Skattamál

47. fundur
Þriðjudaginn 30. nóvember 1993, kl. 21:36:47 (2121)


[21:36]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Ég tel, virðulegur forseti, að það sem kom fram hjá hv. þm. breyti í engu því sem ég sagði hér áðan, ekki einum einasta hlut og mér finnst það vera sönnun þess að þessi aðgerð átti rétt á sér. Auðvitað er það svo að fólk á að geta valið um það að fara til læknis vegna smáaðgerða eða fá annars konar þjónustu ( Gripið fram í: Eða láta það eiga sig.) eða láta það eiga sig. Og það má nefna margt í því sambandi. Það hefur t.d. verið tískufyrirbæri að losa vörtur eða fæðingarbletti af fólki. Og auðvitað eru læknarnir að leita eftir verkefnum, það þekkjum við öll sem þekkjum til spítala og lækna. Auðvitað eru þeir með markaðssókn eins og þeir geta. Það er þeirra eðli. Þeir verða auðvitað að hafa eitthvað að gera. ( Gripið fram í: En er í tísku að laga kviðslit?) En kviðslit, það var ekki talið upp allt það sem var á listanum. Hann nefndi það sem dæmi sem er á listanum. Það var ekki allt upp talið.
    En ég ætla að nefna það til sögunnar að það getur einmitt verið kostur að breyta í þessum málum. Ef við lítum t.d. á lyfin þá er það alveg ljóst að það hefur orðið stórkostlegur þjóðhagslegur sparnaður á aðgerðum ríkisstjórnarinnar í lyfjakaupum. Ekki vegna þess að fólk noti minna af lyfjum, sem ég held að þó sé af hinu góða, heldur vegna hins ekki síður að það er farið að velja ódýrari lyf en áður. Og það er partur af þessum aðgerðum, það er ekki eingöngu sparnaður fyrir einstaklinginn sjálfan heldur liggur í þessu gífurlegur þjóðhagslegur sparnaður. Því það er því miður svo að ef þjónustan er ókeypis, ef varan er ókeypis, ef ekki þarf að borga fyrir það sem maður fær, þá er tilhneiging til þess í þjóðfélaginu hér, eins og alls staðar annars staðar, að misnota og ofnota þjónustuna. Auðvitað þarf að vera meðalhóf í þessu eins og öðru, en ég held að ríkisstjórnin þurfi ekkert að skammast sín og ekkert að fela í þessum efnum. Þvert á móti hefur hún tryggt það með þessum hætti að hægt er að halda úti þjónustu, sérstaklega fyrir þá sem minnst mega sín.