Prestssetur

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 14:13:32 (2257)


[14:13]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég held að það sé rétt að athuga þetta frv. vandlega áður en það verður afgreitt sem lög frá Alþingi. Hæstv. ráðherra lagði til að þetta mál yrði sent allshn. til meðferðar, en ég vil óska eftir því að hv. allshn. sendi hv. landbn. málið til skoðunar einnig, því það er þess eðlis að óhjákvæmilegt

er að landbn. fjalli líka um það. Hér er um verulega breytingu á gildandi lögum að ræða. Í 4. gr. segir t.d., með leyfi forseta:
    ,,Stjórn prestssetrasjóðs er heimilt að kaupa og selja prestssetur eða réttindi sem tengjast þeim, en samningur verður ekki bindandi fyrir aðila nema kirkjuþing og dóms- og kirkjumálaráðherra hafi heimilað þá ráðstöfun.``
    Síðan segir í athugasemdum um 4. gr., með leyfi forseta:
    ,,Ákvæði þetta mælir fyrir um heimild sjóðstjórnar til kaupa og sölu á prestssetrum. Tryggilegra þykir að gera áskilnað um að kirkjuþing skuli heimila slíka ráðstöfun svo að hún öðlist gildi. Enn fremur þykir rétt að áskilja að samþykki dóms- og kirkjumálaráðherra þurfi til slíkra ráðstafana. Sú regla helgast m.a. af því að frumvarp þetta tekur ekki til eiginlegs eignarréttar yfir prestssetrunum eins og fyrr sagði. Þykir því rétt að tryggja ríkisvaldinu áfram vissan íhlutunarrétt með þessum hætti uns eignamál verða til lykta leidd.``
    40. gr. stjórnarskrár hljóðar svo: ,,Engan skatt má á leggja né breyta né af taka nema með lögum. Ekki má heldur taka lán, er skuldbindi ríkið, né selja eða með öðru móti láta af hendi neina af fasteignum landsins né afnotarétt þeirra nema samkvæmt lagaheimild.``
    Ég tel að það orki tvímælis að 4. gr. samræmist stjórnarskránni. Ég skil það svo að hingað til hafi sala kirkjujarða þurft að lögfestast á Alþingi. Ég tel reyndar og hef flutt um það frv. nokkrum sinnum, að réttara sé að samþykki Alþingis komi til ef verið er að selja meiri háttar eignir ríkisins, þ.e. ekki bara fasteignir heldur hlutabréf eða eignarhlut í félögum, skip eða flugvélar, listaverk, listmuni eða söfn sem geyma menningarverðmæti og aðrar eignir sem hafa verulegt verðgildi. Ég tel sem sagt að það ætti að áskilja það um sölu fleiri ríkiseigna heldur en fasteigna, að samþykki Alþingis þurfi að koma til. En samkvæmt þessu er það lagt í hendur kirkjuþings að ákveða hvort sala fari fram eða ekki.
    Nú er eignarmál kirkna mjög flókið mál og mig rak í rogastans þegar ég heyrði í fréttum fyrir 2--3 árum yfirlýsingu frá núv. hæstv. kirkjumálaráðherra að hann vildi afhenda kirkjunni kirkjujarðir. Ég held að það sé mál sem þarfnist verulegrar athugunar áður en gert verður. Hér er verið að afhenda prestssetrin. Ég nefni eitt dæmi sem sýnir hvað þetta er fráleitt sjónarmið sem fram kom hjá hæstv. ráðherra. Kirkjujörðin Valþjófsstaður er ríkiseign. Ef kirkjunni væri t.d. afhentur Valþjófsstaður í Fljótsdal, þá væri kirkjunni jafnframt afhent virkjunarréttindi Fljótsdalsvirkjunar að langmestum hluta. Nú eru sum prestssetur mikil dýrmæti og margar kirkjujarðir. Ég nefni t.d. Heydali og Kolfreyjustað í Vopnafirði, svo ég nefni aðeins fáein af þessum dýrðarhöfuðbólum, og þar sitja prestar sem eru regluleg staðarprýði. Ég vil ekki láta svona jarðir lenda í braski. Þess vegna tel ég mjög óeðlilegt að ekki þurfi heimild Alþingis til þess að selja svona eignir.
    Ég ætla ekki að orðlengja um Þingvallafund hinn nýjasta. Hann er alveg sér á parti. Ég tek undir sumt af því sem hv. síðasti ræðumaður, 9. þm. Reykv. sagði þar um, en ekki allt saman. Ég tel að Þingvallafundur hinn nýjasti sé einstæður að smekkleysi, þ.e. að halda stjórnmálafund í embættisbústað þjóðgarðsvarðar, sem er einnig Þingvallaprestur, á 75 ára afmæli fullveldisins. Það er í sjálfu sér þannig að varla er hægt að hugsa sér að ganga lengra í smekkleysi. Hæstv. forseti Alþingis kórónaði smekkleysuna með því að vera frummælandi á þeim fundi. Ég lít svo á að hæstv. forseti hafi ekki verið þar mætt sem stjórnmálamaðurinn Salome Þorkelsdóttir heldur sem einingartákn og höfuð Alþingis og það á sjálfan fullveldisdaginn. Það gildir mig hins vegar einu þótt hv. þm. séra Gunnlaugur Stefánsson boði til funda í embættisbústað sínum, það er allt annað mál.