Uppboðsmarkaður fyrir sjávarafla

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 16:53:26 (2286)

[16:53]
     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Í samningi EFTA-ríkjanna við Evrópubandalagið er óheimilt að gera upp á milli borgara ríkjanna á grundvelli þjóðernis hvað varðar frelsi til að mega stunda verslunaratvinnu. Á hinn bóginn eru í þeim samningum, að því er okkur Íslendinga varðar, ákveðnir fyrirvarar um heimildir útlendinga til þess að fjárfesta í sjávarútvegsfyrirtækjum. Þeir gilda hins vegar ekki um fyrirtæki sem versla með fisk og því þykir nauðsynlegt að flytja frv. til laga um breytingu á lögum um uppboðsmarkaði fyrir sjávarafla þar sem borgarar í ríkjum hins Evrópska efnahagssvæðis eru undanþegnir skilyrðum um ríkisfang og búsetu samkvæmt þeim reglum sem settar eru.
    Frv. þetta var flutt á síðasta þingi og er flutt óbreytt í þeirri mynd í samræmi við þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Það breytir hins vegar í engu, eins og ég hef tekið fram, þeim fyrirvörum sem gerðir voru í samningum og lögbundnir eru í íslenskum lögum um eignaraðild útlendinga að sjávarútvegsfyrirtækjum almennt.
    Ég legg svo til, frú forseti, að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.