Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 18:25:55 (2168)


[18:25]
     Finnur Ingólfsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég ætla nú ekki að fara að þrátta um það hvernig þetta gekk fyrir sig á þeim tíma er ég starfaði í heilbrrn. Hins vegar get ég verið hæstv. ráðherra sammála um það, ég held að efnislega sé ekki mikill munur á okkar skoðunum í þessum efnum. Gott og vel. Ef svo er, þá vonast ég auðvitað til þess að nokkur verkaskipting komist á milli þessara sjúkrahúsa. Og því vil ég spyrja hæstv. ráðherra, sem ég geri mér grein fyrir að getur ekki komið hér aftur upp í andsvari til að svara, en vonandi tekur hann til máls hér í þessari umræðu: Er hæstv. ráðherra tilbúinn til þess að sýna það í verki með ákvörðun sinni að barnadeild sem núna er verið að færa frá Landakoti, samkvæmt fjárlagafrv. fyrir árið 1994, lendi inn á Ríkisspítölunum þar sem barnadeild er nú þegar til staðar, eða er þetta bara marklaust hjal um verkaskiptingu milli sjúkrahúsanna, með því að ráðherrann ætli að taka þá ákvörðun að færa barnadeildina af Landakotsspítala yfir á Borgarspítalann þar sem engin barnadeild er og er alls ekki nauðsynlegt að vera með barnadeild? Það er hægt að sinna allri sérhæfðri þjónustu í kringum börn, enda er mest af þeirri sérhæfðu þjónustu til staðar á Landspítalanum í dag. Það væri fróðlegt að fá svar við þessasri spurningu og þá um leið kæmi það í ljós hvort hæstv. heilbr.- og trmrh. er einhver alvara með þessari umræðu um verkaskiptingu milli sjúkrahúsanna.