Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 16:50:38 (2147)


[16:50]
     Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hæstv. fjmrh. hefur hér aðeins komið inn á örfáar af þeim spurningum sem ég beindi til hans og er kannski ekki að öllu leyti sanngjarnt að beina þeim til hans vegna þess að það er mál sem heyrir undir aðra ráðherra. Ég verð að taka það á mig að hafa ekki borið saman þennan lista við frv. en ég hygg að sumt af því sem ég var að spyrja um áðan tilheyri þessum milljarði en engan veginn allt.
    Varðandi milljarðinn og þessar 300 millj., þá er málið það að ríkisstjórnin sótti sér réttinn með bráðabirgðalögum, en hið eðlilega hefði verið að kalla þingið saman. Það sem við höfum verið að vekja athygli á hér mörg er að gerðar hafa verið breytingar á lögum og þingsköpum og það er miklu eðlilegra að þingið, sem fer með fjárveitingavaldið, leggi blessun sína eða hafni beiðnum af þessu tagi. Það er mjög óeðlilegt að ríkisstjórnin taki sér það vald að semja um háar upphæðir án þess að afla til þess fyrst heimilda. Þetta eru ekki eðlileg vinnubrögð og ef menn ætla að halda ríkisútgjöldunum í böndum, þá þarf einfaldlega að breyta þarna um. Og eftir því sem ég þekki til á Norðurlöndunum, þá tíðkast ekki svona vinnubrögð.