Fjáraukalög 1993

51. fundur
Þriðjudaginn 07. desember 1993, kl. 21:49:10 (2329)


[21:49]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Hér eru fjáraukalögin komin til 3. umr. og lögð er fram brtt. sem hv. fjárln., a.m.k. minni hluti hennar, sér nú í fyrsta skipti og hefur ekki heyrt orð um í starfi nefndarinnar til þessa og lýsir það kannski í stuttu máli þeim vinnubrögðum sem því miður viðgangast nokkuð oft í þeirri nefnd.
    Í fyrra var einmitt rætt nokkuð um þá breytingu sem þá var verið að gera á meðlögum og eins og flestar þær aðgerðir sem hæstv. ríkisstjórn greip til átti þetta að vera til sparnaðar. Að sjálfsögðu átti það að vera til sparnaðar fyrir ríkissjóð. Og samkvæmt því sem hæstv. heilbrrh. sagði þegar hann lagði fram það frv. sem gerði ráð fyrir hækkun meðlags sem við erum nú að súpa seyðið af með þessari brtt. í fjáraukalögunum. Þegar hann var að leggja fram það frv. sagði hann, með leyfi forseta:
    ,,Heildaráhrif til lækkunar á útgjöld ríkisins af 1. og 2. gr. eru því upp á um það bil 500 millj. kr. Þar af bera meðlagsgreiðendur um það bil 350 millj.`` Þ.e. ríkið var að spara sér nákvæmlega tiltekið þarna 350 millj. því þó að hann tali fyrst um sparnað upp á 500 millj. og þar eigi meðlagsgreiðendur að taka 350, þá er sjálfsagt afgangurinn eftir hjá ríkinu. Sem sagt: Meðlagsgreiðendur áttu að spara ríkinu 350 millj. kr. Samkvæmt því sem þetta frv. sem hann var að mæla fyrir sagði fyrir um, þá átti að hækka meðlagið um tæpar 4.000 kr. á mánuði. Í meðförum Alþingis var síðan fallið frá því að hækka meðlagið um 4.000 kr. heldur var það hækkað um 3.000 kr. Þá hlýtur að liggja í hlutarins eðli að sparnaður ríkisins hafi ekki átt að verða 350 millj. kr. af þessari aðgerð, heldur þá 1 / 4 minna eða 90 millj. kr. minna og þá eigum við eftir sparnað ríkisins af þessari ráðstöfun 260 millj. kr. Sem sagt, sparnaðurinn af þessari aðgerð í meðlagsgreiðslum var 260 millj. kr. þegar frv. varð að lögum.
    Nú kemur brtt. frá hæstv. fjmrh. um það að bæta Jöfnunarsjóði sveitarfélaga 250 millj. kr. sem er vegna þess að það er svo mikið útistandandi af meðlögum sem ekki innheimtast. Ágóði ríkisins af þessari aðgerð er þá einar 10 millj. kr. ef það fer þá ekki í eitthvað annað. Og hverjir skyldu þá hafa grætt á þessari ráðstöfun, hverjir skyldu hafa grætt á þessum hræringi með upphæðir og framlög til og frá eins og er gjarnan venja hæstv. ríkisstjórnar? Í framsöguræðu ráðherra sagði hann þegar hann er búinn að rekja þetta nokkuð, með leyfi forseta:
    ,,Með þessu er ég síður en svo að breiða yfir það að kjarninn í þeim aðgerðum sem hér eru lagðar til er að sjálfsögðu sá að verið er að auka þátt framfæranda barna í framfærslubyrði fjölskyldna einstæðra foreldra án þess að verið sé með því að bæta kjör þessara fjölskyldna.`` --- Þessar aðgerðir voru engan veginn til þess að bæta kjör einstæðra fjölskyldna. --- ,,Í sumum tilvikum eru áhrifin þau að kjörin verða ekki betri heldur nokkru lakari eftir en áður þó að það fari dálítið eftir því hvort um er að ræða fólk sem er með tekjur undir frítekjumörkum eða yfir,`` segir hæstv. ráðherra þegar hann var að ræða um þessa breytingu á meðlögum fyrir ári síðan. Hann viðurkennir það hér að í sumum tilvikum verði kjörin hjá einstæðum foreldrum lakari eftir en áður. Og hvað græðir ríkið, en það var tilgangurinn með þessu? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Það græðir ekki neitt. Það situr uppi með skaðann sem það verður að greiða af þessum ráðstöfunum. Og einstæðir foreldrar hafa einnig fengið á sig skerðingu.
    Það er líka rétt að rifja það upp að þegar umræður stóðu um þetta frv. fyrir ári síðan, þá kom það fram hjá fleiri ræðumönnum heldur en hv. þm. Kristni Gunnarssyni sem hér var vitnað í áðan að hefði giskað á að þetta mundi lenda á ríkinu, um 250 millj. kr. sem væri svo eftir að sjá hvernig ætti að greiða. En þá sagði í umræðunum hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Það hefur komið fram í samtölum nefndarmanna við fulltrúa frá Innheimtustofnun sveitarfélaga [þ.e. nefndarmanna í hv. heilbr.- og trn.] að þeir hafi miklar áhyggjur af greiðsluskyldu sinni ef þessi hækkun verður að veruleika. Ég tala nú ekki um ef 50% hækkun hefði orðið að veruleika eins og fyrirhugað var. Þá töldu þeir að vanskil mundu aukast úr, mig minnir 245 millj. í 600 millj. á ári. Það hefði þýtt að Innheimtustofnunin hefði þurft að bera þau og sótt þau í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem hefði komið niður á jöfnunarframlagi og þjónustuframlagi þess sjóðs og þar af leiðandi niður á minnstu sveitarfélögunum. Nú skilst mér að komið sé eitthvert samkomulag milli Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og ríkisvaldsins um að Innheimtustofnunin beri aldrei nema 300 millj. kr.`` --- eins og raunar hefur komið hér fram hjá hæstv. ráðherra.
    Enn fremur segir hún: ,,Þá eru eftir, getum við sagt, 200 millj. ef þær hugmyndir um vanskil sem eru uppi í Innheimtustofnun standast. Og maður hlýtur að spyrja sig: Hvert á að sækja þessa peninga? Mér vitanlega er ekki í fjárlögum gert ráð fyrir útgjöldum vegna vanskila. Ef svo er væri sjálfsagt að heilbr.- og trmrh. upplýsti okkur um það hvar gert er ráð fyrir þessum vanskilum í fjárlögum.``
    Það var einmitt ekki gert ráð fyrir þessu. Dæmið var ekki reiknað til enda og nú, heilu ári síðar, á að fara að reyna að gera dæmið upp að einhverjum hluta. Það er því enn og aftur niðurstaðan við 3. umr. um fjáraukalög þessa árs, að sá sparnaður sem hér átti að vera hefur í hæsta lagi skilað 10 millj. kr. ríkissjóð. Og þetta er eins og með aðrar aðgerðir. Þannig að þessar aðgerðir ríkisstjórnarinnar og ekki hvað síst hæstv. heilbrrh., sem nú er reyndar hlaupinn í annan stól, skila akkúrat engu nema því í þessu tilfelli að kjör einstæðra mæðra versnuðu því að einstæðar mæður fengu á sig skerðingu sem var u.þ.b. 12 þús. kr. á ári í

barnabótum.
    Ég verð nú að segja það að í raun og veru veit maður ekki hvar þetta ætlar að enda hjá hæstv. ríkisstjórn. Þetta kemur hvað eftir annað, aftur og aftur. Það eru ævinlega kolvitlausar ákvarðanir sem teknar eru í öllum þeim breytingum sem verið er að leggja til og ekki hvað síst í heilbrigðiskerfinu eins og margoft hefur verið rakið hér í þessum stól.