Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 16:31:32 (1912)


[16:31]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég biðst velvirðingar á því að ég hef mismælt mig. Menn kannast við að þær upplýsingar hafa verið gefnar að viðskipti með aflaheimildir eru mikil. Þau eru hins vegar mjög mismunandi. Það er um að ræða tifærslu á aflaheimildum sem ekki eru verðlagðar, það er um að ræða skipti á aflaverðmætum milli skipa og útgerða, það er um að ræða sölu milli óskyldra aðila á aflaverðmætum. Og ef ég man þetta rétt, ég hef ekki tölurnar tiltækar, þá er talað um að sala á aflaverðmætum hafi numið allt að þremur milljörðum kr. og ég biðst velvirðingar á því að hafa í niðurlagsorðum mínum haft í huga annað en það sem ég sagði, sem breytir engu um kjarna þess máls sem ég var að flytja og hina rökréttu niðurstöðu málsins.