daga að undanförnu. Það væri hægt að áorka miklu meiru ef menn taka til við að greina frá því sem í augum liggur og er ljóst og þarf ekkert að margendurtaka. Og það sem er ljóst núna á Íslandi er að það þarf að hætta barlómi, það þarf að auka atvinnulíf og það þarf að hafa grundvöll til þess að gera það, bæði með þeim hætti sem hér hefur verið rætt um og með öðrum tiltækum ráðum. Þetta er ágætis eftirmiðdagur ef honum lýkur þannig að það kemur eitt gott mál í viðbót sem varðar til heilla.