Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 20:29:29 (2174)


[20:29]
     Frsm. minni hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) :
    Herra forseti. Ég fór þess á leit í dag þegar ég talaði fyrir áliti minni hluta fjárln. um þetta mál að hæstv. sjútvrh. kæmi til þessarar umræðu. Hann mun hafa verið þá á sjó fyrir hádegið, á leiðinni frá Vestmannaeyjum, en komst klakklaust í land og er hér kominn að hlýða á þessa umræðu um fjáraukalög 1993. En venjulega hefur sjútvrn. ekki komið mikið inn í þessa umræðu en það er þó svo að þessu sinni að það eru verulegar fjárhæðir í þessum fjáraukalögum sem snerta hans ráðuneyti. Það er beðið um 300 millj. kr. til hafrannsókna í aukafjárveitingu, sem er allnokkuð, en það á sínar orsakir og er ein af þeim ákvörðunum sem var tekin við fjárlagagerð fyrir síðasta ár, fyrir yfirstandandi ár, sem ekki hefur gengið eftir m.a. vegna ósamkomulags í ríkisstjórninni. Það var ætlunin að afla tekna með sölu aflaheimilda Hagræðingarsjóðs sjávarútvegsins og það var einn þátturinn í hinu mikla sértekjuæði sem gekk yfir fyrir ári síðan og hefur reyndar verið að ganga yfir síðustu tvö árin. Hafrannsóknastofnun hefur ekki farið varhluta af þessu að það var ætlunin að selja þessar aflaheimildir. Alþfl. batt nokkrar vonir við þessa sölu --- og þá sé ég mér til mikillar ánægju að hæstv. umhvrh. gengur í salinn, það er gott að hafa hann við þessa umræðu og ber vel í veiði. Alþfl. batt nokkrar vonir við þessa veiðileyfasölu eða sölu á aflaheimildum að þetta væri vísir að auðlindaskatti sem flokkurinn og alþýðuflokksmenn eru mjög áhugasamir um að koma á.
    Nú hefur þetta ekkert gengið eftir og engar aflaheimildir verið seldar. Þess vegna vantar 300 millj. til að kosta hafrannsóknir á yfirstandandi ári en málið er kannski enn þá flóknara en þetta. Það var ætlunin að leggja fram frv. um þróunarsjóð sjávarútvegsins þar sem yrði tekið á þessu máli og ákveðið fyrir næsta fiskveiðiár að úthluta þessum aflaheimildum sem eru núna um 13.000 tonn eða þorskígildi og mundi muna um það fyrir þá sem eru í svelti með aflaheimildir sem eru ærið margir, það þarf ekki að rekja.
    Nú er það svo að þetta margumtalaða frv. er ekki komið fram og þegar afgreidd voru á Alþingi bráðabirgðalög vegna kjarasamninga þá var felld brtt. frá stjórnarandstöðunni um að úthluta þessum aflaheimildum ókeypis. Hér eru í gildi lög um Hagræðingarsjóð frá 15. maí 1990, með síðari breytingum, þar sem segir svo í 6. gr.:
    ,,Hagræðingarsjóður skal`` --- og takið nú eftir --- ,,við upphaf hvers fiskveiðiárs gefa útgerðum þeirra skipa, er aflahlutdeild hafa af botnfisktegundum sem sjóðurinn fær úthlutað skv. 5. gr. og ekki eru boðnar byggðarlögum skv. 7. gr., kost á að fá framseldar til sín aflaheimildir sjóðsins gegn endurgjaldi. Skal forkaupsrétturinn boðinn í hlutfalli við aflahlutdeild hvers skips af þeim tegundum sem sjóðurinn hefur forræði á. Endurgjald skal miðað við almennt gangverð á sams konar heimildum að mati ráðherra. Ráðherra getur með reglugerð ákveðið lágmark þeirra aflaheimilda sem forkaupsréttur samkvæmt þessari grein nær til.``
    Það er nú svo að fiskveiðiárið byrjar 1. sept. og nú spyr ég hæstv. sjútvrh.: Er ekki meiningin, úr því að þessi brtt. frá stjórnarandstöðunni var felld og ekkert frv. er væntanlegt, að Hagræðingarsjóður muni selja þessar heimildir eða bjóða þær til sölu? Ég sé ekki annað en hann sé skyldugur til þess samkvæmt lögum. En til að fyrirbyggja allan misskilning þá er ég ekki fylgjandi því. Ég hefði talið eðlilegast að þessum aflaheimildum yrði úthlutað og það mundi geta lagað til fyrir þeim sem skortir þessar heimildir tilfinnanlega og hafa orðið fyrir mestri skerðingu á þorski. En lagagreinin er einföld. Stjórn sjóðsins hlýtur að bjóða þessar aflaheimildir til sölu nema það verði gerðar einhverjar sérstakar ráðstafanir á næstu dögum til að svo verði ekki. Verði aflaheimildir sjóðsins seldar á þessu ári þá koma auðvitað einhverjar tekjur af því og það er í beinu samhengi við þær 300 millj. sem beðið er um í fjáraukalögunum til Hafrannsóknastofnunar.
    Ég vildi gjarnan fá svar við þessu vegna þess að þetta hefur ekkert fengist upplýst í meðförum fjárln. og meirihlutamenn hafa verið heldur hljóðir þegar spurt hefur verið ítrekað um hvort það sé von á frv. um þróunarsjóð sjávarútvegsins, hvenær það verði, hvort það verði fyrir jól, hvort það verði eftir áramót og hvað verði þá með sölu á þessum heimildum. Ég er þeirrar skoðunar að við getum ekki afgreitt hér blindandi fjáraukalög upp á 300 millj. kr. framlag til Hafrannsóknastofnunar nema vita eitthvað um hvað er ætlun ríkisstjórnarinnar og hæstv. sjútvrh. í þessum efnum. Mér er alveg kunnugt um það að það hefur verið ágreiningur í ríkisstjórninni um þetta efni, það hefur ekki leynt sér og það er meira að segja svo að aðstoðarmaður utanrrh. og hæstv. umhvrh. deila um þessi mál á fundum hjá krötum úti í bæ og nota jólaföstuna til þess þannig að það er bæði á milli flokka og innan flokka ágreiningur um þessi efni, um þessi grundvallaratriði um sjávarútvegsstefnuna. Menn komast ekki einu sinni svo langt að leggja fram frv. um þessi efni, hvað þá meira.
    Ég vil því ítreka spurningu mína til hæstv. sjútvrh. sem hér er mættur: Verður frv. um þróunarsjóð lagt fram fyrir jól og hvaða ráðstafanir verða gerðar varðandi þau lagaákvæði um meðferð á aflaheimildum Hagræðingarsjóðs sem eru í fullu gildi?
    Hér hefur að vonum verið löng umræða í dag um fjáraukalög því sannleikurinn er sá að ég minnist þess ekki að fjáraukalög hafi verið til meðferðar sem hafa farið eins langt fram úr heimildum fjárlaga eins og þessi sem við erum með til meðferðar nú. Hæstv. forsrh. hefur komið upp í andsvörum nokkrum sinnum og talað um það með nokkru stolti að stöðugleikinn sé mikill í þjóðfélaginu, stöðugleikinn sé mikill. Og stöðugleikinn hafi gert ríkisstjórninni fært að lækka vextina. Nokkuð sem fyrrv. ríkisstjórn gat ekki ef ég endursegi lauslega orð hans fyrr í dag. Það er rétt. Það er viss stöðugleiki í þjóðfélaginu. Það er stöðugt atvinnuleysi. Það er atvinnuleysið sem orðið gerandinn í þessu þjóðfélagi. Fyrrverandi ríkisstjórn náði samningum á vinnumarkaði með þjóðarsátt. Þessi ríkisstjórn nær samningum á vinnumarkaði í skugga vaxandi atvinnuleysis. Það er munurinn. Þjóðarsáttin var arfur frá fyrrv. ríkisstjórn og á því hefur verið byggt síðan. Munurinn er sá að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur atvinnuleysið farið hraðvaxandi, atvinnuleysið hefur verið gerandinn í samskiptum verkalýðshreyfingarinnar og ríkisvaldsins síðan.
    Síðan bregður svo við í sambandi við alla þessa vaxtaumræðu nú að nú er ekki minnst á samspil vaxta og ríkissjóðshalla þegar við erum að afgreiða og ræða um fjáraukalög sem fara hvorki meira né minna en 7,8 milljarða fram úr heimildum fjárlaga, það er ekki minnst á samspil vaxtanna og þessa halla. Þannig að vaxtalækkunin getur því miður orðið skammgóður vermir og það hefur verið rakið í dag að raunvextir í bankakerfinu eru enn mjög háir, bankarnir lækka ekki vextina vegna þess að þeir hafa ekki trú á vaxtastefnunni og telja sig þurfa að tryggja sig og leggja í afskriftarsjóði vegna ástands atvinnulífsins í landinu.
    Það er mikil kokhreysti að koma hér upp í ræðustól í Alþingi og guma af stöðugleikanum í þjóðfélaginu. Stöðugleikinn í þjóðfélaginu nú grundvallast á stöðugu atvinnuleysi. Það skyldu hæstv. ráðherrar hafa í huga.
    Ég minntist örlítið í morgun á Lánasjóð ísl. námsmanna. Til hans eru lækkaðar heimildir. Ég vildi aðeins bæta örfáum orðum við um þann sjóð. Þar eru heimildir lækkaðar um 60 millj. kr. Það skeður vegna þess að lánþegum sjóðsins fækkar. Það hefur hins vegar verið sagt á móti að nemendum í háskólanum fjölgi. Ég vil hins vegar leiðrétta þann misskilning að draga af þessu rangar ályktanir. Það er vegna þess að nú fer fólk miklu minna erlendis í nám en áður og það fólk fer í háskólann en lánþegum á síðasta skólaári hjá Lánasjóði ísl. námsmanna fækkar um 30% á skólaárinu 1992 til 1993. Þar af er einn markhópur sem er hærri og það eru einstæðar mæður í námi. Þeim hefur fækkað um 35% á síðasta skólaári. Þó að gott sé að sjá mínustölur í fjáraukalagafrv. þá horfi ég ekki á þessa mínustölu með miklu stolti og ég vil vara við því að horfa á hana með miklu stolti. Ég hef ekki kallað hæstv. menntmrh. hér til þess að ræða þessi mál, það gefst vafalaust tækifæri til þess innan tíðar þegar við ræðum um fjárlagafrv. fyrir næsta ár, þá koma þessi mál til umræðu og ég þarf ekki að orðlengja um þau frekar undir þessum lið.
    Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni fyrr í dag, eða andsvari, ég hjó eftir því að hann sagði að gengisöryggi væri mikið. Það var hluti af stöðugleikanum í þjóðfélaginu. Ég er að vísu ekki hagfræðingur og ég get viðurkennt í þessum ræðustól að ég er ekki einn af fremstu efnahagssérfræðingum þjóðarinnar. ( Fjmrh.: Hvaða lítillæti er þetta.) Það get ég viðurkennt. Hæstv. fjmrh. er nú efins um að ég segi satt en ég kem því þó ekki heim og saman þegar hljóðið er í sjávarútvegsmönnum og undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar eins og það er um þessar mundir og flokksbróðir hæstv. forsrh., stjórnarformaður Byggðastofnunar, sendir honum sérstakt bréf um neyðarhjálp fyrir undirstöðuatvinnuvegina í heilum landshluta og aðrir taka undir í einum kór að þetta sé ekki sérstakt ástand fyrir Vestfirði. Síðan var Verðjöfnunarsjóður sjávarútvegsins greiddur út á síðasta ári og tæmdur, en þá er hægt að segja að gengisöryggi sé mikið. Ég vil a.m.k. fá nánari útlistingar á þessu frá meiri efnahgssérfræðingum heldur en ég er og auglýsi eftir því hér.
    Þessi fjáraukalög fara mjög fram úr áætlun eins og ég kom inn á áðan. Ég viðurkenni vissulega vanda ríkisfjármálanna, hann er mikill og hann er mikill fyrir það að atvinnuástandið er eins og það er. Hjól atvinnulífsins hafa ekki snúist af fullum krafti. Ríkissjóður tapar tekjum og það hefur ekki tekist að skera niður á móti. Hins vegar bar vel í veiði í dag að hér barst allt í einu inn á borðið leiðarvísir um lækkun ríkisútgjalda og ég horfði dálítið grannt á þetta þegar ég fékk það í hendurnar því hér stendur: ,,Lækka mætti ríkisútgjöld um 50 milljarða og byrja að greiða niður skuldir í stað þess að veðsetja ungu kynslóðina.`` 50 milljarðar eru helmingurinn af fjárlögunum. Síðan fer ég að fletta og í ljós kemur að útgefandinn að þessu riti er kompaní sem heitir Viðreisn hf. og ber það virðulega nafn sem bæði kratar og sjálfstæðismenn hafa varla getað tekið sér í munn ógrátandi upp á síðkastið. ( ÓRG: Næst verður bara Sjálfstæðisflokkurinn á þessu.) Það getur verið en þetta kompaní heitir Viðreisn hf. og ritstjóri er dr. Hannes Hólmsteinn Gissurarson ( GHelg: Þessi kostulegi.) sem er kostulegur að sögn hv. 1. þm. Vestf., Matthíasar Bjarnasonar, en þessi Hannes Hólmsteinn er í fjölmiðlum alla daga, oft á dag. Ef það er kallaður einhver fulltrúi til þess að tala fyrir sjónarmiðum frjálshyggju, sem á upp á pallborðið í Sjálfstfl., þá er hann kallaður fyrir. Hér er mikil forsíðugrein, hér er mynd af hv. 3. þm. Reykv. og vitnað í hann og hér er mynd af hæstv. forsrh. og síðan er mynd af framkvæmdastjóra sjónvarpsins á næstu síðu sem hefur komið við sögu í þingsölum. Síðan er forsíðugrein með löngum lista yfir það hvað hægt er að skera niður og ef við hefðum gengið svona til verks í fjárln. þá værum ekki að skila fjáraukalögum með 13,8 milljarða kr. halla. Hér kennir nefnilega margra grasa. Hér á að leggja Halldór Blöndal og hans starfsemi niður eins og hún leggur sig. Allt sem viðkemur honum og m.a. aðalskrifstofu landbrn., sýnist mér að eigi að leggja

niður með hæstv. landbrh. Halldóri Blöndal.
    Hér á listanum er biskup Íslands með 39,5 millj. Prestaköll, eins og þau leggja sig og prófastsdæmi og prestssetur. Svo koma ýmsir liðir eins og Vegagerð ríkisins, stofnkostnaður upp á 3 milljarða. Menntamál upp á 2,2 milljarða og heilsugæsla, sjúkrastofnanir og sjúkratryggingar upp á 6,7 milljarða. ( ÁMM: Hvað færðu borgað fyrir þessa auglýsingu?) Það er von að hv. 3. þm. Reykn., Árni Mathiesen, reki upp stór augu. En hins vegar eru hér tillögur um aukin útgjöld. Það er styrktarsjóður í heilbrigðismálum 1,3 milljarðar.
    Þetta eru hugmyndir frjálshyggjunnar. Ég er ekki að lesa þetta upp til að auglýsa ritið þó vissulega ættu sem flestir að lesa þetta. Ég ráðlegg mönnum að lesa þetta rit mjög vandlega. Þessi sjónarmið eru nefnilega mjög hátt skrifuð um þessar mundir. Það er verið að tala með nokkrum öfgum að vísu, það viðurkenni ég. Ég er ekki að bera það upp á alla hv. þm. Sjálfstfl. að þeir séu þessarar skoðunar en þessi sjónarmið eru hátt skrifuð í flokki þeirra. Það er hið alvarlega mál. Það skyldu hv. þm. Sjálfstfl. gera sér grein fyrir.
    Það er fleira áhugavert í þessu riti en ég ætla ekki að lesa meira upp úr því nema bara minnast á það að hér er smágrein um það hvar þeir sem fara til Rio de Janeiro eiga að gista ( ÁMM: Lestu á bls. 46.) og hvaða hóteli þeir eigi að vera á til þess að vera nægilega öruggir fyrir fátæklingum og öðrum götulýð, hvaða hótel hefur þar mest öryggi og hvar þotufólkið er. ( GE: Hvaða hótel er þetta?) Það er Hótel Sheraton Rio, 553 herbergi. Hér stendur, með leyfi forseta: ,,Þeir sem kvíða því að fara til Rio de Janeiro vegna fregna af ofbeldi og fátækt í borginni ættu að gista á Rio Sheraton því það tryggir öryggi gesta sinna sennilega betur en nokkurt annað gistihús í Rio de Janeiro.`` ( ÁMM: Lestu nú bls. 46, Jón.)
    Nú ætla ég að leggja þetta rit frá mér og ekki lesa meira upp úr því vegna þess að þau sjónarmið sem þetta rit er að koma á framfæri njóta mikils framgangs í Sjálfstfl. um þessar mundir. Það eru ekki eingöngu mín orð, ef hv. þingmenn eru í vafa þá skulu þeir spyrja t.d. hv. 1. þm. Vestf. sem er að gefa út bók um þessar mundir og segir m.a. að hæstv. fjmrh. hafi verið einn af upphafsmönnum þessarar stefnu í Sjálfstfl. Ég trúi því varla upp á hæstv. fjmrh. að hann hafi verið upphafsmaður þeirra sjónarmiða sem enda í svona samansetningi. Ég held að þetta hljóti að vera eitthvað orðum aukið en hins vegar vil ég vara við þessum sjónarmiðum og hvert þau benda inn í framtíðina.
    Það mætti tala langt mál um sjúkrahúsin og heilbrigðismálin sem bar á góma í dag vegna aukafjárveitinga til þeirra. Hæstv. heilbrrh. er ekki hér staddur og ég mun ekki kalla hann til vegna þess að hann hafði samband við mig og er forfallaður í augnablikinu en ég vil þó segja það þó hann sé ekki hér staddur að það var mjög lærdómsríkur morgunn fyrir fjárln. að ræða við forsvarsmenn sjúkrahúsanna í Reykjavík sem fullyrða og segja fullum fetum að allur þessi sparnaður, sem fyrrv. heilbrrh. og alþýðuflokksráðherrarnir hafa verið að guma af í heilbrigðiskerfinu, sé enginn, meira og minna tóm vitleysa og einn forsvarsmaður spítalanna kom og auglýsti eftir stefnu í heilbrigðismálum. Það kom fram að sértekjur á einum stærsta spítalanum eða Borgarspítalanum eru 45 millj. kr. lægri á þessu ári en fjárlög gerðu ráð fyrir. Það er auðvitað m.a. vegna þess að fólk kemur ekki í eins miklum mæli og hér hefur verið rakið.
    Ég hef nóterað hjá mér efnislega þar sem talað er um ástand spítalanna að það leki ofan úr loftinu ofan í vatnsglös sjúklinganna og sjúklingar og starfsfólk sé í hættu í einangrunardeild spítalans vegna þess að plötur lafa niður úr loftinu og rignir inn um glugga og vindar og vatn leika lausum hala um sjúkraskýrslur og önnur gögn. Þetta er nú ekki falleg lýsing.
    Síðan hef ég líka skrifað hjá mér að starfsfólk spítalanna finnst óhuggulegt að sjá í hvaða ástandi það fólk er sem er útskrifað af spítölunum og sent heim.
    Það er aðeins gripið niður í minnispunkta á morgunfundinum í fjárln. Og það er klykkt út með því að flutningurinn á bráðavöktunum af Landakoti yfir á Borgarspítalann hafi skilað sáralitlum sparnaði.
    Ég vil aðeins grípa niður í þessi mál þó að hæstv. heilbrrh. sé hér ekki en það er svo sannarlega þörf á og verður gert áður en lýkur að ræða þau mál sem varða heilbrigðiskerfið í landinu ofan í kjölinn.
    Ég vil að lokum endurtaka þá spurningu sem ég bar fram í upphafi til hæstv. sjútvrh.: Er von á frv. um þróunarsjóð og málefni sjávarútvegsins fyrir jól? Hvenær er von á þeim og hvað verður gert varðandi aflaheimildir Hagræðingarsjóðs?