Fjölgun frystitogara

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 13:37:03 (2344)


[13:37]
     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Hæstv. sjútvrh. fer eins og fyrr að það er eins og hann sé sjútvrh. fortíðarinnar. En ég hefði haldið að hann þyrfti að sitja í þessum stól sem skipstjóri til að mæta þeirri þróun sem er að eiga sér stað í dag. Það er enginn vafi á því að útgerðarmenn eru á flótta frá bátaútgerð og togaraútgerð yfir í frystitogaraævintýri vegna þess að ríkisstjórnin mótar ekki framtíðarstefnu fyrir sjávarútveginn.
    Mér er ljóst að á meðan hv. þm. Halldór Ásgrímsson var sjútvrh. þá reyndi hann að mæta hverjum tíma með nýjum aðferðum og móta stefnu í heild sinni með aðilum sjávarútvegsins. Þetta finnst mér á vanta. Ég get tekið undir það með hæstv. sjútvrh. að hér er mikilvægt að taka upp almenna umræðu um sjávarútvegsmálin og hafa til þess lengri tíma. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann sé tilbúinn að beita sér fyrir því nú fyrir jólin.