Fangelsi og fangavist

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 13:46:29 (1879)

[13:46]
     Guðrún J. Halldórsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég kem hér til að taka undir báðar þessar tillögur hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur. Hún hefur í mjög góðri framsöguræðu gert mjög vel grein fyrir ástæðum þess að tillögurnar eru lagðar fram og raunar gert mjög góða grein fyrir aðstæðum fanga og aðstandenda þeirra. Þannig að þar er kannski ekki miklu við að bæta.
    Ég vil aðeins undirstrika að til þess að fólk geti staðið á eigin fótum og hafið nýtt líf þegar það kemur aftur út úr þeirri vist sem á að vera betrunarvist, þá verður auðvitað að vera fyrir hendi einhver fjárhagslegur grundvöllur. Þar af leiðandi er þessi tillaga hennar um breytingu á lögum um atvinnuleysisbætur af hinu góða.
    Tillagan um að bæta við sálfræðiþjónustu og félagsráðgjöf, bæði fyrir fólkið sjálft sem inni í fangelsum er og aðstandendur þeirra, er mjög nauðsynleg. Fólk stendur oft harla eitt, bæði aðstandendurnir og auðvitað hinir dæmdu sjálfir, og má stundum ekki á milli sjá hvorum líður verr. Oft er það svo að fólkið veit ekki til hverra það getur snúið sér og fengið aðstoð eða leiðbeiningar og það hefur því miður verið um of fátæklega þjónustu að ræða, allt of fátæklega. Ég tel raunar að þessi tillaga um eitt stöðugildi sé allt of lítið. Við þyrftum að vinda bráðan bug að því að koma lögunum um fangelsismálin frá 1988 til framkvæmda þannig að það yrðu 12 stöðugildi. Það finnst mér vera algert lágmark. Og mér finnst að þjónustan við aðstandendur ætti að vera mjög efld.
    Við sem lifum í hinu íslenska samfélagi rekumst alltaf á fleiri og færri sem standa mjög illa og höllum fæti vegna þess að þá vantar leiðbeiningar og aðstoð, bæði í efnhagslegu og félagslegu tilliti. Það er ekki síður --- ég get eiginlega ekki gert upp á milli hvort er meira, oft er þetta svo samofið hvað öðru að það er erfitt að skilja þar á milli. En einsemd hins dæmda þegar hann kemur út aftur birtist oft í því að hann á ekki í neitt annað hús að venda þegar hann kemur út heldur en beint í fangið á fyrri félögum og það er náttúrlega harla erfitt ef hann ætlar sér að breyta um lífshætti.
    Eins er með fólkið sem eftir situr og horfir á eftir fólkinu sínu inn um dyrnar á fangelsunum, það er oft afskaplega einmana og veit ekki hvert það getur snúið sér, ótrúlega ráðþrota fólk. Þess vegna tel ég að báðar þessar tillögur séu af hinu góða og legg til að þær verði samþykktar báðar tvær og helst ríflega það sem farið er fram á, eins og ég sagði áðan.