Skattlagning aflaheimilda

44. fundur
Fimmtudaginn 25. nóvember 1993, kl. 17:40:39 (1928)


[17:40]
     Umhverfisráðherra (Össur Skarphéðinsson) :
    Virðulegi forseti. Miklum sögum fer af því hvernig ísbjörninn vestfirski ólmaðist við borðstokkinn, en ég held örugglega að lætin í honum hafi ekki komist í hálfkvisti við þá ólman sem við sáum hér hjá hv. þm. Ólafi Þ. Þórðarsyni áðan. Og það er með hálfum huga, ekki að ég blandi mér í deilur um ísbjörn eða rjúpnaskytterí heldur í þennan vestfirska framboðsfund sem hér er skyndilega kominn í þingsali. En af því að hv. þm. hefur vikið þeirri spurningu til umhvrh. hvað dvelji þann langa orm sem er í líki frv. til laga um stjórnun fiskveiða, þá get ég upplýst hann um að það er ekki afstaðan til kvótakerfisins. Það er fyrst og fremst sá ágreiningur sem hefur verið uppi varðandi þann þátt sem lýtur að 1% af heildarafla landsmanna, þ.e. sá munur sem er á því sem ákveðnir aðilar vilja leyfa smábátum að veiða og því sem ég og ýmsir aðrir vilja fremur að þeir fái að veiða. En að öðru leyti vísa ég spurningum um afstöðu einstakra annarra ráðherra til þeirra. Ég get ekki svarað þessu betur, en ég taldi rétt að þetta kæmi hér fram, gæti mögulega reynst innlegg í framboðsfundi á fjörðum vestur.
    Að öðru leyti, virðulegi forseti, þá verð ég að segja það í upphafi máls míns að ég dáist að hugrekki hv. þm. Jóhanns Ársælssonar. Hann hefur frumkvæði að þessari utandagskrárumræðu og þetta er ekki í fyrsta skipti og ekki í annað skipti heldur í þriðja skipti sem hann hættir sér í gin hæstv. sjútvrh. og því

miður hefur niðurstaðan af þessum viðureignum ævinlega orðið sú sama. Ég held að hann ætti að læra af reynslunni að það borgar sig ekki að fara með ófriði á hendur hæstv. sjútvrh. nema menn séu a.m.k. 105 kg. Satt að segja verð ég að segja það að ég hélt að sú ráðning sem hv. þm. Jóhann Ársælsson fékk hér í umræðunum í fyrra sem hann nefndi til, væri þess eðlis að hann mundi ekki sjálfviljugur leggja sig í kjöltu hæstv. sjútvrh. til þess að fá svona rassskellingu aftur. Og ef blaðamaður Tímans væri staddur hér í þingsölum, þá hygg ég að þessi útreið gæfi honum fullt tilefni til þess að skrifa aðra grein um dýraníðslu af hálfu ráðherra.
    Það er e.t.v. hið næma innsæi hv. þm. Ingibjargar Pálmadóttur sem í rauninni náði kjarnanum í þessum umræðum. Eins og hún benti réttilega á í sinni ræðu þá hefur ekkert gerst þrátt fyrir þennan dóm Hæstaréttar. Það eina sem hefur gerst er það að Hæstiréttur hefur staðfest þá reglu sem endurskoðendur sjávarútvegsfyrirtækja hafa viðhaft um nokkurt skeið. Og eins og hv. þm. Ingibjörg Pálmadóttir orðaði það, þess vegna hefði umræða allt eins getað farið fram í fyrra eða hittiðfyrra og því miður verð ég að segja það að hið sama gildir um allt of mikið af þeim umræðum sem Alþb. fer með inn í þingsali. Þær ræður sem þingmenn flokksins flytja hefðu allt eins getað verið fluttar í fyrra eða hittiðfyrra vegna þess að þær eru ekki tímabærar, vegna þess að Alþb. hefur enga stefnu í sjávarútvegsmálum, vegna þess að það er núna, nákvæmlega núna, að hlusta á Kuran Swing spila sinn djass og síðan mun hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson taka við sveiflunni og spila sín lög. Og hvaða lög eru það? Þau tengjast stjórnun fiskveiða með sérstökum hætti. Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþb., hefur nefnilega lagt fram nýja stefnu sem hann kallar útflutningsleiðina og lýsti því mjög réttilega í Vikublaðinu hvers vegna stefnan er lögð fram. Vegna þess að hún fjallar auðvitað um allt annað en það sem máli skiptir í þessu þjóðfélagi, er ekkert annað en samsuða gamalla hugmynda sem teknar eru héðan og þaðan að viðbættum tveimur afskaplega vafasömum sjóðum. Og tilefnið? Það gaf að lesa á forsíðu Vikublaðsins fyrir einni viku síðan. Jú, Alþb. telur nefnilega nauðsyn á því að rífa íslenska stjórnmálaumræðu frá frá hinum hefðbundnu deilum --- um hvað, virðulegi forseti? Um mál eins og stjórn fiskveiða. Auðvitað er það nauðsynlegt fyrir flokk eins og Alþb. að rífa sig frá þeim deilum vegna þess að flokkurinn er svo innbyrðis sundurleitur um einmitt þessi mál. Og hæstv. sjútvrh. benti auðvitað á það í sinni ræðu að það væri afskaplega merkilegt að hér kæmu tveir þingmenn upp og færu mikinn, m.a. vegna framsals veiðiheimilda. Og hæstv. sjútvrh. benti á tvær staðreyndir. Í fyrsta lagi að Alþb. stóð einmitt að samþykkt þeirra tillagna og í öðru lagi að þegar þeir tveir hv. þm. Alþb. sem hér eru staddir í salnum lögðu fram tillögu sem miðaði að því að afnema framsal veiðiheimilda, þá treysti flokkurinn sér ekki til þess að taka afstöðu til þeirra. Og ég verð auðvitað að segja það, virðulegi forseti, að þó að það sé ágæt dægrastytting að deila hér við þingmenn Alþb. um sjávarútvegsmál, þá tel ég eigi að síður að það væri miklu hentugra og það væri talsvert hagræði fólgið í því að þingmenn Alþb. gerðu þessi mál fyrst upp í sínum hópi áður en þeir flytja sínar deilur hingað inn í þingsali. Vegna þess að það atriði sem þingmenn Alþb. hafa harðast deilt á hér í dag, skammast blóðugum skömmum við hæstv. sjútvrh. um framsal veiðiheimilda, nýtur stuðnings formanns Alþb. Það er hann og enginn annar sem hefur meira að segja komið fram með þá hugmynd að bjóða upp veiðiheimildir, leyfa mönnum að fara með þær nákvæmlega eins og þeir vilja. Ég virði hins vegar það viðhorf hv. þm. að segja sem svo, eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson og raunar hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sögðu líka hér áðan, að þeir vilja ekki víkja burt sinni sannfæringu þrátt fyrir það að vilji formanns flokksins sé annar. Ég virði það. En mér finnst tími til kominn að sá kjarkur sem þeir sýna með því og sá kjarkur sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sýnir með því að stinga höfðinu enn einu sinni inn í gin hæstv. sjútvrh. ætti að fara að brjótast fram í því að þeir hefðu döngun í sér til þess að hefja þessa umræðu innan síns eigin flokks, en ekki láta formanni Alþb. líðast það að búa til eitthvert ,,gimmick``, henda fram einhverri útflutningsleið, bara til þess að koma í veg fyrir, eins og hann segir sjálfur í málgagni Alþb., að það fari fram umræða um stjórn fiskveiða í Alþb. á landsfundi flokksins. Þetta er aumt og ég veit það af því að þeir þingmenn sem ég hef hér verið að ræða við eru skynsamir að þeir skilja þetta sjálfir. Einu sinni deildi ég þessu vandamáli líka með þeim, en ég hafði kjark til þess að rífa mig frá því.
    Virðulegi forseti. Mér þótti það hlálegt, að ég ekki segi dapurlegt, að hlusta á þær vitnaleiðslur sem hv. þm. Jóhann Ársælsson hóf hér í dag. Hann kallaði ýmsa til vitnis og hver voru höfuðvættin í málinu? Það var Kristján Ragnarsson og það var Jónas Haraldsson. Ég man ekki betur en það hafi einmitt verið Jónas Haraldsson, lögfræðingur LÍÚ, sem reyndi eins og hann gat að koma í veg fyrir að íslensk skip færu til veiða í Smugunni. Eru þetta vitnin í málinu? Er það svo að málefnafátækt Alþb. sé svo ægileg að einu mennirnir sem hægt er að rekja fram þeim til stuðnings eru Jónas Haraldsson og Kristján Ragnarsson. Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að ég held að næst þegar hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson gengur til messu með hinu skínandi skæra ljósi Alþfl., hæstv. viðskrh., þá taki hann þessa tvo þingmenn með sér. Kannski þeir verði fyrir einhverri upplýsingu þar.
    Hér er til umræðu, virðulegi forseti, dómur Hæstaréttar í máli Hrannar gegn fjmrn. Eins og ég sagði áðan þá er það algerlega fráleitt sem kemur fram í máli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar að það skemmi eða eyðileggi með einhverjum hætti það ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem segir að nytjastofnar við Ísland séu sameign íslensku þjóðarinnar. Það er svo að frá því að landið byggðist hafa fiskstofnarnir á miðunum í kringum landið verið sameign allrar þjóðarinnar og strandbyggðirnar sem hafa þróast í kringum landið, sem eru uppspretta þeirra verðmæta sem allt okkar velferðarsamfélag byggir á í dag, þær hafa

einmitt byggst á þessu. Og það er rétt að með lögfestingu kvótakerfisins þá er sótt að þessari grundvallarreglu og rökin fyrir því á sínum tíma voru hætta á ofveiði, sem menn skyldu ekki gera lítið úr. En afleiðingin varð auðvitað sú að örfáum mönnum var veittur réttur á að nýta miðin og rökin sem stundum voru sett upp þá fannst mér næsta óljós. Þau byggðust í senn á því að útgerðarmenn hefðu tryggt sér hefðbundinn rétt og þeir hefðu hætt sínum fjármunum í að koma upp sérhæfðum atvinnutækjum til að geta stundað sínar fiskveiðar. Það er raunar hægt að sýna fram á það með því að vísa í reglugerðir og umræður frá því að kvótakerfið var sett að framkvæmdarvaldið var heldur veikburða á þeim ís sem þessi upphaflega rökfærsla var. Það er hægt að sýna fram á ákvæði sem voru í gildi í reglugerðum og m.a. tóku tillit til þess að veiðireynsla, grunnur kvótakerfisins, byggðist ekki síst á atgervi og dugnaði sjómannanna sjálfra. En þó kvótakerfið hafi samt á sínum tíma verið talin ill nauðsyn til þess að koma í veg fyrir ofveiði, þá er það eigi að síður ljóst að samþykkt þess og útfærsla vó að þeim forna skilningi að Íslendingar ættu sameiginlega fiskinn í sjónum umhverfis landið. Og einmitt til þess að sporna gegn því að útfærsla kvótakerfisins leiddi til þess um síðir að nýtingarrétturinn mundi breytast yfir í eignarrétt á stofnunum þá setti löggjafinn mjög skýr ákvæði í lög um stjórn fiskveiða. Þessi skýru ákvæði sem hér hefur verið vísað í aftur og aftur í dag voru að nytjastofnar umhverfis landið væru ótvírætt sameign íslensku þjóðarinnar. Og ég er stoltur af þeirri staðreynd að það var ekki síst minn flokkur, Alþfl., sem átti ríkan hlut að lögfestingu þessa sameignarákvæðis. Og hvað sem hv. þm. Jóhann Ársælsson segir, þá tel ég að þetta ákvæði hafi einmitt sannað mikilvægi sitt. Það er rétt, kvótakerfið felur í sér heimildir til þess að framselja aflahlutdeild á milli skipa og ég sé ekki betur en það sé rækilega staðfest að það sé leyfilegt í núgildandi lögum, þrátt fyrir það sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson sagði hér í sinni ræðu, hafi ég skilið hann rétt. Það er rétt að helstu talsmenn kvótakerfisins hafa talið framsalið vera óhjákvæmilegt til þess að hægt sé að nota kerfið til hagræðingar í greininni og ég er þeirrar skoðunar að á meðan menn hafa kvótakerfið við lýði, þá verði framsalið að vera til staðar. En það er hins vegar alveg ljóst að með því að leyfa framsal á kvóta, þá færast geysilegir fjármunir á milli manna.
    Framsalið hefur verið með tvennum hætti. Annars vegar hafa menn selt kvóta innan árs og hins vegar varanlegan kvóta. Og það hefur eðlilega kviknað ágreiningur um það hvernig eigi að fara með þessi viðskipti í skattalegu tilliti. Enginn ágreiningur er um það hvernig menn fara með þann kvóta sem er seldur innan árs. Hann er gjaldfærður innan ársins. Það hafa hins vegar verið meiri deilur um það með hvaða hætti eigi að meðhöndla varanlega kvótann. Skattyfirvöld hafa miðað við 8% afskriftir á ári. Nú hefur Hæstiréttur staðfest það sem reikningsskilanefnd Félags löggiltra endurskoðenda lagði til að langtímakvóti skyldi verða færður til eignar á kaupverði og síðan fyrndur á fimm árum. Ég tel hins vegar að þessi dómur skerði með engu móti það ákvæði sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði hann vega að, þ.e. 1. gr. núgildandi laga um stjórnun fiskveiða. Í dómi Hæstaréttar --- hvað felst í honum? Það felst í honum að langtímakvótinn fellur undir eignarhugtakið eins og það er skilgreint í 73. gr. skattalaganna frá 1981, en það er allt og sumt. Niðurstaðan tekur einungis til skattalegrar meðferðar og það er hreinlega út í hött að túlka hana með öðrum hætti, eins og Jónas Haraldsson, lögfræðingur LÍÚ, gerir og eins og hv. þm. Jóhann Ársælsson gerir. Dómurinn skerðir ekki sameignarákvæði fiskveiðistjórnarlaganna. Nytjastofnarnir eru áfram sameign þjóðarinnar og þvert á móti þá tel ég að það sé ekki annað hægt að lesa út úr dómnum en að þetta ákvæði skipti einmitt máli. Þau réttindi sem felast í úthlutuðum veiðiheimildum eru ekki varanleg réttindi. Hæstiréttur undirstrikar þetta sjálfur að mínu viti með því að segja að þeir sem njóta heimildanna hafi, svo að ég vitni í dóminn, með leyfi forseta, ,,ekki að lögum tryggingu fyrir því að þeir geti síðar notað aflahlutdeildina til tekjuöflunar``. Með þessari tilvitnun er ég að herða á því að hér er einungis verið að kveða upp úr um hvernig á að fara með þetta í skattalegu tilliti.
    Ég get ekki séð að þessi dómur vegi að sameignarákvæðinu eins og hér hefur verið haldið fram í dag. Og ég tel að það sé alveg ljóst að þetta ákvæði í 1. gr. um að nytjastofnarnir séu sameign okkar allra hafi skilað mikilvægu hlutverki. Það er einmitt vegna þessa ákvæðis sem ekki er hægt að skilja lögin á þann veg að úthlutaðar aflaheimildir myndi eignarrétt. Ákvæðið girðir fyrir að það sé hægt að komast að þeirri niðurstöðu, fyrir dómi eða annars staðar, að þeir sem fái í sinn hlut veiðiheimildir geti litið á þær sem stjórnarskrárvarða eign. Það er kjarni málsins.
    Dómurinn vekur vissulega upp aðrar spurningar. Fyrst keyptur langtímakvóti fellur undir eignarhugtak laganna um tekju- og eignarskatt, geta menn þá ekki spurt sem svo: Ef úthlutuð aflahlutdeild er líka varanleg, fellur hún þá ekki undir eignarhugtakið líka? Eiga menn þá ekki að greiða skatt af því líka? Út frá sjónarmiðum jafnræðis hlýtur að eiga að meðhöndla kvótann jafnt í báðum tilvikum. Þetta finnst mér líka vera mikilvæg ályktun sem menn hljóta að draga af þessum dómi og velta fyrir sér framhaldinu.
    Virðulegi forseti. Tími minn er því miður búinn, en ég ætlaði mér líka að ræða hér talsvert um hvernig framsalið hefur verið misnotað til þess, sem ekki átti að gera í upphafi, að neyða sjómenn til þess að taka þátt í kvótakaupum. Það verð ég því miður að gera síðar.