Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 20:59:36 (2106)


[20:59]
     Samgönguráðherra (Halldór Blöndal) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það eru einungis þrjú atriði. Fyrsta er það um virðisaukaskattinn. Það stendur svo á nú að landbrn. er að standa skil á virðisaukaskatti sem gjaldféll í tíð síðustu ríkisstjórnar af því að ekki

hafði verið ráð fyrir því gert í fjárlögum á þeim tíma og ekki var skilningur á því.
    Þegar ég er að tala nú um ferjur og flóabáta þá er verið að velta því fyrir sér hvernig fjárlög skuli upp sett. Ef breytt lögum með þeim hætti að það ber að gjaldfæra virðisaukaskatt hjá samgrn. þá rennur auðvitað sá hinn sami virðisaukaskattur inn í ríkissjóð og hefur þess vegna ekki áhrif á heildarútgjöld, til þess að það sé leiðrétt.
    Í öðru lagi held ég að það sé alveg nauðsynlegt að fram komi, úr því að hv. þm. er það ókunnugt, að það hefur fallið niður áætlunarflug á ýmsa flugvelli vegna þess að vegir og samgöngur hafa batnað á landi. Ég nefni sem dæmi Stykkishólm, ég nefni Blönduós, ég nefni minna flug en áður til Kópaskers, minna flug en áður á Raufarhöfn. Ég get talað um Bakkafjörð og þar fram eftir götunum. Menn velta því mjög fyrir sér hvaða áhrif það muni hafa ef jarðgöng koma undir Hvalfjörð vegna Sauðárkróks o.s.frv. Þannig að það er auðvitað beint samhengi á milli samkeppni milli flugs og samgangna á landi.
    Í þriðja lagi vil ég taka það fram eins og ég sagði áðan að þá hef ég ekki í höndum úttekt á því hvaða áhrif virðisaukaskattur á flug muni hafa. Ég sagði það áðan að það virðist sem ýmsir aðrir hafi glöggar upplýsingar um það sem ég hygg að þeir þó ekki hafi. Það liggur fyrir að flugið mun ekki hækka til fyrirtækja eða manna sem standa fyrir atvinnurekstri en á hinn bóginn kemur það á móti að afsláttarfargjöld hafa verið gefin út með margvíslegum hætti til að koma til móts við launþega sem fljúga milli landsfjórðunga. Þannig að þau fargjöld eru í mörgum tilvikum mun lægri en áður var og þekktust fyrir nokkrum árum og kemur það auðvitað ríkisstjórnum ekki við hvaða ríkisstjórn er við völd.