Framlagning skattafrumvarpa ríkisstjórnarinnar

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 13:41:38 (1802)


[13:41]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég vil þakka fyrir að þetta mál er tekið hér upp því að það er full ástæða til að vekja á því athygli og óska eftir upplýsingum um það á hvaða stigi þessi mál séu stödd. Ef marka má fréttir fjölmiðla, þá er hér á ferðinni eða í vændum gífurlega viðamikil breyting á öllum helstu skattalögum, tollalögum og fleiri slíkum atriðum, kerfisbreytingar og breytingar á bæði lögum um tekjuskatt og eignarskatt, virðisaukaskatt, tollalögum og fleiru og það gefur auga leið að það er bagalegt ef þessi mál fara ekki að koma hér til meðhöndlunar í þinginu.
    Ég tel að það verði líka að vera ljóst á hverju þetta mál hefur strandað, hvers vegna það gerist að breytingar sem samkvæmt yfirlýsingu fjmrh. hér áðan lágu í raun allar fyrir og eru afleiðingar af kjarasamningum og öðrum slíkum löngu ákvörðuðum hlutum koma samt ekki fyrir Alþingi fyrr en nú eða á næstu dögum. Ég vil því spyrja hæstv. fjmrh. hvað hafi orsakað þessa miklu töf og að lokum hvort búið sé að afgreiða frv. úr báðum þingflokkum ríkisstjórnarinnar þannig að það liggi orðið ljóst fyrir að frv. njóti fyrirvaralauss stuðnings beggja stjórnarflokkanna.