Viðhorf ríkisstjórnarinnar til veiða Íslendinga í Smugunni og við Svalbarða

49. fundur
Mánudaginn 06. desember 1993, kl. 15:28:54 (2232)



[15:28]
     Hjörleifur Guttormsson :
    Virðulegur forseti. Það sætir furðu hversu ríkisstjórn Íslands virðist óviðbúin að taka á þeim málum sem hér hefur verið vakið máls á og mikið hafa verið rædd frá því á síðasta sumri. Það er auðvitað mjög slæmt þegar æðsta stjórnvald í landinu er með misvísandi yfirlýsingar og dregur við sig að koma fram með skýra stefnumörkun. Það er því ekki seinna vænna að það sé reynt að stilla saman strengi hér á hv. Alþingi eins og nú er verið að reyna að gera í þessum brýnu málum sem hér eru rædd.
    Ég lít svo til að hér sé um aðskilin efni að ræða. Veiðar á alþjóðlegu hafsvæði í svokallaðri Smugu í Barentshafi er mál út af fyrir sig og ætti ekki að þurfa að valda miklum deilum hér eða á alþjóðavettvangi þar sem um alþjóðlegt hafsvæði er að ræða. Veiðar innan efnahagslögsögu sem Norðmenn hafa tekið sér við Svalbarða eða fiskverndarlögsögu er allt annars eðlis og ber ekki að blanda saman að mínu mati við veiðar í Smugunni. Það er hins vegar rannsóknarefni út af fyrir sig hvernig stendur á því að íslenska utanríkisþjónustan og raunar Alþingi Íslendinga skuli ekki hafa gert athugasemdir við það að við stöndum utan við samkomulag sem er frá árinu 1920.
    Almennt um úthafsveiðar utan við efnahagslögsögu ríkja vil ég segja það, virðulegur forseti, að lokum að ég tel að við þurfum að gæta þar fyllstu varkárni og samkvæmni í sambandi við þann rétt sem við teljum æskilegt að sækja okkur til frekari réttinda utan við 200 mílur. Og við hljótum að hafa það í huga að sjávarauðlindir eru í geigvænlegri hættu á ofnýtingu og það skiptir meginmáli að náist alþjóðlegt samkomulag um verndun þeirra.