Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 16:52:31 (2148)


[16:52]

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil taka undir það með hv. þm. að það þarf auðvitað að laga framkvæmdina á þessum málum og gera breytingar, en það sem ég hef verið að reyna að segja hér er að það hafa orðið stórkostlegar framfarir í þessum efnum. Allt frá 1923 til 1988 var það stundum þannig að það liðu mörg ár þar til staðfestar voru með fjáraukalögum greiðslur sem höfðu átt sér stað mörgum árum áður. Nú er það þó þannig að ráðherrar koma með fjáraukalög fram á viðkomandi ári. Það er reynt að haga því þannig að það sé ekki búið að greiða út þessar heimildir og við höfum reynt að passa upp á það sem við best getum gert. Ef verið er að greiða út heimildirnar, þá höfum við reynt að afla okkur lagalegs réttar til þess og auðvitað gilda bráðabirgðalög í því sambandi þótt menn geti haft þá skoðun að það sé betra að kalla þingið saman. Það er síðan allt annað mál. Ég held því að það verði að segjast eins og er að þessi mál eru í betra horfi í dag en þau hafa verið nokkurn tíma áður og það var tekið mikilvægt skref einmitt 1988 og 1989 í þessum efnum.
    Ég get því miður ekki svarað öllum spurningum í andsvari, enda ekki ætlast til þess og fæ ég að taka til máls síðar, en ég vil vekja athygli á því að ég held að einmitt meginþingskjalið sem lagt var fram í upphafi hafi verið mjög vel upp sett og það sé mjög einfalt að rekja allar tölur í frv. með því að bera fylgiskjölin sem fylgja með frv. við einstakar greinar þess og á það vildi ég leggja sérstaka áherslu.