Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 11:08:43 (2134)

[11:08]
     Frsm. meiri hluta fjárln. (Sigbjörn Gunnarsson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir áliti meiri hluta fjárln. við frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1993. Frv. var lagt fram á Alþingi 18. okt. sl. Nefndin hefur lokið umfjöllun um frv. og mælir meiri hlutinn með samþykkt frv. með þeim breytingum sem flutt er tillaga um á sérstöku þskj. sem ber númerið 298.

    Nefndin kannaði frv. rækilega í einstökum atriðum og leitaði skýringa hjá fjmrn. og fagráðuneytum varðandi beiðnir um auknar fjárheimildir frá fjárlögum þessa árs. Að lokinni þeirri athugun og að fengnu áliti fjmrn. ásamt skýringum fagráðuneyta féllst meiri hluti nefndarinnar á allar tillögur ráðuneytanna um auknar greiðsluheimildir sem fram koma í frv. Meiri hlutinn gerir 19 brtt. við frv. sem flestar eru minni háttar. Samtals nema tillögur um auknar greiðsluheimildir við 2. umr. 355 millj. kr.
    Undir álit meiri hlutans rita Sigbjörn Gunnarsson, Sturla Böðvarsson, Einar K. Guðfinnsson, Gunnlaugur Stefánsson, Árni Johnsen og Árni M. Mathiesen.
    Virðulegi forseti. Ég mun nú gera grein fyrir brtt. meiri hluta.
    1. brtt. er vegna umboðsmanns Alþingis. Erindum til embættisins hefur fjölgað að undanförnu. Að óbreyttu munu fjárveitingar til embættisins fyrir árið 1993 ekki nægja til rekstrar þess og því er lagt til að veitt verði 1,5 millj. kr. til að mæta auknu umfangi.
    2. brtt. snertir fjárveitingu til eflingar heimilis- og listiðnaði. Í frv. til fjáraukalaga 1993 er sótt um 20 millj. kr. framlag til þessa verkefnis undir fjárlagalið Byggðastofnunar. Beiðnin kemur í framhaldi af áliti nefndar um eflingu heimilisiðnaðar sem skipuð var samkvæmt áliti Alþingis. Gert er ráð fyrir að fjárveitingin renni til þriggja ára reynsluverkefnis er ljúki um áramót 1996--1997 og hafi þann megintilgang að stuðla að uppbyggingarstarfi á sviði handverksiðnaðar í landinu. Verkefnið mun lúta þriggja manna verkefnisstjórn sem í eiga sæti fulltrúar handverksfólks og hönnuða en forsrh. skipi enda starfi nefndin á ábyrgð forsrn. Því er lagt til að umrædd fjárveiting verði flutt yfir á fjárlaganúmer aðalskrifstofunnar.
    3. brtt. snertir Byggðastofnun. Í lánsfjárlögum 1993 er fjmrh. heimilað að lána Byggaðstofnun sérstaklega víkjandi lán að fjárhæð allt að 20 millj. kr. til að mæta framlögum í afskriftarsjóð útlána í tengslum við ákvæði í viðauka II um búvörusamning frá 11. mars 1991. Samkvæmt ákvæðinu er Byggðastofnun ætlað að greiða fyrir atvinnuuppbyggingu á stöðum sem viðkvæmastir eru fyrir samdrætti í sauðfjárframleiðslu. Lagt er til að þessu 20 millj. kr. víkjandi láni verði breytt í fjárveitingu sem verði greidd út eftir því sem útlán Byggðastofnunar falla til.
    4. brtt tekur til húsnæðis Fósturskóla Íslands að Engjateigi 1. Ríkissjóður seldi húsnæðið Sláturfélagi Suðurlands í tengslum við kaup á byggingu fyrir Listaskóla. Fasteignir ríkissjóðs hafa síðan haft húsnæðið á leigu frá Sláturfélaginu fyrir tvöfalt hærri fjárhæð en kveðið er á um í eldri samningum um endurleigu til Fósturskólans og hafa nú farið fram á afturvirka leiguhækkun. Ekki er talið fært að ætla skólanum að mæta þeim kostnaðarauka með óbreyttum fjárheimildum þar sem fjárveitingar hafa miðast við eldri leigusamninginn. Lagt er til að skólanum verði veitt 2 millj. kr. viðbótarframlag til að greiða uppsafnaða leiguskuld vegna Engjateigs 1 við Fasteignir ríkissjóðs.
    5. brtt tekur til Listdansskólans og Íslenska dansflokksins og er tvíþætt. Annars vegar er um að ræða uppsafnaðan rekstrarhalla Listdansskólans. Menntmrn. áætlar að rekstrarhallinn undanfarin tvö ár verði í árslok orðinn 8,6 millj. kr. Verulegur hluti umframgjaldanna er vegna yfirvinnulauna. Að athuguðu máli telur fjmrn. að launaliður skólans hafi verið vanmetinn og að fallast megi á nokkurt viðbótarframlag vegna þessa. Í forsendum fjárlaga er ekki gert ráð fyrir neinni yfirvinnu vegna kennslunnar en endurskoðaður fjárlagagrunnur miðast við að yfirvinnutímar verði 2.700. Lagt er til að veitt verði 6 millj. kr. framlag til skólans í fjáraukalögum vegna launavanmats í fjárlögum beggja áranna 1992 og 1993 og að auki 1,5 millj. kr. vegna annarra gjalda. Miðað er við að menntmrn. hækki fjárveitingu skólans í fjárlögum komandi árs af sömu ástæðu í samræmi við rekstrarumfang. Gert er ráð fyrir að aðrar greiðslur skólans en þær sem mætt er með aukafjárveitingunni færist yfir áramótin og verði unnar upp með aðhaldi í rekstri.
    Hinn hluti brtt. snertir á sama hátt og 4. brtt. húsnæðið undir starfsemi Listdansskólans og Íslenska dansflokksins að Engjateigi 1. Fasteignir ríkissjóðs hafa haft húsnæðið á leigu frá Sláturfélagi Suðurlands og fara eins og áður var nefnt fram á afturvirka leiguhækkun. Ekki er talið fært að ætla stonfununum að mæta þeim kostnaðarauka með óbreyttum fjárheimildum þar sem fjárveitingar hafa miðast við eldri leigusamninginn. Lagt er til að stofnunin fái 7,5 millj. kr. aukafjárveitingu til greiðslu á leiguhækkun til Fasteigna ríkissjóðs frá miðju ári 1991 til ársloka 1993.
    6. brtt. tengist hluta ríkisins í kostnaði við útgáfu á fransk-íslenskri orðabók. Fyrir liggur að kostnaður við fransk-íslenska orðabók verður verulega umfram heimildir fjárlaga í ár. Áætlað er að kostnaður við verkið frá árinu 1991 verði kominn í 27 millj. kr. í árslok og að um 12 millj. kr. þurfi til viðbótar til að ljúka verkinu. Miðað við þetta koma um 24 millj. kr. í hlut menntmrn. en upphafleg áætlun gerði ráð fyrir 10 millj. kr. Lagt er til að veittar verði 4 millj. til þessa verks umfram þær 3 millj. sem veittar eru af fé á fjárlögum 1993. Að því er stefnt að ljúka verkinu á næsta ári.
    Með 7. brtt. er lagt til að veitt verði 1 millj. kr. framlag til endurbóta á skrúðgarðinum Skrúði að Núpi í Dýrafirði.
    8. brtt. varðar umframfjárþörf vegna friðargæsluverkefna á vegum Sameinuðu þjóðanna á árinu 1993. Útgjöld vegna friðargæslu eru samningsbundin og engin leið fær til að komast hjá að greiða þau nema ganga á svig við skuldbindingar sem felast í aðild Íslands að sáttmála Sameinuðu þjóðanna. Lagt er til að veittar verði 14 millj. kr. umfram það sem gert hefur verið ráð fyrir í frv. til fjáraukalaga fyrir árið 1993 til að standa undir kostnaði vegna friðargæslu í fyrrum Júgóslavíu.
    9. brtt. tekur til niðurgreislna á gærum. Á árinu hafa verið teknar ákvarðanir um að ríkissjóður greiði skinnaverksmiðjum 25% tillag ofan á verð á gærum samkvæmt verðlagsgrundvelli, 5 kr. á hvert saltað kg og að auki 7 kr. á hvert saltað kg af hvítum gærum. Þetta er nokkru hærri upphæð en gert hafði verið ráð fyrir í upphafi. Ástæða þess er sú að nauðsynlegt var að bjóða hærri niðurgreiðslu til að gærurnar færu ekki óunnar úr landi eftir að erlendir aðilar yfirbuðu verðlagningu gæra í verðlagsgrundvelli haustsins. Landbrn. áætlar að niðurgreiðslur á gærum sem ekki var gert ráð fyrir í forsendum fjárlaga verði um 40 millj. kr. í árslok. Á næsta ári er gert ráð fyrir að fjármagna þessar niðurgreiðslur með því að draga úr kostnaði vegna niðurgreiðslna á ull.
    10. brtt. tekur til Fiskifélags Íslands. Fiskifélag Íslands var stofnað árið 1911. Um starfsemi þess hafa frá upphafi gilt lög sem félagið hefur sjálft sett sér án nokkurs atbeina hins almenna löggjafarvalds. Hið opinbera hefur hins vegar falið félaginu að vinna ýmis verkefni og veitt til þess framlög. Á undanförnum árum hafa framlög til Fiskifélagsins verið skorin mikið niður. Er nú svo komið að félagið hefur gripið til þess ráðs að segja upp öllum starfsmönnum félgsins en þeir hafa þegið laun eftir launakerfi ríkisstarfsmanna. Hyggst félagið ráða aftur 12--13 starfsmenn á kjörum hins almenna vinnumarkaðar, en 5--6 starfsmenn verða ekki endurráðnir. Ráðstafanir þessar eru liður í fjárhagslegri endurskipulagningu Fiskifélagsins. Sterkar líkur eru taldar á að þeir starfsmenn sem ekki hljóta endurráðningu eigi rétt á biðlaunum en réttarstaða annarra starfsmanna er óljósari hvað varðar þetta ákvæði. Til að gera Fiskifélaginu kleift að ráðast í umrædda endurskipulagningu er lagt til að framlag til félagsins verði aukið um 13,5 millj. kr.
    11. brtt. snertir Norður-Atlantshafssjávarspendýraráðið, NAMMCO. Ráðið var stofnsett í september á árinu 1992 með þátttöku Íslands. Það láðist hins vegar að gera ráð fyrir árgjaldinu til ráðsins í fjárlögum þessa árs. Lagt er til að veitt verði 5 millj. kr. framlag í fjáraukalögum 1993 vegna málsins eða sem svarar til árgjaldsins.
    12. brtt. tekur til Brunamálastofnunar ríkisins. Lagt er til að veittar verði 2 millj. kr. til námssjóðs stofnunarinnar og sértekjur stofnunarinnar hækki á móti sem því nemur. Samkvæmt 34. gr. laga um brunavarnir og brunamál frá árinu 1992 er Brunamálastofnun heimilt að veita slökkviðliðsmönnum, eldvarnareftirlitsmönnum og öðrum þeim sem starfa að brunamálum styrki til náms á sviði brunamála. Tekjur stofnunarinnar af brunaeftirlitsgjaldi verða nokkru hærri en gert var ráð fyrir í fjárlögum 1993 og munu þær mæta auknum kostnaði.
    13. brtt. snertir sjúkrahúsið í Keflavík. Gert var samkomulag um málefni sjúkrahússins í árslok 1988 við sveitarfélögin á Suðurnesjum sem miðaðist við að ríkissjóður gerði upp hallann á rekstrinum fram að þeim tíma. Í fjáraukalögum fyrir árið 1989 var sjúkrahúsinu bættur hallinn en síðar kom í ljós að hallarekstur vegna fyrri ára reyndist vera meiri. Sjúkrahúsið safnaði upp skuldum við Sparisjóð Keflavíkur sem síðan voru gerðar upp með skuldabréfi að fjárhæð 25 millj. kr. í upphafi árs 1990. Skuldabréfið var til tveggja ára og er nú greitt upp að fullu. Á þessum tíma hófst söfnun lausaskulda við sýslumann sem stóðu í 27 millj. kr. í árslok 1992. Því var ákveðið í árslok 1992 að greiða fyrir fram 10 millj. af rekstrarfé ársins 1993. Sú greiðsla rann upp í skuld við sýslumanninn og hefur greiðsluáætlun spítalans á þessu ári verið lækkuð um 1 millj. kr. á mánuði í 10 mánuði til að jafna fjárveitinguna. Lagt er til að afgangur skuldarinnar eða 17 millj. kr. verði bættar í fjáraukalögum fyrir árið 1993, enda verði gerð sérstök athugun á bókhaldi og fjárreiðum sjúkrahússins.
    14. og 16. brtt. snertir St. Jósefsspítala, Landakoti. Framlag til spítalans var skert verulega í fjárlögum 1992 og tók mið af því að bráðaþjónustu á spítalanum yrði hætt og koma á samrekstri eða mjög náinni samvinnu Borgarspítala og Landakots. Það var ekki fyrr en í lok mars á árinu 1992 sem bráðaþjónustu var hætt og ekkert varð úr samrekstri við Borgarspítalann. Á árinu 1992 var Landakotsspítali rekinn með tæplega 100 millj. kr. halla og þrátt fyrir að gripið hafi verið til margvíslegs sparnaðar og hagræðingar í rekstri hefur ekki tekist að vinna á þeim halla á þessu ári. Þó þykir sýnt að rekstur spítalans verði í jafnvægi í ár. Því er lagt til að spítalanum verði veitt 90 millj. kr. aukafjárveiting vegna hallaresktrar 1992. Einnig er lagt til að ráðstafað verði 10 millj. kr. af liðnum 08-370 Sjúkrahús í Reykjavík og stofnkostnaðarfjárveitingu verði breytt í rekstrarframlag vegna þess.
    15. brtt. snertir Ríkisspítala og er tvíþætt. Annar þátturinn snertir Þvottahús Ríkisspítala. Í fjárlagafrv. fyrir árið 1993 er tekið fram að ef ekki yrði af sölu hlutabréfa í þvottahúsi spítalanna yrði að draga úr umfang í rekstri á móti þeim 60 millj. kr. sem afla átti með sölu hlutabréfanna. Ljóst var á fyrri hluta árs 1993 að ekki yrði af sölu þvottahússins en þetta álit kom fram í skýrslu Hagvangs hf. til einkavæðingarnefndar. Niðurstaðan var send heilbrrn. og stjórnendum Ríkisspítala. Í ljósi þess að liðið var á árið þegar þessi niðurstaða var kunn hafa fjmrh. og heilbrrh. orðið ásáttir um að leita eftir aukafjárveitingu til Ríkisspítala fyrir helmingi áætlaðra tekna, þ.e. 30 millj. kr. Meiri hluti fjárln. gerir þá tillögu að sinni.
    Hinn þáttur brtt. tekur til Fæðingarheimilis Reykjavíkur. Ríkisspítalar tóku við rekstri Fæðingarheimilisins þann 1. apríl 1992. Kostnaður við rekstur þess frá þeim tíma til ársloka 1992 nam 23 millj. kr. en heildarfjárveiting var 20 millj. Borgarspítalinn rak Fæðingarheimili Reykjavíkur frá ársbyrjun til marsloka 1992 og hefur sent Ríkisspítölum reikning fyrir rekstrinum þennan tíma að fjárhæð 13 millj. kr. Því er lagt til að Ríkisspítölum verði veittar 13 millj. kr. viðbótarfjárveiting til að greiða umræddan kostnað Borgarspítala.
    17. brtt. snertir St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Í fjárlögum ársins 1992 var gert ráð fyrir verulegum breytingum í rekstri sjúkrahússins sem áttu að leiða til lækkunar fjárframlaga. Fyrirhugað var að auka innheimtu sértekna af sérhæfðri þjónustu, m.a. af ,,ambúlant``- þjónustu. Þessar breytingar hafa ekki gengið að fullu eftir og raunar hefur að hluta til verið horfið frá þeim áformum. Lagt er til að sjúkrahúsið fái 7 millj. kr. viðbótarframlag vegna halla síðasta árs og 20 millj. kr. til að mæta fyrirsjáanlegum halla á þessu ári. Heilbrrn. hækkaði fjárlagagrunn sjúkrahússins til samræmis við þá starfsemi sem þar fer fram í frv. til fjárlaga ársins 1994.
    18. brtt. tekur til Rannsóknarnefndar flugslysa. Nefndin starfar eftir starfsreglum sem settar eru með stoð í 1. gr. laga um loftför frá árinu 1983. Nefndin hefur aðgang að starfsmanni Flugmálastjórnar en nefndarmenn rannsaka sjálfir slysin. Umfang starfseminnar fer eftir því hve mörg og alvarleg flugslys verða og hve flókin þau eru. Á þessu ári hefur starf nefndarinnar verið óvenjumikið og 2,1 millj. kr. fjárveiting í fjárlögum 1993 mun ekki duga fyrir útlögðum kostnaði. Alls hefur nefndin rannsakað 6 slys og óhöpp á þessu ári. Lagt er til að Rannsóknanefnd flugslysa verði veitt 2 millj. kr. viðbótarfjárframlag.
    19. brtt. er millifærsla fjárveitinga frá framkvæmdum við ferjubryggjur til hafnarmannvirkja. Í fjárlögum er framlagið til ferjubryggja þannig að Nauteyri fær 20 millj. kr. og Mjóifjörður 2 millj. Þar sem ákvörðun um rekstur djúpferju verður ekki tekin fyrir áramótin verður ekkert af framkvæmdum við Nauteyri í ár. Að ósk Vita- og hafnamálastofnunar er lagt til að flutt verði 15 millj. kr. fjárheimild af ferjubryggjum yfir á hafnarmannvirki. Þar af fari 10 millj. kr. til uppgjörs á framkvæmdum í Bolungarvík og 5 millj. kr. til uppgjörs á framkvæmdum á Ísafirði. Þá er lagt til að 4,5 millj. kr. flytjist til innan fjárlagaliðar ferjubryggja frá Nauteyri til Mjóafjarðar.
    Í öllum tilvikum er hér um að ræða uppgjör verkefna sem vitað var um við gerð fjárlaga fyrir árið 1993 og hefði að öðrum kosti komið til greiðslu á árinu 1994 til að gera upp framkvæmdir sem þá reyndist ekki næg fjárveiting fyrir. Jafnframt hefur stofnunin farið fram á að fénu verði skipt þannig að 4,5 millj. kr. af framlagi Nauteyrar renni til Mjóafjarðar.
    Virðulegi forseti. Við afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 1993 vék formaður fjárln. að fjárveitingu til Sólheima í Grímsnesi þar sem greint var frá því að fyrirhugað væri að gera sérstakan þjónustusamning við vistheimilið á þessu ári og enn fremur þær breytingar sem fyrirhugaðar voru á rekstrarfyrirkomulagi heimilins á árinu 1993. Í ræðu formanns fjárln. kom eftirfarandi m.a. fram, með leyfi forseta:
    ,,Í samráði við félmrh. mun fjárln. taka málefni Sólheima til nánari skoðunar þegar fyrir liggur endanleg gerð þjónustusamnings á milli stjórnvalda og Sólheima í byrjun næsta árs og meta þá hver fjárþörf heimilisins þyrfti að vera á árinu.``
    Á þessu ári hefur af hálfu félmrn. verið unnið að gerð þjónustusamnings við stjórnendur Sólheima sem ætlað er að taka til þessa árs og þess næsta. Í lok ágústmánaðar sl. sendi félmrn. stjórn heimilisins tillögu að þjónustusamningi sem stjórn Sólheima hafnaði og lagði fram tillögu sem felur í sér umtalsvert hærri fjárveitingu en félmrn. hefur getað fallist á. Stjórnendur Sólheima hafa kynnt fjárln. óskir sínar og þá hefur nefndin rætt við fulltrúa félmrn. og fjárlagaskrifstofu fjmrn. um mál þetta. Niðurstaða fjárln. er sú að teknu tilliti til þeirra skipulagsbreytinga sem átt hafa sér stað á árinu 1993, þ.e. að hluti vistmanna fær nú greiddan örorkulífeyri sem að hluta gengur til rekstrar vistheimilisins, eigi fjárframlag ríkissjóðs til heimilisins í ár að nema um 68 millj. kr. og er sú fjárhæð í samræmi við álit félmrn. og fjárlagaskrifstofu fjmrn.
    Í fjárlögum ársins 1993 er gert ráð fyrir fjárveitingu til rekstrar að upphæð um 81,4 millj. kr. sem er um 13 millj. kr. hærri fjárhæð en tillaga að þjónustusamningi félmrn. gerir ráð fyrir. Í viðræðum við fulltrúa Sólheima hefur komið fram að vistheimilið búi nú við slæma lausafjárstöðu. Samkvæmt upplýsingum frá Sólheimum er áætlað að viðskiptaskuldir nemi um 16 millj. kr. í árslok 1993. Í ljósi þessarar stöðu hefur fjárln. fallist á að fjárveitingin á fjárlögum 1993 standi óbreytt. Fjárln. vill undirstrika að þessi afgreiðsla er til að leysa fjárhagsvanda vistheimilisins sem rekja má til endurbóta á húsnæði heimilisins og skuldasöfnun frá fyrri árum. Afgreiðsla þessi hefur ekki áhrif á fjárveitingu til heimilisins árið 1994.