Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 19:04:48 (2071)


[19:04]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Ég vil nú þakka fyrir það að sumir þeirra ráðherra sem beðið var um mættu hér til leiks en það er eitthvað mikill órói í hæstv. samgrh. Hann hefur enn þá brugðið sér frá og ég vil fara þess á leit að honum verði enn einu sinni gert viðvart. Ég ætla að beina til hans spurningum á eftir.
    En í kjölfar þeirra andsvara sem hér áttu sér stað fyrir augnabliki síðan vaknaði nú heldur betur spurning í mínum huga því að ég heyrði ekki betur en hæstv. félmrh. væri hér að ítreka gagnrýni Alþfl. á lækkun virðisaukaskatts á matvælum og ég hlýt að spyrja: Hvað þýðir þetta? Er meiri hluti fyrir þessari breytingu hér á hinu háa Alþingi í stjórnarflokkunum? Eða ætlar Alþfl. að gleypa þetta mál hvað sem tautar og raular? Við hljótum að verða að fá skýringar á þessu. Hver er eiginlega skoðun Alþfl.? Stendur hann að þessu eða ekki? Það er náttúrlega mjög sérstætt að því er haldið fram af hæstv. fjmrh. að öll ríkisstjórnin standi að málinu, en síðan kemur hæstv. félmrh. og ítrekar þessa gagnrýni sem ég get að vissu

marki tekið undir en við þurfum auðvitað að fá að vita það áður en við förum að vinna að þessu máli í hv. efh.- og viðskn. hver staðan er í málinu. Hún er vægast sagt óljós.
    Það tengist því sem ég ætla að gera að meginefni seinni ræðu minnar og er í framhaldi af því sem hér hefur verið rætt en það er þessi hringlandaháttur sem er á ferð í skattamálum, þessi hrærigrautur sem þetta frv. felur í sér og maður hlýtur að spyrja: Hver er skattastefnan? Hvert er verið að stefna með þessu? Hver er eiginlega stefna ríkisstjórnarinnar? Það er ekki hægt að lesa nokkra einustu stefnu út úr þessu. Það er ýmist hækkað eða lækkað og útkoman er mínus. Og ég vil vitna til þeirrar ræðu sem dreift var til þingmanna og er eftir Indriða H. Þorláksson, skrifstofustjóra fjmrn. og helsta sérfræðings þess ráðuneytis í skattamálum, þar sem hann segir, með leyfi forseta, þegar hann er að ræða um það hvað er fram undan:
    ,,Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að leggja vinnu í stefnumörkun í skattamálum.`` Og hann er búinn að lýsa því í sinni ræðu hvílíkur hrærigrautur og hvers konar vinnubrögð hér hafa tíðkast um árabil og það er mál að þessu linni og menn fari að móta einhverja stefnu og standa við hana þannig að fólk viti að hverju það gengur, hvort sem við erum að tala um heimilin í landinu eða fyrirtækin. Og þetta er hluti af stöðugleikanum sem þessi ríkisstjórn er alltaf að hrósa sér af. Það er nefnilega enginn stöðugleiki í skattamálum. Hann er ekki til.
    Meginspurningin sem við erum að glíma við er sú að ef ekki þessi skattlagning, hvað þá? Við erum mörg hver að krefjast þess að hér sé haldið uppi öflugri velferðarþjónustu, öflugu velferðarkerfi og hvernig ætlum við að fjármagna það? Hv. þm. Ingi Björn Albertsson var hér áðan að spyrja Kvennalistann um það hvernig við vildum taka á skattsvikum og ég ætla að nefna hér nokkur dæmi um það á eftir. En ég spyr hv. þm. á móti: Hvaða tillögur hefur hann um skattlagningu? Það kom fram í máli hans að hann vill lækka matarskatt, hann vill lækka skatta, en hvernig eigum við að fjármagna velferðarkerfið? Ég get bent á ýmsar leiðir til þess og mér finnst í raun og veru að þar sem það er ljóst að ríkisstjórnin hefur gefist upp á því að spara, það er greinilegt á uppgjöf ráðherranna að þeir telja sig ekki komast lengra eftir þeim röngu leiðum sem þeir hafa verið að fara. Nú er komið að því að hefja uppstokkun í kerfinu og fara að einbeita sér að lausnum til framtíðar, lausnum sem munu skila árangri til lengri tíma litið og þar er ég ekki síst að hugsa um fyrirbyggjandi aðgerðir í heilbrigðiskerfinu, sem ég ætla að nefna hér í hundraðasta skipti og ætla að nefna hér eins oft og mér gefast tækifæri til meðan ég á sæti hér á hinu háa Alþingi vegna þess að það liggja gífurlegir peningar í því að bæta heilsu þjóðarinnar. Það er sú spurning sem við eigum að glíma við í þessum stóra málaflokki, sem tekur til sín langmest fjármagn, hvernig getum við bætt heilsu þjóðarinnar? Við getum það með því að draga úr umferðarslysum, með því að bæta vinnuvernd o.s.frv., með áróðri og ég gæti nefnt hér ótal liði í þeim efnum og þarf að koma í tillöguform en ég hef ekki tíma til þess hér.
    Varðandi skattsvikin þá gildir það auðvitað að þar er um margar leiðir að ræða og ég tek undir það sem hér kom fram áðan að það þarf að beita miklum áróðri til þess að breyta hugarfari landsmanna. Það þarf að breyta hugarfari og sýna fólki fram á það að þegar því miður allur almenningur tekur þátt í skattsvikum, m.a. á sínum eigin heimilum, þá er verið að skerða tekjur ríkisins. En eins og hér kom einnig fram þá þarf líka að vera einhver hvatning. Menn þurfa að sjá sér hag í því að standa skil á sköttum ríkisins og meðan menn horfa upp á alls konar svik og það að stórlaxarnir sleppa eins og ég hef nefnt fyrr, að í litlum bæjarfélögum sjá menn ákveðna hópa manna í svartri atvinnustarfsemi sem komast upp með það ár eftir ár og maður spyr sig auðvitað: Hvers vegna taka skattstjórar í viðkomandi umdæmum ekki á þessu? Skortir þá heimildir? Þarf að veita þeim auknar heimildir? Og hvernig stendur á því að það gildir ekki hér eins og t.d. í Svíþjóð að það er fylgst miklu betur með eignamyndun? Það þarf að fylgjast miklu betur með eignamyndun og láta menn skýra það hvernig þeir geta eignast stærðar hús og stóra bíla en hafa engar tekjur. Hvernig kemur þetta heim og saman? En þetta komast menn upp með hér ár eftir ár eftir ár.
    Ég get ekki látið hjá líða að minnast aðeins á fjármagnstekjuskattinn sem ríkisstjórnin hefur enn gefist upp á vegna þess að hann er auðvitað ein þeirra leiða sem hægt er að fara til þess að afla tekna og ég harma það að ríkisstjórnin skuli enn einu sinni gefast upp á þessu þó að ég geti í sjálfu sér verið sammála þeirri viðvörun Seðlabankans að í kjölfar aðgerðanna, sem áttu sér stað í vaxtamálum, þá sé kannski varasamt að koma þessum skatti á núna. Það gæti orðið fjármagnsflótti úr bönkunum og bankarnir færu út í það að bjóða fólki háa vexti til þess að ná sparifé inn aftur en það hefði bara átt að vera búið að koma þeim skatti á fyrir löngu og það er auðvitað ekki einleikið hvernig ríkisstjórnin heykist við aftur og aftur og það er vegna þess að það er verið að hlífa hinum ríku. Það er stefna þessarar ríkisstjórnar að hlífa hinum ríku og láta þá komast upp með hvað sem er. Það má aldrei snerta þá. Það má ekki hækka hátekjuskattþrepið, það má ekki efla hér skattaeftirlitið og beina sér að stórlöxunum og þessari svörtu atvinnustarfsemi sem skilar mönnum gríðarlegum tekjum sem því miður er stolið undan skatti.
    Hæstv. samgrh. hefur ekki látið sjá sig hér enn.
    ( Forseti (SalÞ) : Hann er hér.)
    Hann er hér já, og ég vil ítreka þá spurningu sem hér hefur komið fram. Það var nefnt að ráðherrann varð fyrir hugarfarsbreytingu í Egyptalandi, í því mikla landi ferðaþjónustunnar, og ég ítreka enn þá spurningu: Ætlar hæstv. samgrh. að beita sér fyrir breytingum á virðisaukaskatti á ferðaþjónustu henni til hagsbóta? Ætlar hann að beita sér í þeim efnum?
    Ég hlýt að minnast á það hér þó að tími minn sé alveg á þrotum að við sem vorum hjá Sameinuðu þjóðunum fyrir skömmu áttum þess kost að heimsækja þar sameiginlega þjónustu Norðurlandanna í

ferðamálum. Þar kom fram að þar hafa menn verið að ná gríðarlegum árangri en það er verið að skera niður fjármagn til þessa aðila. Loksins er þetta farið að skila sér. Þá er skorið niður fjármagn, bæði sameiginlegt fjármagn sem komið er frá Norðurlöndunum og framlagi íslenska ríkisins og þar á ofan bætist að þessir ferðamenn sem búnir eru að kynna sér Ísland með margvíslegum hætti eiga að fara að koma hingað í kjölfar þess að hér verði hækkun á allri ferðaþjónustu. Hvernig á þetta að ganga upp og hvað ætlar samgrh. að gera til þess að breyta þessu þannig að einn af fáum vaxtarbroddum sem hér er að finna í atvinnulífinu megi blómstra?