Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 20:42:49 (2316)


[20:42]
     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar þessi mál voru hér síðast til meðferðar, þá upplýsti hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson eftir sínum útreikningum og hyggjuviti að það mundi vanta 250 millj. kr. upp á það að fjármunir dygðu til þess að standa við þær skuldbindingar sem hér er verið að gera tillögu um. Og niðurstaðan er nákvæmlega sú sama. Það er dálítið merkilegt að hugsa um þetta með hliðsjón af því að tölur hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar á sínum tíma þóttu svo vitlausar að það væri ekki einu sinni ástæða til að hlusta á það sem hann sagði, hvað þá heldur að taka mark á því. Þannig liggur núna fyrir að það sem stjórnarandstaðan sagði þegar þessi breyting á meðlögunum var tekin upp er rétt og þessi hækkun meðlaganna stóðst ekki veruleikann, enda var verið að hækka þau úr ef ég man rétt 7.500 kr. í um það bil 11 þús. kr. á mánuði. Þessi tillaga hæstv. fjmrh. er auðvitað ákaflega góð og skýr viðurenning á því að undirbúningurinn að ráðstöfunum í ríkisfjármálum í fyrra var slakur, áætlanagerðin stóðst ekki. Ég tel út af fyrir sig fagnaðarefni að hæstv. fjmrh. skuli viðurkenna það. Hitt er þó alvarlegra að hann hótar því hér að gera lögtak fyrir barnsmeðlögum í öðrum opinberum bótum sem þessir aðilar eru að greiða. Eins og hverju? Eins og þá væntanlega aðallega örorkubótum og atvinnuleysisbótum sem eru stærsti hluti opinberra bóta sem þessir aðilar fá. Ég er sannfærður um að hann getur náð kannski samkomulagi við sveitarfélögin um þetta efni, en það segir mér ekki neitt. Hér er bersýnilega um að ræða kerfi sem gengur ekki upp og það er ekki nóg að semja við sveitarfélögin um ráðstöfun þessara mála.