Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 15:49:17 (1840)


[15:49]
     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er auðvitað alveg hárrétt að það eru til almennar stjórnsýslureglur í þessum efnum og öðrum þegar embætti eru veitt. Spurningin er fyrst og fremst um það hvort það eru settar upp einhverjar tilteknar faglegar skorður í því tilviki að verið sé að veita embætti eins og t.d. embætti hæstaréttardómara. Engu að síður er það svo að segjum að slíkar faglegar skorður væru til, þá er það samt sem áður þannig að innan þeirra er kostur á geðþóttavaldi ef um marga einstaklinga er að ræða með svipaða faglega stöðu. Og það á að þrengja möguleika ráðherrans til að beita geðþótta eins og kostur er eða á ég kannski frekar að orða þetta þannig, virðulegur forseti, það á þrengja eins og kostur er þá stöðu að ráðherrann neyðist til að beita persónulegu mati við veitingu embættis. Og ég er viss um að hæstv. núv. dómsmrh. er sammála mér um það að það er skynsamlegt að faglegu rökin séu sem ljósust, skorðurnar sem skýrastar þannig að niðurstaðan verði eins lítið umdeild og kostur er með hliðsjón af því mikilvæga verki sem sá maður á að vinna sem embættið fær, í þessu tilviki hæstaréttardómari.