Svar við fyrirspurn um kaup á björgunarþyrlu fyrir Landhelgisgæsluna

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 13:40:58 (2248)


[13:40]
     Ingi Björn Albertsson :
    Virðulegi forseti. Ég hlýt að harma að það skuli ekki vera neinar leiðir til fyrir þingmenn að gera athugasemdir við þau svör sem koma frá viðkomandi ráðuneytum. Ég tel að þingmenn hafi ekkert annað að leita en til forseta þingsins og forsætisnefndar ef þeir hafa alvarlegar athugasemdir við svör sem berast frá ráðuneytunum. Að öðrum kosti geta ráðuneytin náttúrlega komist upp með að svara hvernig sem þeim þóknast og svara ekki neinu eins og reyndar í þessu tilfelli hér. Ég vil gjarnan að það komi fram að ég veitti ráðuneytinu umframfrest, umfram það sem þingsköp gera ráð fyrir, til þess að svara þessari fyrirspurn og bjóst þá auðvitað við því að svarið yrði fyllra og nákvæmara. Menn geta svo dæmt um það hvernig til tókst hjá ráðuneytinu þegar upp var staðið. Ráðuneytið fékk um þriggja vikna umframtíma til að svara, en það endar sitt svar 4. maí þrátt fyrir það að mér hafi verið gefið í skyn að það væru ákveðin störf í gangi sem tækju örfáa daga og það væri betra að doka fram yfir þann tíma til að fá fyllra svar. En síðan kemur þetta svar sem hér er. Og ég hlýt þá að spyrja viðkomandi ráðherra sem er staddur hér: Hvað í svarinu kallaði á þennan frest? Ég get ómögulega séð það hvað í svarinu kallaði á hann. Ég kunni alveg þennan þráð um það hvernig hinar ýmsu nefndir voru skipaðar og hinu ýmsu ráðgjafahópar voru skipaðir og hvernig þeir störfuðu. En spurningin var afar einföld. Hvað tefur það að ekki skuli gengið til samninga um kaup á björgunarþyrlu? Og ég trúi því ekki að menn hlusti ekki og fari ekki eftir þeim orðum og þeim yfirlýsingum sem hæstv. forsrh. gaf. Hann sagði í lok febrúar sl. að innan fárra vikna yrði þessi samningur gerður og ég hlýt að spyrja hæstv. forsrh. sem ég sá hér aðeins bregða fyrir áðan: Hvað táknar fáar vikur í hans huga?