Kjarasamningar opinberra starfsmanna

42. fundur
Þriðjudaginn 23. nóvember 1993, kl. 17:25:13 (1787)


[17:25]
     Flm. (Margrét Frímannsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum nr. 94/1986, um kjaraasamninga opinberra starfsmanna, sem ég flyt á þskj. 128 ásamt hv. þm. Sturlu Böðvarssyni, Rannveigu Guðmundsdóttur og Jónu Valgerði Kristjánsdóttur.
    Í 1. gr. frv. er lagt til að 32. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna falli brott. Í 2. gr. er síðan gildistökuákvæði. Í 32. gr. laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, sem hér er lagt til að verði felld brott, segir svo:
    ,,Sveitarfélög ábyrgjast útgjöld vegna atvinnuleysisbóta til starfsmanna sinna og starfsmanna stofnana og sveitarfélaga, hvert fyrir sig eða fleiri sameiginlega eftir því sem þau sjálf ákveða.
    Um starfsmenn sameignarstofnana ríkis og sveitarfélaga gilda hliðstæðar reglur eftir því hvort starfsmenn eru ráðnir af ríki eða sveitarfélagi.
    Nánar skal kveðið á um framkvæmd ákvæða þessarar greinar í reglugerð sem félmrh. er heimilt að setja. Reglur um greiðslu atvinnuleysisbóta til fyrrv. starfsmanna sveitarfélaga skulu settar að fengnum tillögum Sambands ísl. sveitarfélaga og með hliðsjón af tillögum einstakra sveitarfélaga. Haft skal samráð við Samtök opinberra starfsmanna um setningu reglugerðar um greiðslu atvinnuleysisbóta sammkvæmt þessari grein.``
    Í greinargerð með frv. sem ég mæli hér fyrir, segir:
    ,,Eftir setningu laga nr. 113/1990 greiða sveitarfélögin, eins og aðrir launagreiðendur, tryggingagjald til ríkisins. Hluti tryggingagjalds rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Samkvæmt því ættu starfsmenn sveitarfélaga að öðlast rétt til atvinnuleysisbóta úr þeim sjóði. Svo er þó ekki því að í 32. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, er kveðið á um að sveitarfélög ábyrgist útgjöld vegna atvinnuleysisbóta til starfsmanna sinna og starfsmanna stofnana sveitarfélaga. Á því varð engin breyting þrátt fyrir það ákvæði laga nr. 113/1990 að sveitarfélög skuli, eins og aðrir launagreiðendur, greiða gjöld til Atvinnuleysistryggingasjóðs með tryggingagjaldi.
    Fráleitt er að ætla sveitarfélögum umfram aðra launagreiðendur að greiða til Atvinnuleysistryggingasjóðs með tryggingagjaldi og ábyrgjast jafnframt greiðslu atvinnuleysisbóta til starfsmanna sinna en þannig hefur þetta verið í framkvæmd.
    Frv. þetta felur í sér að 32. gr. laga nr. 94/1986, um kjarasamninga opinberra starfsmanna, falli brott og starfsmenn sveitarfélaga og stofnana þeirra njóti sömu réttinda og aðrir launþegar hvað varðar greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Lagt er til að lagabreyting þessi öðlist þegar gildi.``
    Forsaga þess að sveitarfélögin eru ábyrg fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta til starfsmanna sinna er sú að í kjarasamningum aðildarfélaga BSRB árið 1980 var samið um að opinberir starfsmenn skyldu njóta réttar til atvinnuleysisbóta með sama hætti og annað launafólk í stéttarfélögum. Í samræmi við það voru sett lög árið 1980. Samkvæmt þeim lögum átti ríkissjóður að ábyrgjast greiðslur atvinnuleysisbóta til ríkisstarfsmanna en sveitarfélög til sinna starfsmanna. Þetta ákvæði er óbreytt í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna síðan 1986. Samkvæmt þágildandi lögum um atvinnuleysistryggingar áttu atvinnurekendur að greiða ákveðið iðgjald af öllum launþegum 16 ára og eldri og tækju laun samkvæmt kjarasamningi stéttarfélags. Stéttarfélög opinberra starfsmanna féllu þó ekki undir skilgreiningu laganna á stéttarfélagi. Iðgjöld voru því ekki greidd vegna starfa opinberra starfsmanna. Þar af leiðandi fengu opinberir starfsmenn ekki greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði.
    Árið 1990 voru samþykkt lög nr. 113, um tryggingagjald. Með þeim lögum voru felld úr gildi ákvæði um greiðslu iðgjalda en í stað þess ákveðið að Atvinnuleysistryggingasjóður fengi 0,15% af gjaldstofni tryggingagjaldsins en sá gjaldstofn er allar tegundir launa eða þóknana fyrir öll störf. Samkvæmt þessum lögum verða allir launagreiðendur, þar með talið ríki og sveitarfélög, að greiða þetta gjald til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Eftir því sem ég best veit var hlutfall gjaldstofns tryggingagjaldsins sem rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs ákveðið á þann máta, að við heildarframlög atvinnurekenda og ríkis var bætt um 200 millj. kr. og síðan reiknað það hlutfall sem til þurfti til að ná þeirri heildarfjárhæð þannig að framlög til sjóðsins skertust ekki. Við þessa breytingu minnkaði framlag atvinnurekenda til Atvinnuleysistryggingasjóðs, þar sem launagreiðslur ríkis og sveitarfélaga komu nú að fullu inn í gjaldstofn sjóðsins.
    Þrátt fyrir það að ríki og sveitarfélögum er með lögum gert að greiða til sjóðsins af launum sinna starfsmanna þá er ríki og sveitarfélögum áfram gert að vera ábyrg fyrir greiðslum atvinnuleysisbóta til opinberra starfsmanna með þeim hætti sem fram kemur í bréfi sveitarfélagsins sem birt er sem fskj. með frv. sem hér er til umræðu. Þetta hlýtur að teljast óeðlileg afgreiðsla þar sem í raun er um tvígreiðslur sveitarfélaganna að ræða. Annars vegar lögbundið gjald til Atvinnuleysistryggingasjóðs, hins vegar greiðslur bóta til þeirra starfsmanna sinna er missa vinnu. Því er nauðsynlegt að ábyrgð þessara aðila vegna greiðslu bóta sé aflétt og opinberir starfsmenn öðlist rétt úr Atvinnuleysistryggingasjóði eins og aðrir launþegar í stéttarfélögum.
    Í frv. sem við höfum lagt fram er aðeins fjallað um það ákvæði laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna sem lýtur að starfsmönnum sveitarfélaga. Vissulega er þörf á því að skoða ákvæði laganna sem snúa að ábyrgð ríkisins gagnvart greiðslu bóta til sinna starfsmanna og reyndar var ályktað um það á bandalagsráðstefnu BSRB 19. nóv. en þar segir að brýnt sé að lög og reglur um atvinnuleysistryggingar verði tekin til endurskoðunar með það fyrir augum að bæta réttindastöðu atvinnulausra og samræma skuldbindingar vegna atvinnuleysistrygginga.
    Í bréfi sem mér hefur borist frá formanni Starfsmannafélags ríkisstofnana segir um þetta mál, með leyfi forseta:
    ,,Á bandalagsráðstefnu BSRB 19. nóv. 1993 kom fram að þeim félögum sem eru í BSRB og eru atvinnulausir væri betur borgið innan ramma laga um atvinnuleysisbætur heldur en með þeim réttindum sem þeir hafa í dag. En í lögum um opinbera starfsmenn frá 1986 segir í 31. og 32. gr. að opinberir starfsmenn, sem þessi lög taka til og falla undir ákvæði 14. gr. laga nr. 38/1954, skuli njóta atvinnuleysisbóta sambærileg við annað launafólk í samræmi við gildandi lög og framkvæmd þeirra á hverjum tíma, sbr. einkum IV. og V. kafla laga um atvinnuleysistryggingar.``

    Næst segir svo í þessari grein: ,,Ríkissjóður ábyrgist greiðslu atvinnuleysisbóta til starfsmanna ríkis og ríkisstofnana. Fjármálaráðuneytið túlkar mjög þröngt ákvæði um ábyrgð sína. Dæmi um það er að manni sem vann hjá Stóðhestastöð ríkisins og sótti um atvinnuleysisbætur var hafnað á þeim forsendum að hann væri ekki ríkisstarfsmaður, en Búnaðarfélag Íslands hefur rekið þessa stöð og er hún rekin fyrir eigið aflafé.`` --- Ég vil, virðulegi forseti, taka það fram að þetta eru þær upplýsingar sem formaður Starfsmannafélags ríkisstofnana fékk um rekstur Stóðhestastöðvar ríkisins en samkvæmt áliti Ríkisendurskoðunar og allra annarra aðila sem að málinu koma er þarna um ríkisstofnun að ræða. En áfram segir í bréfinu:
    ,,Þessi afgreiðsla er alveg óviðunandi en jafnframt var bent á að ef þessi einstaklingur fengi félagsgjöldin endurgreitt frá stéttarfélaginu [sem var þá stéttarfélag opinberra starfsmanna] þá fengi hann greiðslur úr Atvinnuleysistryggingasjóði sem einstaklingur sem stæði utan stéttarfélaga. Þessi einstaklingur er ekki sá eini sem hefur fengið slíka afgreiðslu hjá formanni úthlutunarnefndar um atvinnuleysisbætur fyrir opinbera starfsmenn. Svona óréttlæti höfum við þurft að glíma við varðandi úthlutun bótanna. Þetta er mjög óréttmæt afgreiðsla fyrir hvern þann sem fyrir henni verður og óviðunandi fyrir það stéttarfélag sem viðkomandi er í. Þarna er um að ræða ólíðandi mismunun á milli ASÍ-félaga og opinberra starfsmanna.
    Til er bókun milli BSRB og ríkisins frá 1980, sem hljóðar svo að starfsmenn þeirra sjálfseignarstofnana og annarra hálfopinberra stofnana sem eru félagar í BSRB og falla ekki undir ákvæði 3. gr. laga nr. 68/1980 og hafa ekki bótarétt úr Atvinnuleysistryggingasjóði skuli njóta sama réttar og þeir félagsmenn BSRB sem undir þá grein falla og frá sama tíma. Skipuð verði nefnd með fulltrúum þeirra aðila sem hagsmuna hafa að gæta og geri tillögu um hvernig greiðslum atvinnuleysisbóta skuli hagað í þessum tilvikum og hver bera skuli útgjöld sem af þeim leiðir í samræmi við það sem eðlilegt og sanngjarnt getur talist. Meðan niðurstaða er ekki fengin ábyrgist ríkissjóður greiðslu atvinnuleysisbóta til þessara starfsmanna. Niðurstaða frá þessari nefnd er enn ekki fengin og því er það álit BSRB að ríkissjóður beri þessa ábyrgð, samanber lögin um atvinnuleysisbætur frá 1993 en í þeim segir að rétt til atvinnuleysisbóta samkvæmt lögum þessum hafa þeir sem eru atvinnulausir, eru í atvinnuleit og fullnægja eftirtöldum skilyrðum, sbr. þó 24. gr.
    Þrátt fyrir þessi ákvæði hefur ríkið haft í frammi hártoganir til að reyna að koma sér hjá greiðslum atvinnuleysisbóta. Ef opinberir starfsmenn féllu undir lögin um atvinnuleysistryggingar mundum við losna við slík mál því þá ætti enginn að þurfa að falla svona á milli í kerfinu. Sérhvert mál sem kemur upp af þessu tagi er alltaf erfiðast fyrir þá einstaklinga sem verða fyrir þessu ranglæti. Opinberir starfsmenn sem eru atvinnulausir njóta ekki félagslegra réttinda eftir að þeir hafa misst vinnuna. Því er öðruvísi háttað hjá þeim sem undir lögin um atvinnuleysisbætur falla, en þeir halda félagslegum réttindum sínum, hver í sínu stéttarfélagi, eins og t.d. möguleikum á námskeiðum fyrir atvinnulausa, ásamt mörgum öðrum réttindum sem ekki eru fyrir hendi hjá opinberum starfsmönnum sem verða atvinnulausir. Hér er ekki átt við réttindi sem opinberir starfsmenn hafa ekki, eins og t.d. sjúkrasjóði, en þeir eru hjá mörgum ASÍ-félögum og þar hafa almennir félagsmenn rétt til að sækja um styrk ef þeir veikjast. Atvinnuleysisbætur falla niður á meðan viðkomandi er veikur því þá er hann ekki í atvinnuleit.``
    Undir bréfið ritar Sigríður Kristinsdóttir, formaður Starfsmanna ríkisins og í úthlutunarnefnd atvinnuleysisbóta fyrir opinbera starfsmenn.
    Ég vil, virðulegi forseti, beina því til þeirrar nefndar sem fær þetta frv. til umfjöllunar að skoða þau ákvæði og þær breytingar sem þarf að gera til þess að ríkisstarfsmenn öðlist þennan rétt. Sveitarfélögin hafa hins vegar þegar óskað eftir því formlega við fjmrn. með bréfi dags. 22. mars 1993 að breytingar verði gerðar gagnvart ábyrgð þeirra. Í bréfi Sambands ísl. sveitarfélaga er farið fram á að lög nr. 94/1986, um kjarasamning opinberra starfsmanna, verði endurskoðuð og felld út úr VI. kafla laganna ákvæði um að sveitarfélögin ábyrgist útgjöld vegna atvinnuleysisbóta starfsmanna sinna og stofnana sveitarfélaganna. Jafnframt segir í bréfinu, með leyfi forseta:

    ,,Eftir setningu laga nr. 113/1990 greiða sveitarfélögin tryggingagjald sem að hluta til rennur til Atvinnuleysistryggingasjóðs. Eðlilegast er því að starfsmenn sveitarfélaga öðlist rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta úr þeim sjóði. Fráleitt er að sveitarfélögin greiði gjöld til Atvinnuleysistryggingasjóðs með tryggingagjaldi og ábyrgist jafnframt greiðslur atvinnuleysisbóta til starfsmanna sinna.``
    Á þessum orðum, virðulegi forseti, lýkur bréfi Sambands ísl. sveitarfélaga og ég geri þau hér með að mínum. Að lokinni þessari umræðu óska ég eftir að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn. --- held ég að sé rétt hjá mér, virðulegi forseti. ( Forseti: Forseti telur raunar að eðlilegt megi teljast að málefni er varða lífeyrissjóði og félagsleg réttindi fari til félmn. en ég hygg að því verði hv. þm. að ráða.) Virðulegi forseti. Hér er frv. til laga um breyttingu á lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna og ég hygg að þau lög falli undir verksvið efh.- og viðskn. og þar af leiði að frv. eigi að fara til þeirrar nefndar. ( Forseti: Forseti getur fallist á það og því er lagt til að málinu verði vísað til hv. efh.- og viðskn.)