Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 17:51:38 (2155)


[17:51]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. þm. flutti hér ræðu og varpaði fjöldanum öllum af fyrirspurnum til nokkurra ráðherra. Það gefst auðvitað ekki tækifæri til að svara þeim nú að sinni, en eitt af því sem hv. þm. nefndi var það að ég hefði sagt frá því í umræðu hér á Alþingi að skattar hefðu hækkað þegar miðað er við heilt ár um 1.100 millj. kr. hjá núv. ríkisstjórn og þá er tekin með í reikninginn sú breyting sem nú er fyrirhuguð í þessum mánuði. Það var hins vegar mjög athyglivert að hv. þm. ræddi minna um það hvaða skattabreytingar voru gerðar á þremur árum sem hann var fjmrh., því á nákvæmlega sama mælikvarða voru þær skattabreytingar 10,5--10,6 milljarðar eða tífalt meiri. Þetta er munurinn. Tífalt meiri skattabreytingar hjá hv. þm. og samt sem áður var halli á ríkissjóði síðasta árið sem hann starfaði, síðasta hálfa árið, þ.e. vegna síðustu fjárlaga sem hann lagði fram, hæsti og mesti halli sem hér hefur sést og hann verður ekki einu sinni sleginn í ár, hygg ég. ( Gripið fram í: Næsta ár.) Hann verður ekki sleginn næsta ár og ekki heldur í ár hygg ég. Þetta eru staðreyndirnar sem tala sínu máli og það er þetta sem þingmaðurinn hefði átt að segja í sinni ræðu, en kaus að þegja yfir, þó hann færi vítt um og talaði þar um jólamat og jólapóst og jólaguðspjöll og jólakött og ég veit ekki hvað, rétt eins og . . .  ( Gripið fram í: Ekki um köttinn.) Ekki um köttinn. En hann verður að átta sig á því að hann lék jólasveininn þegar hann var í ráðuneytinu og dældi út peningum og heimtaði síðan það inn með skattinum sem hann gat þá kallað jólaskattinn, ekki satt, fyrrv. ráðherra?