Vaxtamál og viðskipti með húsbréf

52. fundur
Miðvikudaginn 08. desember 1993, kl. 14:03:38 (2366)


[14:03]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þetta er auðvitað yfirgengilegt hvernig hæstv. viðskrh. notar hér tækifæri trekk í trekk til að ráðast með þessum hætti að lífeyrissjóðunum og bera þá sökum sem eiga sér enga stoð í veruleikanum, enga stoð. Getur verið að það sem er að gerast hér sé það að ríkisstjórnin er að átta sig á því að vaxtakraftaverkið mikla er að koðna niður í höndunum á henni? Hún þarf að finna sér sökudólg og leitar þá að lífeyrissjóðunum sem hafa um langa hríð m.a. gengið á undan með því fordæmi að hafa lægri útlánsvexti til sinna félaga heldur en ýmsir aðrir. Þannig að það er með öllu ómaklegt að ráðast svona á lífeyrissjóðina, ég tala nú ekki um þegar þeir eru ekki á staðnum til þess að svara fyrir sig.
    Hitt er svo greinilegt að hæstv. viðskrh. veit ekki hvað er að gerast í viðskiptaháttum bankanna gagnvart nýjum húsbréfum. Ég er að tala um viðskiptakjörin á nýjum húsbréfum. Þau ganga nú kaupum og sölum eða bankarnir kaupa þau með afföllum, þrátt fyrir að þeir megi telja þau til lausafjár. Það eru óeðlilegir viðskiptahættir og ég held að viðskrh. væri nær að snúa sér að því að reyna að hafa áhrif á hluti sem hann getur haft áhrif á eins og óeðlilega viðskiptahætti viðskiptabankanna að þessu leyti, en hætti að skamma lífeyrissjóðina og reyni að finna þar blóraböggul fyrir því sem úrskeiðis fer hjá ríkisstjórninni.