Hæstiréttur Íslands

43. fundur
Miðvikudaginn 24. nóvember 1993, kl. 15:52:29 (1842)


[15:52]
     Flm. (Svavar Gestsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég heyri að það fer að verða óhætt að undirbúa það að setja nýjan fund og afgreiða þessi mál með afbrigðum við 2. og 3. umræðu og gera þau að lögum núna fyrir kaffið því að það er að nást hér prýðileg samstaða um málið svona í öllum meginatriðum. Það þarf kannski að gera smákaffihlé til þess að menn geti skrifað textann betur í framhaldi af þeim umræðum sem hér hafa farið fram.
    Ég vil fyrst vísa því á bug að ég hafi fengið fleiri athugasemdir frá Jafnréttisráði en aðrir ráðherrar. Ég hugsa að ég hafi fengið færri athugasemdir frá Jafnréttisráði en flestir aðrir ráðherrar miðað við embættistíð, en ég hef verið alllengi ráðherra eins og kunnugt er eða 7--8 ár og ég man ekki eftir að ég hafi nema eins og eina á bakinu af þessum toga.
    Vandinn er auðvitað sá eins og hæstv. ráðherra rakti hér áðan, hverjar eru hinar efnislegu og faglegu forsendur þegar velja skal menn þegar menn sitja við sama borð, eru nokkurn veginn jafnsettir, taldir eins faglega. 1990 sóttu eftirtaldir um embætti hæstaréttardómara: Jón L. Arnalds, Jón Oddsson, Hjörtur Torfason, Sveinn Snorrason. 1991 sóttu eftirtaldir um embætti hæstaréttardómara: Auður Þorbergsdóttir, Garðar Gíslason, Pétur Kr. Hafstein. 1991 í desember: Auður Þorbergsdóttir, Garðar Gíslason, Páll Sigurðsson. Hvað á að leggja til grundvallar? Faglegt mat og reynslu. Ég held að það sé alveg hafið yfir allan vafa að það sé a.m.k. umdeilanlegt hvernig ráðherrann veitti þessi embætti, og ég held að það sé hæpið hjá honum þótt hann hafi enn þá slæma samvisku eftir veitingarnar að vísa nú á Jafnréttisráð fyrir þann umsækjanda sem kannski helst hefur verið órétti beittur í tveimur tilvikum.
    Aðalatriðið er það að ég tel að hæstv. ráðherra hafi í raun og veru núna í þessari umræðu gefið þá línu ef svo mætti segja af sinni hálfu að það verði reynt að ná samkomulagi um aðrar leiðir í þessu efni. Ef það heitir það að litlu sé Vöggur feginn, þá er það allt í lagi mín vegna. Aðalatriðið er að menn komist að jákvæðri, efnislegri niðurstöðu og skilji að frv. er flutt af jákvæðum hug.