Fjáraukalög 1993

48. fundur
Fimmtudaginn 02. desember 1993, kl. 22:13:14 (2199)


[22:13]
     Heilbrigðisráðherra (Guðmundur Árni Stefánsson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Eins og ég sagði hér áðan ætla ég ekki að elta ólar við tíu aura og fimmkalla í þessu sambandi. Ég gerði í nokkum orðum grein fyrir því hvað lægi þarna að baki. Ég vil hins vegar rifja það upp ef menn skoða útgjöld sjúkrahúsa í Reykjavík einn áratug aftur í tímann eða jafnvel meira getum við þó verið sammála um það að útgjaldavöxturinn hefur verið stöðvaður því að sannarlega eru verkefnin óþrjótandi og verða sennilega alltaf. Þannig að ég bið þó ekki um annað en að við getum verið sammála um það að þarna hafi útgjaldavöxturinn verið stöðvaður og þó án þess að dregið hafi úr þjónustu þrátt fyrir staðhæfingar um hið gagnstæða.